Zookeeper

Eftir hörmungina sem heitir Paul Blart: Mall Cop mun ég framvegis alltaf fyllast sterkum kvíða áður en ég geng inn á aðra svokallaða grínmynd með Kevin James í aðalhlutverki, sérstaklega ef hún kemur beint úr smiðju Adams Sandler. Við skulum bara orða það þannig að Happy Madison kompaníið gerir ekki beint hinar beittustu og ferskustu gamanmyndir. Reyndar hef ég satt að segja ekkert á móti James sjálfum, og persónulega finnst mér hann langtum skárri heldur en margir aðrir félagar Sandlers, t.d. David Spade og Rob Schneider. James er satt að segja frekar viðkunnanlegur bangsi sem getur verið stórfínn í aukahlutverkum og verið m.a.s. nokkuð fyndinn þegar hann fær gott efni til að vinna úr. En eftirbragðið sem Mall Cop skildi eftir hefur ábyggilega skemmt mig að innan, og ég óttast að það muni hafa áhrif á ófædd börnin mín.

Ég hef sjaldan gengið út af slakri mynd jafn ánægður. Zookeeper er heimskuleg, fljótgleymd klisjumygla sem er óþarflega löng og oftast ófyndin en hún er sem betur fer miklu þolanlegri heldur en Mall Cop, og ekki nærri því jafn einhæf í húmor. Þetta er samt sem áður mynd sem stýrist af svo aulalegu plotti að maður þorir varla að horfa á sum atriðin. Í stuttu máli gengur þessi mynd út á mann sem hefur ekki enn jafnað sig á sambandsslitum fyrrverandi kærustu sinnar (þrátt fyrir að heil 5 ár séu liðin – JESÚS!) og fær hjálp frá talandi dýrum til að fá hana aftur. Já, þið lásuð rétt. Og ég sem taldi Kevin James vera örvæntingafullan í myndinni Hitch…

Ein stærsta ástæðan af hverju myndin er ekki hörmuleg er sú að það er hryllilega erfitt að líka illa við James sem leikara, og sama hversu mörgum ófyndnum myndum hann leikur í þá er það aldrei hann sem dregur þær niður. Hann er einlægur, mjúkur (ekki bókstaflega, eða jú, það líka) og það er auðvelt að halda með honum. Það er ekki spurning um að hann eigi mun betri handrit skilið vegna þess að þau sem hann hefur fengið í hendurnar undanfarið krefjast þess að hann þurfi að reyna fullmikið á sig til að vera fyndinn. Í Zookeeper lætur hann fitubrandara mestmegnis í friði en hann þarf samt að sökkva ansi langt niður til að kitla hláturtaugarnar í salnum. Maður er heldur ekki lengi að spyrja sig hversu heimskur karakterinn hans er stundum fyrir að taka svona oft mark á því sem dýrin segja honum að gera. Þú þarft allavega að vera langt eftirá í þroska ef þú sérð ekkert rangt við það að míga á plöntu á veitingastað til að merkja svæðið þitt, haldandi að það hafi góð áhrif á framhaldið. Aðalpersónan tekur upp alls konar hegðun dýra án þess að kanna sína eigin geðheilsu áður en hann framkvæmir þær.

Eins óhreinn og mér finnst ég vera fyrir að segja það þá voru samt nokkrir brandarar bara nokkuð ágætir (spænska farandsveitin kætti mig!). Það er að vísu langt á milli þeirra, en myndinni tekst undarlega vel að sækjast eftir hlátri án þess að pína út svipuðum smábarnahúmor og við erum vön frá fjölskylduvænum Happy Madison-myndum. Einnig er merkilega sjaldgæft að sjá mynd um talandi dýr án þess að kúk og piss brandarar tíðkist reglulega, og hér eru slíkir í algjöru lágmarki. Það er aftur á móti nóg af píndum senum sem fá mann til að vilja lemja hausnum í næsta vegg, og sú fyrsta sem kemur upp í hugann er ein þar sem James fer með górillu á T.G.I. Fridays. Leikstjórinn (Frank Coraci – sem gerði m.a. eina bestu Sandler-myndina, The Wedding Singer) er ekki að fela hrifningu sína gagnvart þeim stað, þar sem hann vitnaði líka í hann í seinustu mynd sinni, Click. Þar var það þó auglýsing sem var fyndinn brandari á sama tíma. Hérna er það bara auglýsing.

Oftast hef ég lítið þol fyrir myndir þar sem dýr tala mikið, en raddirnar í Zookeeper eru svo spes að það verður enn erfiðara að hata myndina. Það kemur mér minna á óvart að heyra t.d. Nick Nolte tala fyrir górillu – nú til dags sér maður varla mun á leikaranum og dýrinu – en að heyra Sylvester Stallone og Cher talsetja ljón sem gefa Kevin James stefnumótaráð… Það er eitthvað sem varla er einu sinni hægt að ímynda sér.

Zookepper er auðvitað viss tímasóun, en ef þú ætlar að horfa á hana með krökkum get ég lofað þér því að það er til margt mun verra þarna úti. Skárra að sitja í gegnum þetta heldur en Furry Vengeance eða Marmaduke. En notist ekki nema í algjörri neyð. En notist ekki nema í algjörri neyð.

Skásta senan:
Eitthvað með mariachi-gæja.

Sammála/ósammála?