Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2

Yfirleitt finnst mér samt ósanngjarnt að bera bækur saman við bíómyndir en í vissum tilfellum líkaði mér betur við þær Harry Potter-myndir sem eru byggðar á bókum sem ég var ekkert alltof ástfanginn af (t.d. Goblet of Fire og Half-Blood Prince). Ef skal samt segjast eins og er þá er ég miklu meira kvikmyndanörd heldur en bókanörd og þess vegna eiga myndirnar smá sess í litla hjarta mínu. Sem heild eru þær ótrúlega vel unnar, skemmtilegar, fjölbreyttar í tón og stíl og sagan hefur að mínu mati fengið hörkugóð skil hvort sem ofsatrúaðir aðdáendur bókanna séu sammála eða ekki. 14 ára var ég þegar ég settist í bíó á Philosopher’s Stone. Ég var nýorðinn 24 ára núna þegar ég horfði á seinasta hlutann. Sorgar- og gleðitárin renna dálítið saman í eitt nú að þessu loknu, og ef þessi ólukkulegi galdrastrákur hefur snert þig jafnmikið (*fliss) ef ekki meira þá er bókað að þér mun líða eins.

Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2 er líklegast sterkasti kaflinn af öllum 8 myndum seríunnar. En miðað við það að öll uppbyggingin er loksins að baki og spennan komin í hámark er ósanngjarnt að búast við öðru. Og vegna þess að David Yates situr enn í leikstjórastólnum veit maður að lokauppgjörið er í öruggum höndum um leið og myndin byrjar. Sá maður hefur staðið sig eins og hetja með seinustu fjórar myndir seríunnar, og manni líður hálfpartinn eins og það hefðu allt eins getað verið fjórir mismunandi fagmenn á bakvið hverja og eina. Yates kóperar aldrei sama stílinn og heldur öllu fersku. Hasarsenurnar hans eru þær allra bestu og dramatíkin er meðhöndluð eins og hann hafi sjálfur skrifað bækurnar. Þetta er ástæðan fyrir því að Part 2 er eins og botnlaust nammihlaðborð. Það hefur tekið leikstjórann meira en 6 ár að komast að þessum endastað og hann sér til þess að sóa ekki einni einustu mínútu. Hressandi tilhugsun ef þú ert einn af þeim sem fannst ekkert merkilegt gerast í seinasta kafla.

Myndin er akkúrat þessi rússíbani sem maður óskaði eftir; gjörsamlega pökkuð af hasar og hægir aldrei á sér nema hún hafi góða ástæðu til þess. Hún byrjar rólega í nokkrar mínútur en eftir það rýkur svoleiðis af stað og sleppir þér ekki fyrr en alveg í endann. Hogwarts-orrustan er kannski ekki alveg jafnbreið og átakanleg og hún var í bókinni en hún er engu að síður eftirminnileg, yfirdrifið skemmtileg og hlaðin sjónarspili brellna sem nauðga næstum því augunum þínum, á góðan hátt. Ég get heldur ekki sagt að myndin sé þessi fullkomni endasprettur sem hittir á allar réttu nóturnar þótt barnið í manni vilji að hún sé það, en hún er alveg skrambi nálægt því. Segjum 90% fullnægjandi, en það er samt sem áður alveg meira en nóg til þess að tryggja það að aðdáendur sitji yfir henni með gæsahúð allan tímann og gangi út af henni sáttari en kaþólskur prestur í barnasundlaug.

Öll lætin þýða samt ekkert ef örlög persónanna (bæði aðal- og auka) ná ekki til þín, og þar liggur helsti styrkur lokakaflans. Myndin er tilfinningalega tæmandi á alla vegu og þegar maður skellir persónum sem maður hefur þekkt svona lengi í einn risastóran bardaga er erfitt að festast ekki inn í dramanu. Ég öfunda þá örlítið sem hafa ekki lesið seinustu bókina og hafa þ.a.l. ekki minnstu hugmynd um hverjir lifa af eða deyja. En þrátt fyrir að þekkja söguna fyrirfram, þá sogaðist ég inn í átökin eins og smástelpa. Sem unnandi bókarinnar er dálítið svekkjandi að sjá hversu litla athygli sumar hliðarpersónurnar fá, en það er samt sem áður séð til þess að þær mikilvægustu fái sín móment (harðhausaverðlaunin fara hins vegar til Molly Weasley, með Neville Longbottom í sterku öðru sæti). Fókusinn helst allan tímann á Harry og Voldemort, sem óhjákvæmanlega leiðir að einvígi á milli þeirra, og ég get ekki sagt að það hafi skilað sér mikið öðruvísi en ég vildi.

Leikararnir gefa sig fram hundrað-og-tífalt. Meira að segja þeir sem hafa aldrei kunnað að leika reyna sitt besta til að gera kraftinn sterkari í sögunni. Daniel Radcliffe hefur komið vægast sagt langa leið, og þrátt fyrir fáeina vankanta hér áður fyrr þá er hann og hefur alltaf verið rétti maðurinn í þetta hlutverk, jafnvel þó svo að hann hafi átt furðulega erfitt með að gráta á kameru (kannski lítur hann bara svona skringilega út þegar hann gerir það). Rupert Grint hefur alltaf komið best út af “krökkunum” og Emma Watson varð betri með hverri umferð, alveg eins og Radcliffe. Ég get ómögulega sett út á leikhæfileikana þeirra hér, en ég held þó reyndar að flestir geti verið sammála um að hann Alan gamli Rickman steli senunni í þessari umferð. Hann fær ekki bara bestu senuna í myndinni, heldur eina bestu senuna í allri seríunni.

(ATH. Ef þú veist ekkert um seinasta kaflann í bókinni þá myndi ég hoppa yfir næstu efnisgrein)

Eftirmálinn er að vísu nokkuð stórt spurningarmerki, en hann er sennilega umdeildasti parturinn af bókinni líka. Sumir hötuðu hann svo sterkt að þeir afneituðu honum, aðrir elskuðu hann og allt þar á milli. Mér fannst hann alltaf aðeins of sykraður þótt þetta hafi verið svosem ágætis slaufa hjá J.K. Rowling til að binda utan um heildarseríuna og sömuleiðis sjá til þess að það væri ekkert rými fyrir framhald. En ef þú hataðir þennan kafla í bókinni þá efa ég að myndin breyti áliti þínu á honum. Það breyttist aðeins hjá mér og fannst mér senan bara nokkuð krúttleg og heillandi, en ég get hins vegar ómögulega sagt að útlitið hafi skilað sér fullkomlega. Reynt er með bestu getu að láta Radcliffe, Grint, Watson og co. líta út fyrir að vera hátt í fertug með stafrænni hjálp en afraksturinn var tiltölulega ósannfærandi, og á mörkum þess að eyðileggja senuna. Í besta falli hefði ég keypt Grint sem þrítugan gaur á meðan Watson var nánast ekkert breytt undir þessari svokölluðu förðun. Pínu neyðarlegt, en tónlistin og tenging manns við hana gerir endinn þolanlegan og örlítið hjartnæman.

Barátta á milli góðs og ills gerist sjaldan meira djúsí en þetta. Ég get auðveldlega fullyrt að Part 2 sé frábær bíómynd í sjálfu sér og rúmlega það. Hún mun auðvitað gera lítið fyrir þig ef þú hefur ekkert fylgst með sögunni hingað til, en fyrir okkur hin þá verðlaunar hún þolinmæði okkar með látum. Allt það góða sem hinar höfðu hefur þessi líka, og þá í tröllaskammti. Hún er meira að segja fyndin þrátt fyrir myrku atburðina sem eiga sér stað. Ég verð samt eiginlega að skipa ykkur að horfa á báða Deathly Hallows-helmingana saman við hvert tækifæri sem þið getið. Þú færð meira út úr sögunni þannig, tilfinningalega. Fyrri helmingurinn þjáist líka meira ef þú sérð þá mynd sem staka einingu, upp á flæðið að gera, en ef þú lítur á þetta sem fjögurra og hálfs tíma mynd þá færðu mun epískari upplifun út úr þessu öllu.

Sem löööng heildarmynd gef ég Deathly Hallows:

Besta senan:
Snape fær sitt móment. Segjum það bara. Næstbesta mómentið í seríunni á eftir dansinum í tjaldinu úr fyrri kaflanum.

2 athugasemdir við “Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2

  1. Las þetta ekki allt þar sem ég vil ekki eyðileggja neitt fyrir mér þegar kemur að myndinni. En las byrjunina og langaði bara að segja eitt. Loksins, LOKSINS fann ég einhvern sem lýtur þetta sömu augum og ég. S.s. kvartar ekki yfir hverju einasta smáatriði og lítur á myndirnar sem sér dæmi útaf fyrir sig. Ég dýrka þessar bækur, er algjört nörd verð ég að viðurkenna. En mér finnst myndirnar langt því frá að vera slæmar þótt þær fylgi söguþræðinum ekki alltaf fullkomlega. Hlakka rosalega til að sjá forsýninguna á þriðjudaginn og hlakka til að lesa restina af gagnrýninni þinni eftirá :)

  2. Ég er eiginlega sjálfur Harry Potter Nörd er samt ekki búin að lesa allar bækurnar er byrjaður á fimmtu bókinni en mér hlakkar rosalega til þess að fara á frumsininguna á miðvikudagin :D en þar að seija vissi ég ekki að forsýninguni sem er leit að ég skuldi missa af en ég kann um það bil 150 Harry Potter nöfn ég ætti að vita hvað allir heita í 7 myndini. :D

Sammála/ósammála?