Captain America: The First Avenger

Sjálfstæða Marvel-stúdíóið tekur hér með seinasta skrefið í átt að stærstu ofurhetjumynd allra tíma eftir að hafa kitlað nördana inni í okkur síðan sumarið 2008. Augljóslega þegar þessi texti er skrifaður hefur hvorki undirritaður né nokkur annar hugmynd um hvernig afraksturinn mun koma út (það eru enn margir mánuðir til stefnu) en spennan í átt að ofurhetjusamkomunni sem ber heitið The Avengers er óneitanlega mikil. Og þetta kemur frá einhverjum sem var ekki einu sinni aðdáandi Iron Man-myndanna eða The Incredible Hulk. Sú mynd sem náði mest til mín var Thor, með sinni glæsilegu útlitshönnun, tvískipta tón og vægast sagt heillandi aðalleikara (smá “man crush” hérna megin víst). Í sterku öðru sæti kemur Captain America inn sem sú mynd sem gerði mig spenntari gagnvart því sem koma skal. Aldrei hefði ég búist við því að þær tvær Marvel-hetjur sem mér var mest sama um í æsku ættu eftir að verða traustustu Avengers-liðsmennirnir. Ekki móðgast, herra Downey.

Þó svo að þessar fimm Marvel-myndir séu í rauninni að byggja upp þennan einstaka nördagraut hjá Joss Whedon þá skiptir fyrst og fremst máli að myndirnar gangi upp sem sjálfstæðar einingar í stað þess að vera einungis uppstillingar, og flestum hefur tekist það. Captain America gerir það samt e.t.v. best vegna þess að sagan afmarkar sig í allt annað tímabil og notar “vísbendingarnar” (nærvera Howards Stark t.d.) sem góðgæti til að stækka heiminn smátt og smátt í staðinn fyrir að láta það líta út eins og uppbygging. Myndin er vissulega hlaðin hasar og látum – miklu meira heldur en Thor og Iron Man-myndirnar – og tapar svo sannarlega ekki athygli manns á þeim sviðum, en það sem hitti hvað mest í mark var Chris Evans. Einlæga frammistaðan hans, hvolpalega sakleysi persónunnar Steve Rogers og vilji hans fyrir því að gera eitthvað rétt fyrir þjóð sína gefur myndinni nokkuð hlýjan kjarna. Maður heldur vafalaust upp á þennan karakter og fylgir honum alla leið.

Myndin er samt alls ekki að fróa sér yfir bandaríska fánanum og hamra ofan í okkur þau skilaboð að alvöru hetjurnar séu fæddar í Ameríku. Hún nýtir sér meira að segja öll þau tækifæri sem hún getur til að gera grín að því öfgakennda tákni sem Kapteinninn er. Það róar mann líka talsvert niður að sjá að flestar aukapersónurnar eru frá mismunandi löndum. Í höndum einhvers annars hefði samt persónuleiki hetjunnar alveg getað týnst en Evans græjar henni mikilli sál og nýtur góðs stuðnings frá frábærum aukaleikurum, alveg eins og Hemsworth gerði í Thor. Að utanskildum hermönnunum sem fylgja ofurhetjunni (semsagt Howling Commandos, fyrir ykkur sem þekkja þetta) og fá hroðalega litla athygli þá eru flestar aukapersónurnar nokkuð eftirminnilegar. Hayley Atwell er krúttleg og sjálfsörugg sem eina kvenkyns persónan sem gerir meira en að brosa. Í svona myndum falla stelpur oft í þá gryfju að lenda bara í klípu og slefa yfir hetjunni, en ekki hér. Það er alltaf gaman að sjá slíkan karakter sem fer ekki bara gegn stereótýpu, heldur tekur smá þátt í hasarnum.

Hvað illmennið varðar verður að segjast að Red Skull er eins einhliða og þau gerast. Það má vel vera að hann sé klassískur í augum aðdáenda, en það hefði miklu skipt að gefa honum eitthvað örlítið meira en þetta týpíska “god complex.” Ég held þó að enginn hefði getað túlkað þennan mann betur en Hugo Weaving og því fær hann jafnstórt hrós og glæsilega bifreiðin hans. Bestir eru samt þeir Stanley Tucci, Tommy Lee Jones og eftirnafni hans, Toby (dýrka þennan leikara!). Þeir þrír eru allir svo góðir að ég er næstum því öruggur um að þeir tryggi það að eldri hópar geti notið myndarinnar miklu betur en flestar aðrar Marvel-myndir. Svo kemur Dominic Cooper nokkuð vel út sem Howard Stark. Hann passar það að herma ekki of mikið eftir Downey en maður tekur samt eftir sameiginlegum töktum. Feðgatengingin ætti ekki að fara framhjá neinum sem hefur starfandi heila.

Veikustu hliðar myndarinnar koma aðallega leikstjórninni við hjá Joe Johnston og ákveðnum handritsgalla. Johnston hefur aldrei verið í miklu uppáhaldi hjá mér, og fyrir utan Captain America er The Rocketeer sú eina mynd sem mér líkaði virkilega vel við eftir hann. Kaldhæðnislega eru þær einmitt býsna svipaðar. Þær hafa gott afþreyingargildi og ákveðinn nostalgíutón sem smellpassar við sögusviðið. Johnston kann á hasar og brellur – bæði tölvugerðar og praktískar – en samt er hann ekki alveg nógu góður með tilfinningar í sínum myndum. Það eru nokkur augnablik í þessari mynd sem mér fannst eiga vera kraftmeiri en þau voru. Leikararnir gerðu sitt allra besta, og maður sá það strax, en ég fékk aldrei þá tilfinningu að leikstjórinn væri að vanda sig nóg enda hefur hann voða sjaldan gert það að mínu mati. Tónlist Alans Silvestri var sömuleiðis fín en heldur kunnugleg og langt frá því að vera minnisstæð, annað en tónlistarnúmerið sem Alan Menken samdi. Allt montage-ið í kringum það er líklegast albesti kaflinn í allri myndinni.

Frásögn myndarinnar dettur aðeins niður á sjálfsstýringu í seinni hlutanum. Hasarfíklarnir munu alls ekki kvarta, en þeir sem vilja góða sögu munu taka eftir því að hún fuðrar dálítið upp um leið og skothríðin byrjar og Evans kominn í almennilega búninginn sinn – sem er annars prýðilega hannaður. Annars fer ekki á milli mála að allt sem virkar í þessari mynd svínvirkar og hún er almennt langt frá því að teljast ófullnægjandi. Hún hefur rétta andann, hjartað, kannski ekki allar tilheyrandi tilfinningar sem þurfa en er í hnotskurn bara drullugóð sumarsprengja. Og já, þrátt fyrir þá absurd sjón í fyrri hlutanum að sjá andlit Chris Evans límt á lítinn, horaðan líkama þá kemur sú steikta brella bara ágætlega út. Allavega betri fljótandi haus heldur en sá sem Ryan Reynolds átti þegar hann fór í Green Lantern-búninginn.

thessi

Besta senan:
„The Star Spangled Man.“ Hvað annað?

Sammála/ósammála?