X-Men: First Class

Miðað við reglulegt metnaðarleysi Fox-mynda síðustu ár sem hefur mikið bitnað á gæðum undanfarinna X-Men-mynda var ég farinn að halda að ég ætti ekki eftir að sjá aðra góða mynd í þessari seríu. Að minnsta kosti ekki á næstunni og sérstaklega eftir að Darren Aronofsky hætti við Wolverine 2 (allt snillingunum hjá Fox að þakka. Þeir elska að hemla á þeim sem vilja prófa eitthvað nýtt og spennandi). Besta ákvörðunin í langan tíma hjá þessu stúdiói var að fá þá Bryan Singer og Matthew Vaughn til að snúa aftur til leiks. Þetta sannar að það er oftast betra að fá myndasögunördanna til þess að sjá um hlutina sjálfir.

Singer, eins og flestir bíógúrúar vita, leikstýrði fyrstu tveimur X-Men-myndunum (ásamt Superman Returns) og Vaughn gaf okkur blauta drauminn Kick-Ass í fyrra svo eitthvað sé nefnt. Báðir þessir menn voru fengnir til að vinna að þriðju myndinni í seríunni en á endanum sýndu þeir Fox bara miðfingurinn og fóru. Nú eru þeir komnir aftur (Vaughn leikstýrir, Singer framleiðir, báðir vinna að handritinu) og greinilega með fullt vald yfir verkinu. Ég á allavega bágt með að trúa öðru. X-Men: First Class er of góð mynd til að vera einungis unnin á Fox-færibandinu.

Ef það væri ekki fyrir eina lykilsenu í byrjun sem missir rétt svo marks (hint: krakki öskrar) og nokkra aðra smágalla þá væri þessi mynd betri en X2. Þetta er ekki bara poppkornsmynd heldur alvöru kvikmynd. Mjög vönduð, skörp og með mikla sál. Af öllum fimm myndum seríunnar er þessi sú ferskasta, þroskaðasta og best skrifaða. Hún er ansi djörf og tekur ávallt áhættuna þegar hún getur, sem gefur henni allt öðruvísi svip heldur en maður sér venjulega á Marvel-myndum, eða bara stórmyndum yfir höfuð. Hún dælir heldur ekki háværum kúlnahríðum og eyðileggingum í átt þína bara svo markhópurinn fái sinn skammt, fer síðan heim og gleymir öllu, heldur einblínir hún á söguþráð og persónutengsl með næstum því aðdáunarverðum áhuga. Hasarinn grípur aldrei fram í fyrir sögunni, og lagt er upp úr því að sjá til þess að hann þræðist aldrei óeðlilega inn í hana.

First Class er ekki einu sinni hasarmynd í hefðbundinni merkingu orðsins, og ég er ekki einu sinni svo viss um að yngri áhorfendur verði eins ánægðir með hana og eldra liðið, sem mun betur kunna að meta það hvernig Kúbudeilan vefst inn í söguna. Krakkarnir geta nú alltaf snúið aftur til Wolverine-myndarinnar því það er nóg af stanslausum barnahasar í henni – vafinn utan um algjör þunnildi að sjálfsögðu. Þessi hefur grimmari, fullorðinslegri brag á sér og er meira kjörin fyrir þá sem vilja meira kjöt á beinin. Það er samt aldrei dauðan punkt að finna þrátt fyrir rúmlega tveggja tíma lengd. Hún verður bara misáhugaverð en þó áhugaverð allan tímann. Mikil áhersla er samt lögð á mannlegu þættina, og dramað sem við fáum er furðu áhrifaríkt. Sumar senur eru þvingaðri en aðrar, en þær sem ná að vera góðar eru djöfull góðar.

Það er líka mjög svo hressandi tilbreyting að sjá loksins einhvern annan en Hugh Jackman bera mesta dramað á öxlum sér og hirða megnið af skjátímanum. Wolverine er kannski harður en að mínu mati sárlega einfaldur karakter. Ég vonaðist alltaf eftir því að fá X-Men Origins-mynd um Magneto og þessi er eins nálægt slíkri og við munum nokkurn tímann fá. Erik Lensherr er svo margbrotinn og athyglisverður karakter, sem sveiflast á milli þess að vera sympatískur, viðkunnanlegur, töff, þrjóskur og ógnandi. Maður fær líka að kynnast allt annarri hlið að honum heldur en hinar myndirnar sýndu og Michael Fassbender fetar eins vel í fótspor Ians McKellen og hægt er að gera. Hann hittir á allar réttu nóturnar (þrátt fyrir að detta stöku sinnum í sinn rétta hreim), og James McAvoy er litlu síðri. Senur þar sem þeir tveir spila á móti hvor öðrum eru vafalaust með þeim bestu í allri myndinni og þær einhvern veginn lyfta henni á hærra gæðastig. Líka alltaf gaman að sjá svona dýra Hollywood-mynd styðjast við tvo semí-fræga gæðaleikara í staðinn fyrir súperstjörnur.

Leikhópur myndarinnar er þó nokkuð sérstakur, en fjölbreyttur og skemmtilegur engu að síður. Flestir koma bara vel út þótt sumir hefðu mátt fá meira að gera, en það er því miður galli sem allar X-Men-myndirnar hafa þurft að sætta sig við. En ef á að segja eins og er þá sleppur þessi miklu betur undan heldur en flestir forverarnir. Fassbender og McAvoy þurfa samt mesta fókusinn og það er í raun bara „x“ mikið sem hægt er að gera við svona margar aukapersónur á tveimur tímum. Vaughn passar samt að hver og einn gegni sínu hlutverki án þess að virka tilgangslaus þótt ég geti ekki alveg sagt að sagan hafi grætt mikið á nærveru þeirra Darwin og Angel. January Jones (sem er venjulega fín í Mad Men) er sennilega sú eina sem hefði mátt skipta út hvað frammistöðu varðar, en hún lítur vel út og um leið og líkaminn hennar verður þakinn demöntum er mjög erfitt að spá í leikhæfileikum. Kevin Bacon kemur einnig á óvart sem illmennið og nýtur sín alla leið. Hann er svo kaldur og góður með sig að það verður strax auðvelt að hata hann. Ég get samt varla verið einn um það að hafa fundist það pínu spes að heyra Beikonið tala þýsku („Wünderbar!“).

X-Men-serían er samt óneitanlega komin í dálitla kássu, upplýsingarlega séð, og ef maður raðar núna atburðum saman úr öllum myndunum er fjölmargt sem bara passar ekki. Ef þið skoðið t.d. atburðarás þessarar myndar og hugsið aftur til hinna þá sjáið þið að það eru komnar risastórar „continuity“ holur. Wolverine-myndin hugsaði heldur ekkert um það hvernig sú saga myndi smella við hinn þríleikinn, en það fór meira í taugarnar á mér þar vegna þess að þá leið mér eins og handritshöfundarnir hafi bara verið að drulla á hinar myndirnar án þess að pæla neitt frekar í því. Það er líka þroskaheft hugmynd að gera Logan og Sabertooth að bræðrum þegar slíkt var aldrei gefið í skyn í fyrri myndunum.

First Class gerir svipað og meira af því. Ég myndi jafnvel halda að þetta væri tilraun að reboot-mynd ef útlitshönnunin væri ekki eins eða svipuð og í hinum myndunum. Svo að auki er slatti af tílvísunum í þær, þá faldar, áberandi og næstum því svo augljósar að þær lenda beint í smettinu á þér. Þessar breytingar sem Singer, Vaughn og hinir handritshöfundarnir gera á First Class fóru samt miklu minna í mig. Þær virka ekki eins kærulausar og heimskulegar og í Wolverine, heldur meira sem úthugsaðar aðferðir notaðar til að segja góða sögu enn betur. Og þegar upp er staðið, hverjum er ekki skítsama um það að Hank McCoy hafi sést örstutt í mannlegu formi í X2 þegar breytingin á sér greinilega stað í þessari mynd? Eða hver byggði Cerebro í raun? Ef hver einasta X-Men-mynd hefði verið meiriháttar þá myndi ég kannski – en bara kannski – skipta mér meira af þessu. Sættum okkur bara við það að þetta sé óformleg endurræsing.

Það hvílir oft þannig bölvun á prequel-myndum að þær verða merkilega óspennandi vegna þess að þú veist hvað gerist síðar og hverjir lifa af o.s.frv. Þessi mynd, aftur á móti, ber vott af ósvikinni spennu. Myndin hefur sterkan söguþráð, rétta andann og er allan tímann með heilann starfandi og áhugann í gangi fyrir hverri einustu senu. Sparlega notaður hasar skemmir heldur ekki fyrir ásamt húmor og ákaflega vel heppnuðum retró–stíl á kvikmyndatökunni og andrúmsloftinu. Maður getur ekki annað en hugsað til fyrstu Bond-myndanna frá sjöunda áratugnum.

Þótt það sé að biðja um mikið þá vona innilega að komandi X-Men-myndir verði gerðar af jafnmiklum metnaði og þessi. Annars er Vaughn á góðri leið núna með að vera eitt virtasta nafnið í nördaheiminum í dag.

Besta senan:
Tengist Magneto, Xavier og risastórum gervihnattadisk.
Og peningurinn.

Ein athugasemd við “X-Men: First Class

Sammála/ósammála?