Leikstjórinn talar: Morgan Spurlock (The Greatest Movie…)

Allir sem hafa fylgst með myndum Morgans Spurlock eða horft á hann í viðtölum sjá það strax að þessi maður myndi varla kæfa kettling í draumi þó hann fengi milljarð dollara fyrir það við vöknun. Maðurinn er über-, über-næs og m.a.s. duglegur að spyrja spyrilinn á móti.

Spurlock er auðvitað þekktastur fyrir Super Size Me (og svo gerði hann Where in the World is Osama Bin Laden – en enginn virðist muna eftir henni…) og fjallar þessi nýjasta mynd hans aðallega um svokallaðar „product placement“ auglýsingar í bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

Hér er einfölduð útgáfa af einkaviðtali sem ég fékk við kappann. Það birtist í Séð og Heyrt í lok ágúst 2011, daginn eftir að haldin var sérstök Q&A sýning á The Greatest Movie Ever Sold. Þetta er svona það helsta…

 

„Ísland er svo frábært! Ég vissi lítið sem ekkert um landið þegar ég kom hingað fyrst og það kemur mér stöðugt á óvart,“ segir Spurlock þegar hann er spurður hvernig honum líkaði að heimsækja landið í annað sinn og segist aldrei þreytast á klassísku froðuspurningunni „How do you like Iceland?“. Hann kom hingað í fyrsta sinn árið 2004 til að kynna fyrstu mynd sína, Super Size Me. „Þegar ég kom síðast gerði ég ekkert annað en að vinna, þannig að ég fékk ekkert tækifæri til að skoða mig um og gera neitt sem mig langaði til. En núna fæ ég að taka mér smáfrí á meðan ég er hérna og ég þarf ekki að fara heim fyrr en eftir viku. Planið er að keyra um sveitina, skoða fjöll og klárlega einhverja jökla,“ segir hann.

„Mig langaði samt alltaf að heimsækja staðinn, þó ég vissi ekkert um hann. Hann virkaði svo lítill og óþekktur fyrir mér og þess vegna pínu spennandi. Svona einn af þessum litlu stöðum sem maður hefur heyrt um í bíómyndum en grunaði aldrei að heimsækja, í líkingu við Tasmaníu eða Timbaktu.“

Spurlock klæddur klassísku „product placement“ jakkafötum sínum þegar viðtalið var tekið og þegar spurður að því hversu mikið efni hann þurfti að tækla áður en myndin var mótuð niður í núverandi lengd „Þetta var svakalega mikil vinna. Við tókum upp 370 tíma af efni og klipptum það niður í þá 88 mínútna mynd.“ Spurlock segir að það sé met, og að til samanburðar voru 250 tímar af efni klipptir niður í 100 mínútur þegar hann gerði Super Size Me.
„Um það bil einn þriðji af þessu var allt saman fundið hjá fyrirtækjum sem höfnuðu samstarfshugmyndinni. Nokkuð brútal.“

Kvikmyndagerðarmaðurinn eyddi átta mánuðum í símanum og á fundum til að reyna að koma myndinni á loft. Upphaflega sóttist hann í stóru hausana (m.a. KFC og McDonald’s) en fékk neitanir á flestum stöðum og mjög neikvæða strauma þar að auki. Spurlock var kominn í mjög þungt andlegt ástand þegar loksins gekk að finna díla við litlu fyrirtækin, í líkingu við Pom Wonderful, Main & Tale og fleiri. Þeir sem hafa séð The Greatest Movie Ever Sold ættu að vita hversu öflugt plögg þeir fengu.

„Alveg síðan ég var krakki hef ég verið kvikmynda- og sjónvarpsnörd og síðan ég man eftir sjálfum mér hef ég alltaf farið oft í bíó,“ segir Spurlock. „Það voru tvö kvikmyndahús í nágrenninu þar sem ég ólst upp og oftast varð ég að fara tvisvar í viku í bíó, í sitthvort kvikmyndahúsið. Ég man meira að segja eftir því þegar ég var tólf ára og dró eina stelpu með mér á deit í bíó. Og þetta var fyrir tíma Internetsins þannig að maður vissi ekkert alltaf hvað maður var að fara á – Þú gast ekkert horft á trailera hvenær sem er heima hjá þér, lesið umfjallanir eða söguþræði. Myndin sem varð fyrir valinu hjá okkur hét On The Golden Pond og var langt frá því að vera hentug deitmynd fyrir tvo tólf ára. Ég varð samt bara að sjá allt í bíó! Deitið gekk ömurlega en bíóáhuginn varð stærri en nokkru sinni fyrr.“

Sammála/ósammála?