Super 8

Fyrir þá nýliða sem eru ekki alveg klárir á því þá var Steven Spielberg einu sinni einn besti svokallaði „genre“ leikstjórinn. Þann mann kalla ég „gamla Spielberg“ og var hann ábyrgur fyrir spennandi og fjölbreytta rússíbana – þá bæði tilfinningalega og venjulega – sem náðu alveg frá vísindaskáldskap til hákarlahryllings og eltingarleikjamynda. „Nýi Spielberg“ er þessi sem byrjaði að gera fullt af Óskarsmyndum inn á milli. Sá er vafalaust betri kvikmyndagerðamaður (Schindler’s List er líka ein allra besta mynd sem ég hef séð!), en hinn er sennilegast örlítið skemmtilegri. Þessi nýi hefur samt reynt að feta aftur í fótspor þess gamla en oft með missterkum árangri. Annars dýrka ég þá báða, þrátt fyrir að kallinn þjáist oft fyrir vandamál sem bitna oftast á lokasenunum sínum. Super 8 er án efa stærsta ástarbréfið til gömlu Spielberg-myndanna sem ég hef nokkurn tímann séð, sem er frekar einkennilegt miðað við það að hann er einn helsti framleiðandi hennar.

Það er súrrealískt hvað J.J. Abrams er áberandi ástfanginn af fyrri verkum stjóra síns, og nokkrum af hans nýrri. Handritið hans er hinn furðulegasti nostalgíugrautur sem tekur ýmis (og oft falin) hráefni úr Jaws, E.T., Close Encounters og stráir þau yfir Stephen King-klassíkina Stand By Me með aðeins pínkulítinn vott af War of the Worlds og Jurassic Park-legum hasar. Maður spyr sig hvernig svona útkoma geti verið nokkuð annað en hugmyndasnauð og áreynslumikil en af einhverjum ástæðum tekst Abrams að setja sinn eigin stimpil á þennan tröllvaxna virðingarvott sinn. Og það gerir hann með því að hlaða sögunni passlegu magni af vel uppbyggðri spennu, smá gríni (til að minna okkur á það að þetta á að vera gaman), höggþéttu mannlegu drama sem erfitt er ekki að sogast dálítið inn í og einhverri flottustu lestarslyssenu sem ég hef séð. Þessu er síðan skreytt með trúverðugum leik – þá sérstaklega frá ungu fólki, glæsilegri kvikmyndatöku og öflugri tónlist (bæði score-i og soundtrack-i) sem setur alveg rétta andann. Spielberg-sjálfsfróunin breytist að lokum í faglega unna bíómynd sem setur mjög nýstárlegan svip á gamalt efni. Svoleiðis væri ég til í að sjá oftar frá Hollywood.

Þeir sem hafa horft á einhver sýnishorn fyrir þessa mynd eru fullmeðvitaðir að hér sé um einhvers konar skrímslamynd að ræða. Að segja að það sé eitthvað kvikindi hér á ferð í sögunni tel ég ekki vera spoiler. Sagan á bakvið hvað það er og hvaðan það kemur er aftur á móti allt annar handleggur, og hana læt ég í friði. Það sem heillaði mig samt mest við Super 8 var kjarnasagan, sem gengur út á samskipti tveggja ólíkra feðra, barna þeirra og tengsl þeirra við óheppilegt slys. Myndin er gjörsamlega pökkuð af tilfinningum (og greinilega feðratengdum vandamálum – það gerist ekki meira klassískt Spielberg heldur en það!), jafnvel svo mikið að skrímslið í sögunni er algjört aukaatriði. Abrams veit samt alveg hvað hann vill og lætur aldrei melódramatík eða væmni eyðileggja fyrir sér. Það er geysilega sterk umhyggja til staðar fyrir þessari sögu sem hefur ekki sést áður í mynd frá honum, en kannski það að hann skrifar heilt kvikmyndahandrit sjálfur í fyrsta sinn hafi eitthvað um það að segja. Stundum var mér m.a.s. sama um hvað það var sem gekk laust um bæinn, ég var orðinn svo hrifinn af persónunum og samskiptum þeirra. Enginn leikari stóð sig illa, sama hversu ungur eða óreyndur. Áhrifamestu senuna átti samt hin 13 ára Elle Fanning (Joel Courtney var þarna líka), og það var óhuggulega stutt í það að táraflóð hennar hefði smitast yfir á mig. Rosalega geta þessar Fanning-systur grátið!

Annars hækkar Abrams sífellt í áliti með öllu sem hann gerir, sem sýnir að hann á eftir að verða einn sá besti í sínu fagi í framtíðinni. Ef við látum sjónvarpsmiðilinn í friði (ég datt því miður út úr Lost löngu áður en það kláraðist) og skoðum aðeins kvikmyndaferilinn hans hingað til þá er auðséð að hann betrumbætir sig alltaf aðeins með hverri mynd. Mission: Impossible III – klárlega besta myndin í þeirri seríu – sýndi að hann kynni að búa til fjölbreyttan hasar með einkennandi tökustíl, en rólegu senurnar voru kannski aðeins of stirðar. Svo kom Star Trek, og þá gekk hann lengra með stílinn sinn og dramað var strax orðið betra. Super 8 sameinar alla þá kosti sem hann hefur smalað til sín og bætir hann nýjum við eins og ekkert sé eðlilegra.

Abrams sér einnig til þess að myndin sé jafnmikill rússíbani á þínar tilfinningar og persónanna. Þú hangir á alvarlegu senunum með límdum áhuga en þegar kemur að hörðum spretti undan skepnu sem þú veist ekkert um verður myndin rosalega spennandi, eiginlega á mörkum þess að vera taugatrekkjandi. Abrams meðhöndlar líka spennuuppbygginguna og fjölskylduvæna óhugnaðinn eins og alvöru fagmaður; Engar fyrirsjáanlegar bregður, engin svindl og hann dettur aldrei í þá gryfju að sýna ófétið of snemma til að hætta á því að drepa óttann. Hann hefur þá mikið lært af þeim mistökum sem *hin* skrímslamyndin úr smiðju hans, Cloverfield, gerði, með því að sýna aðeins of mikið og alltof snemma. Hérna fer hann Jaws-leiðina með því að stríða okkur reglulega – sem svínvirkar – og afhjúpar svo á hárréttum stað. Minna er svo sannarlega meira í þessu tilviki.

Það eru nokkrir hlutir sem gengu svolítið yfir strikið fyrir mig, og verst er að gallarnir hrúgast allir nálægt sama staðnum. Endirinn er aðeins of mikil Spielberg-eftirherma, sem ég meina að sjálfsögðu ekki á mjög jákvæðan hátt. Hann var góður upp að vissu marki og kom vel út fyrir söguna en maður fær þá tilfinningu að hann hafi reynt fullmikið að endurgera það sem áður virkaði. Það er líka áberandi symbolismi þarna í endann sem mér fannst jaða við það að vera hallærislegur. Abrams hefði alveg eins getað stafað það út með texta það sem var verið að reyna að segja okkur. Mér finnst frekar undarlegt hvað Super 8 tekst vel að ná öllu því erfiða rétt nema endinum. Ég get heldur ekki sagt að mér hafi fundist skrímslahönnunin verið eitthvað sérstaklega aðdáunarverð, þótt sú kvörtun sé heldur minniháttar. Ímyndið ykkur samt Cloverfield-skrímslið, bara 10 sinnum minna og tvöfalt steraðra. Lúkkið slapp samt alveg, en með frumlegri hönnun hefði það orðið miklu minnisstæðara.

Þessi mynd ætti skilið grjótharða áttu ef ég hefði verið tilfinningalega búinn á því eftir að hafa horft á hana. Ég er ánægður að sjá Abrams vaxa svona mikið sem kvikmyndagerðarmann (hann mætti samt aðeins minnka þetta „lense flare“ æði sitt), en á meðan Super 8 sýnir mestu hæfileikana sem hann hefur hingað til sýnt þá fylgja nokkrir ókostir því að reyna að líkjast átrúnaðargoði sínu of mikið. Spielberg ætti að vita það sjálfur. Hann reyndi að sýna bestu Kubrick-taktana sína þegar hann gerði A.I. fyrir einhverjum áratugi síðan. Sú mynd fór vel af stað og hitti á réttu nóturnar þangað til að leið að lokasenunum, sem voru hörmulegar. Þessi er aðeins betur heppnuð en þjáist alveg jafn mikið þegar uppi er staðið. Semsagt fjandi góð en ekki súper-geðveik.

PS. Fylgist með kreditlistanum.

Besta senan:
Elle Fanning grætur framan í myndavélina. Ein áhrifaríkasta sena ársins hingað til.

Ein athugasemd við “Super 8

Sammála/ósammála?