Final Destination 5

Það er því miður venja hjá hryllingsmyndaseríum að gera sama hlutinn aftur og aftur, en Final Destination-serían er sú eina sem ég veit um sem hefur fjórum sinnum endurgert fyrstu myndina. Á sínum tíma fannst mér hún frumleg og vel heppnuð og að vissu leyti er hún það ennþá. Bara verst að það er ekki hægt að horfa á hana án þess að hugsa til þess að þessari ágætu hugmynd hefur verið misnotað fram og aftur þangað til að ekkert nema pirringur kemur upp í hugann þegar maður hugsar til hennar. Aðstandendum myndanna finnst pyntingarklámið greinilega vera orðið þreytt og óspennandi. Drápsklám virðist vera málið!

Final Destination 5 hefur sinn skammt af kostum og mér til gríðarlegrar ánægju kom hún aðeins betur út heldur en draslmyndin sem sú fjórða var. Opnunarsenan þar sem brúin hrynur í sundur er skemmtilega brjáluð og vel gerð, og svo eru dauðaatriðin líka hugmyndaríkari heldur en síðast. Mér finnst eitthvað svo skrítið við það að leggja sérstaka áherslu á það að hrósa dauðaatriðum í bíómynd, en í þessari seríu gerir maður oftast ekkert annað en að bíða og sjá hvernig næsta fórnarlamb fær að kenna á því. Okkur er hvort eð er sama um allar persónur. Ég fékk samt leið á þessari formúlu þegar ég horfði á mynd nr. 2.

Það þekkja þetta allir núna:

– Uppstilling – SLYS!!
– Úps, þetta var bara sýn hjá einum karakter.
– Hann forðar sér ásamt öðru fólki sem eltir hann. Allir pirrast þangað til að þeir verða vitni af slysinu.
– Útför. Fólk er enn áttavillt.
– „Handahófskenndir“ dauðdagar byrja, og myndin brosir framan í þig eins og smákrakki sem er nýbúinn að læra á koppinn.
– Aðalkarakterinn fer eitthvað að bulla um mynstur.
– Fleiri dauðdagar sem allir eru byggðir upp þannig að þú heldur að eitthvað eitt gerist, en svo gerist eitthvað allt annað til að „sjokkera“ þig.
– Myndirnar enda oftast á því að persónurnar halda að þær hafa náð að svindla á dauðaáætluninni en svo kemur annað í ljós.

Final Destination 5 fer sterkt eftir uppskrift nema þangað til í lokaþriðjungnum. Þá allt í einu ákveður hún að krydda upp á þetta með því að bæta einhverju nýju hráefni í þetta. Á þeim tímapunkti þar sem ég fann fyrir einhverju öðruvísi var ég byrjaður að líka við það sem ég sá. Ég man ekki hvenær það gerðist seinast í Final Destination-mynd þar sem ég vissi ekki nákvæmlega hvert hún stefndi.

Allt „dreptu-eða-vertu-drepinn“ plottið var nokkuð áhugavert en verst er að myndin notfærði sér það ekki fyrr en á seinustu stundu, þegar mjög lítið var eftir af myndinni. Hefði þessi hugmynd verið kynnt fyrr þá er ótakmarkað hvað nýju möguleikarnir hefðu getað gert myndina svo miklu betri. Endirinn fannst mér svo nokkuð ódýr og asnalegur, og var þá mjög góðri hugmynd sóað bara með því sem gerðist þá.

Leikararnir eru allir grútlélegir nema þrír einstaklingar: David Koechner („Whamee!“), Miles Fischer (óformlegt afkvæmi Christians Bale og Tom Cruise – sjá að ofan) og P.J. Byrne (klassíski lúðinn. Bara fyndnari núna). Flestir fara allir með sínar línur eins og stjarfar dúkkur og verða alvarlegustu senurnar sjaldnast sannfærandi. Drápin eru heldur ekki jafn hugmyndarík miðað við hversu langt er liðið á þessa seríu. Sá allra eftirminnilegasti viðkemur fimleikastelpu. Annars held ég að þriðja myndin eigi enn heiðurinn á ógeðfelldustu drápunum. Segir það ekki svolítið að seinustu tvær myndirnar (eða fjórar!) hafi verið ónauðsynlegar og rúmlega það?

Titillinn á fjórðu myndinni LAUG!

fimm

Besta senan:
Fimleikadauðinn var bara… ái!!!

Sammála/ósammála?