The Smurfs

Það eru tveir ákveðnir Hollywood-leikstjórar, sem sérhæfa sig annað hvort í pirrandi gamanmyndum eða ennþá verri fjölskyldumyndum, sem hafa farið í mínar fínustu taugar núna í ansi mörg ár. Annar þeirra er Shawn Levy (hann bar m.a. ábyrgð á Big Fat Liar, Pink Panther-endurgerðinni og Night at the Museum 1 & 2) og hinn er Raja Gosnell. Hinn síðarnefndi er þó reyndar ögn skárri en að megnu til framleiða þeir dúnmjúkar skítahrúgur sem ætlaðar eru smábörnum eða fólki með svo lága greind að þeim finnist allt áreynslulaust grín vera fyndið. Það skásta sem ég get sagt um Gosnell er að honum hefur tekist að batna frá því þegar hann byrjaði, en alveg sama hversu mikla sápu ég nota þá tekst mér ekki að þvo af mér óhreinindin sem voru t.d. Home Alone 3 eða Big Momma’s House. Ég óttaðist innilega að þessi maður, með allan sinn “listræna” metnað, myndi eyðileggja fyrir mér það sem ég hélt mikið upp á í æsku.

Þegar ég var smákrakki heyrðist jafnoft í Ladda í sjónvarpinu mínu og Leiðarljósi (uppáhald múttu í denn), ef ekki oftar. Venjulega horfði ég alltaf á bíómyndir og þætti á ensku en Strumparnir voru algjör undantekning. Ég horfði milljón sinnum á þessar teiknimyndir og tel þær í dag vera langt frá því að vera með því vandræðalegasta sem ég ólst upp við.

Ef við látum allar viðlíkingar við bláan sósíalisma og mögulegt kvenhatur í friði, þá er þetta er þetta stórfínt, sykrað og saklaust barnaefni. Í rauninni get ég notað alveg sömu lýsingu á bíómyndina. Það sem kemur hins vegar í veg fyrir risastóra nostalgíusprengju í mínum augum (fyrir Ladda-leysið) er ógurlega amerískur sykurpúðatónn og einhver klisjukenndasti söguþráður sem til er. Þessi ofnotaða “fish out of water/við-verðum-að-komast-aftur-heim” saga er næstum því jafngömul og Strumpafyrirbærið sjálft, og það að myndin gerist að megnu til í New York er ekki beinlínis að hlaða hana frumleika.

The Smurfs er samt mörgum skrefum frá því að vera óáhorfanleg bíómynd. Hún er kannski refsidómur fyrir þá sem hafa lítið þol fyrir öllu saklausu og sætu en við hliðina á öðrum svokölluðum „hybrid” myndum sem sameina alvöru leikara við tölvuteiknaðar skrípafígúrur (t.d. Alvin and the Chipmunks, Hop eða Yogi Bear!) þá er hún skylduáhorf. Þó svo að myndin sé oft yfirdrifin og barnaleg þá passar hún upp á það að eldra liðið fái stundum eitthvað af bröndurum fyrir sig (skondið að sjá þarna litla tilvísun í Brokeback Mountain). Síðan verð ég alltaf jafn feginn þegar ég sé barnamynd af þessari týpu sem tekst að missa sig ekki í einhverjum prumpuhúmor og það hjálpar heilmikið til að karakterarnir hérna skulu ekki bara vera þolanlegir, heldur býsna viðkunnanlegir. Gat ég sagt það sama um Alvin eða Yogi? Onei…

Talsetningarnar eru nokkuð líflegar og það er ánægjulegt að sjá að enginn af mannfólkinu gerir neitt annað en að skemmta sér. Reyndar finnst mér eins og flestir séu að reyna að krydda upp á þetta arfaslaka handrit með spuna og grínskotum á sumt innihaldið (Katy Perry – sem talar fyrir Strympu – vitnar meira að segja í sjálfa sig). Neil Patrick Harris er skemmtilegur að venju og snýr einmitt oft út úr efninu og segir það sem áhorfandinn er oft að hugsa (gaman t.d. að því sé ekki leynt hvað Strumpalagið er böggandi). Harris er stór plús og sömuleiðis Hank Azaria, sem er augljóslega ófeiminn við það að vera meira en örlítið “over-the-top” sem misheppnaði skúrkurinn Gargamel – sem ég mun alltaf kalla Kjartan. Azaria tekur sig ekki alvarlega í eina sekúndu og fannst mér það akkúrat við hæfi. Myndin er miklu meira „sjálfmetvituð“ en ég bjóst við, og þess vegna spái ég að fólk fái mun sjaldnar kjánahroll en það gæti átt von á.

En ef Strumpalagið og yfirþyrmandi krúttleiki persónanna fer ekki í taugarnar á þér þá eru alveg líkur á því að “földu” auglýsingarnar geri það (var ekki Hop búin að tækla Guitar Hero-plöggið??). Orðaforðinn reynir líka eflaust á þolinmæði sumra, en alveg eins og stefið þá er minnst á það í djóki. Ef menn ætla sér þó að fara að æla yfir þessu þá get ég ekki annað en sagt: “Þetta er Strumpamynd! Við hverju býstu?” Í allra versta falli get ég þó mælt með þessari mynd fyrir þá sem eru í leit að góðum drykkjuleik (takið einn sopa í hvert sinn sem einhver notar staka orðið “Smurf,” en heilt skot þegar það er tengt við annað orð). Sjálfur hló ég allavega örlítið meira en ég þori að viðurkenna.

The Smurfs er sumsé meinlaus mynd, þrátt fyrir ákveðið hugmyndar- og metnaðarleysi, og nær að vera einmitt það sem hún vill vera. Tölvuvinnan er einnig fínasta fín og teiknimyndafílingurinn mátulega mikill. Krakkar munu vafalaust njóta hennar í botn og fullorðnir ættu ekki að rotna svo lengi sem þeir þekkja til Strumpanna. Svo eru margir af eldri kynslóðinni sem eiga eftir að finna fyrir smá nostalgíufiðring. En bara smá.

fin

Besta senan:
Klósetthúmor (eða klósettkamarshúmor öllu heldur) með Kjartani. Viðbjóðslega ódýrt og barnalegt grín, en guð hjálpi mér, ég hló pínu.

Sammála/ósammála?