Beastly

Beastly er nákvæmlega það sem þú færð út ef þú tekur hina klassísku sögu um Fríðu og dýrið og kvikmyndar hana fyrir unglinga, eða Twilight-hópana nánar til tekið. Hún er samt ekkert að fela það og virðist alveg vita hvað hún vill. Myndin vill vel og reynir að pína ofan í okkur hundgamlan móral og sýna að hún hafi hjarta, en þjáist allsvakalega fyrir slæm samtöl, ómarkvissa leikstjórn og slakan leik frá ungu en fallegu fólki. Unglingamyndaglansinn með meðfylgjandi FM-tónlist kryddar beinlínis ekki upp á áhorfið heldur, eða skringilega flæðið. (lengdin er ekki nema rétt rúmar 80 mínútur, með kreditlista, og myndin skiptist á því að flýta sér með sumar senur og taka sinn tíma með aðrar). Augljóst er að myndin er alls ekki að fara að ná út fyrir markhóp sinn, en hún gerir svosem enga tilraun til þess heldur og því er auðvelt að pirrast út í hana en erfitt að hata hana.

Ef þú ert semsagt ekki stúlka á aldursbilinu 10-14 ára þá mun Beastly gera skuggalega lítið fyrir þig og er satt að segja ógurleg tímaeyðsla. Það er jákvæðan punkt að finna og það mun vera hinn ávallt skemmtilegi Neil Patrick Harris. Hann gerir gott úr óspennandi aukahlutverki og lífgar aðeins upp á skjáinn þótt maður hefði viljað sjá miklu meira af honum. Skjáparið í myndinni náði aldrei að fanga umhyggju mina og ekki einu sinni nálægt því. Það verður líka svo leiðinlegt með tímanum að maður byrjar að sakna Harris meira.

Þau Alex Pettyfer og Vanessa Hudgens líta vel út (m.a.s. þegar Pettyfer á að vera ljótur er hann ekki ÞAÐ slæmur) en handritið er svo illa skrifað að það er gjörsamlega ómögulegt að taka þau alvarlega. Hvorki þau né nokkurn annan. Ég hefði glaðlega þegið hallærislegu skrif Stephanie Meyer í staðinn (a.m.k. eru hennar samtöl svo bjánaleg að þú hlærð að þeim) og það er eitthvað sem enginn ætti að vilja biðja um! Vill svo einhver gjöra svo vel að segja Mary Kate Olsen – og kannski systur hennar líka – að frægð hennar nái ekki út fyrir ímynd brenndu barnastjörnunnar og fyrirsætunnar. Hún er einn af mörgum kjánahrollum sem ég fékk á meðan ég horfði á myndina.

Sýnishorn þessarar myndar segja þér allt sem þarf að segja. Ef þér finnst trailerinn asnalegur þá mun þér finnast myndin tvöfalt asnalegri. Ef þér leist ágætlega á þetta þá eru meiri líkur á því að þú verðir sáttur með það sem þú borgaðir fyrir. Til vonar og vara myndi ég frekar bíða eftir vídeóinu.

Besta senan:
Allt samanlagt með Neil Patrick Harris safnast saman upp í eina ágæta senu…

Sammála/ósammála?