Toy Story 3

Það feilar nánast aldrei að í hvert skipti sem gengið er út af mynd frá Pixar-mönnum þá er maður fastur með aulalegt bros límt við varirnar, og það hverfur ekki fyrr en löngu eftir áhorf. Maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því fyrirfram hvort Pixar-mynd – hvort sem hún er stuttmynd eða í fullri lengd – muni kæta mann eða ekki, heldur meira er það spurning um hversu mikið. Það er líka búin að vera borðliggjandi staðreynd í meira en 20 ár að þetta fólk er það langbesta í því sem það gerir og ég virði liðið í tætlur fyrir það að hafa tekið sinn tíma með að gera nýja Toy Story-mynd og passa upp á að sagan sé rétt, í stað þess að henda einni strax á færibandið um leið og sú síðasta halaði inn hrúgu af seðlum. Bara ef Shrek og Ice Age-myndirnar hefðu gert eitthvað svipað…

Þó svo að mínar uppáhalds Pixar-myndir séu The Incredibles og Wall-E þá held ég mikið upp á fyrstu Toy Story-myndina (sama hvernig grafíkin eldist), og önnur myndin er m.a.s. örlítið betri. Ég hafði ekki minnstu áhyggjur af því hvort að þriðja myndin yrði góð eða ekki, en það sem ég átti ekki von á var það að hún reyndist vera enn betri en ég þorði að ímynda mér. Ég bjóst við skemmtilegri mynd með húmor – sem í besta falli yrði aðeins síðri en hinar – en það sem ég fékk í staðinn var stórskemmtileg og hjartnæm mynd með FRÁBÆRUM húmor. Gæðamunur þessara þriggja mynda er virkilega smár en ef ég þyrfti að velja þá myndi ég segja að þessi þriðja sé sú besta af þeim (já, án gríns!), en það munar aðeins hársbreidd á milli hennar og nr. 2 (söngatriðið í lokin á þeirri mynd dró hana örlítið niður. Það náði aldrei til mín). Þetta setur hana í algjöran minnihluta, enda gæti ég talið upp með annarri hendi þau skipti sem þriðju myndirnar í seríum hafa trompað forvera sína.

Vestræni afþreyingarheimurinn væri svo margfalt betri ef við myndum fá fleiri fjölskyldumyndir af þessu kaliberi, og það er sóðalegt hvað þær eru sjaldséðar. Hvað skemmtanagildi varðar er Toy Story 3 gjörsamlega gallalaus og aukastig fær hún fyrir að vera troðin minnisstæðum persónum, bæði nýjum og gömlum góðum. Ég mana ykkur samt til að segja að laumuhomminn (?) Ken sé ekki besta persónan af þessum nýju. Mér fannst hann frábær! Annars fangar þessi saga athygli manns svo sterkt því við höfum þekkt þessar persónur í svo skuggalega langan tíma, og þetta eru allt frábærir karakterar í þokkabót. Ég, eins og örugglega margir úr minni kynslóð og þeir sem eru eldri, hef haft sterka umhyggju fyrir Woody, Buzz og félögum (Hamm er þó bestur. Ekki neita því!) síðan 1995, og þeir sem eru yngri munu ábyggilega finna fyrir stjórnlausri nostalgíu að sjá þá hér enn einu sinni. Ég get líka sagt ykkur það að ef þið eruð á meðal þeirra sem þekkja hinar tvær Toy Story-myndirnar vel og hafið séð þær óheilbrigt oft, þá get ég lofað ykkur að seinustu mínúturnar – áður en kreditlistinn rúllar – munu hitta beint í hjartastað á ykkur. Ég yrði allavega nett sjokkeraður ef fólk byrjar ekki að finna fyrir smá gleðitárum. Aðrir, aftur á móti, munu líklegast bara kalla þetta pínu væmið. Ekki samt segja mér að atriðið með brennsluofninum hafi ekki gefið þér tryllta gæsahúð!

Ef það er einhvern galla að finna í þessum myndum (og ath. þarna tala ég um „þríleikinn“ í heild sinni) þá er það sá að þær eiga til með að endurtaka sig pínulítið. Það koma einstaka sinnum fyrir atvik sem annaðhvort spegla eða eru keimlíkar öðrum senum úr hinum myndunum og þegar heildin er skoðuð þá fara þessi einkenni að skína svolítið í gegn. Hins vegar eru nýjungar einnig til staðar, og sem betur fer mikið af þeim. Ég dýrkaði sérstaklega þá tilbreytingu að sýna Andy leika sér með leikföngin í gegnum epíska fantasíusenu í stað þess að sýna hann hrista dótið til í herberginu sínu. Svona svipað og önnur myndin gerði þegar tölvuleikurinn var sýndur, nema bara fyndnara.

Sem fyrr þá er raddsetningin virkilega lífleg, bæði hjá aðal- og aukapersónum. Útlitið er einnig til glæsilegt og Randy Newman tónlistin kemur sér að sjálfsögðu vel fyrir. Það er líka eitthvað svo huggulegt við það að heyra gömlu stefin aftur, svo ekki sé minnst á það hversu skondið það er að heyra You’ve Got a Friend in Me sungið á spænsku. Allt í góðu gríni auðvitað. Það kemur nefnilega á óvart hversu oft það tungumál fær mann til að hlæja hérna. Þið sjáið það sjálf.

Ég veit ekki hvernig betur á að orða það; Toy Story 3 er kannski ekki eins snjöll og bestu Pixar-myndirnar sem ég taldi áðan upp en það er bókað mál að hún sé ein af þeim alskemmtilegustu. Börn sem og fullorðnir eiga eftir að éta hana upp með bestu lyst, og eins og oft gerist er haugur af bröndurum sem hinir fullorðnu munu veltast úr hlátri yfir á meðan börnin hafa ekki hugmynd um hvað er svona fyndið. En ef þessi mynd kemur þér ekki í gott skap og snertir aðeins við þér þá skal ég dirfast til þess að kalla þig sálarlausan fýlupúka. Ég er m.a.s. enn skælbrosandi og get ekki beðið eftir að sjá myndina aftur.

Besta senan:
Kveðjustundin + ruslahaugurinn.

Sammála/ósammála?