Crazy, Stupid, Love.

Að geta labbað út af rómantískri gaman(drama)mynd sem fer ekki alfarið eftir föstum reglum er eitthvað sem maður getur aldrei fengið nóg af, og hvað slíkar myndir varða er Crazy Stupid Love sennilega sú óvæntasta sem ég hef séð síðan Going the Distance, sem var fyrir ári síðan. Ástæðan er sú að hún er öðruvísi, hreinskilin, oft rosalega fyndin (og þá reglulega, út í gegn – sem gerist ekki oft) og ómótstæðilega heillandi yfir heildina. Hún er aðeins í lengri kantinum en rúllar óvenjulega vel engu að síður.

Kostirnir lyftast síðan á hærra plan þegar maður sér hversu góðir allir leikararnir eru í sínum hlutverkum og það kemur sömuleiðis mikið á óvart að persónurnar eru langflestar athyglisverðar. Flæðið, innihaldið og uppbyggingin minnir einstaka sinnum á rómantískar „ensemble“ myndir í líkingu við He’s Just Not That Into You og Valentine’s Day, nema með töluvert smærri persónufjölda og miklu einbeittari frásögn í kjölfarið. Ef það væri ekki fyrir tvo hundleiðinlega galla myndi ég glaðlega telja að þessi mynd ætti séns í að vera ein sú besta sem ég hefði séð á árinu.

Venjulega læt ég það í friði að kafa út í söguþræði mynda. Mér finnst það oftast vera sóun á plássi og orðafjölda, nema í tilfellum eins og þessu þar sem mikilvægt er að útskýra í stuttu máli um hvað myndin fjallar svo hægt sé betur að útskýra gallana sem draga hana niður.

Myndin fjallar um miðaldra mann, Cal Weaver að nafni, sem stendur í miðjum skilnaði eftir 25 ára hjónaband – eftir að konan hans heldur framhjá honum – og á hann vægast sagt í miklum erfiðleikum með að komast aftur á stefnumótamarkaðinn. Til að bragðbæta söguna er þrettán ára sonur hans yfir sig ástfanginn af sautján ára barnapíu sinni, sem er í raun sjálf hrifin af pabbanum. Cal kynnist kvennagullinu Jacob, sem sýnir honum hvernig karlmenn eiga að klæða sig og næla sér í kvenfólk. Fyrrum eiginkona Cals sér fljótt allt aðra hlið á manninum og verður stóra spurningin sú hvort skilnaður hafi nokkuð verið rétta ákvörðunin.

Ég þoli illa tilviljanir í bíómyndum, nema kannski í gamanmyndum þar sem ekki á að taka atburðarásina mjög alvarlega. Kannski get ég sætt mig við nokkrar smáar eða eina gígantíska í versta falli (fer allt eftir hvernig tenging hennar er við söguna) en Crazy Stupid Love er næstum því drifin af stórum tilviljunum og notfærir sér þær meira að segja tvisvar sinnum í hálfgerðu „plott-twist“ formi og koma þær oftast persónutengingum við. Reyndar skal ég alveg játa það að ég sá engan veginn fyrir mér hvert myndin stefndi með karakterinn hennar Emmu Stone, og svarið við því var djöfull óvænt en tilheyrir samt sama vandamáli. Sama með Marisu Tomei, þrátt fyrir að hún hafi verið æðislega fyndin í sínu litla hlutverki.

Leikarahópurinn er almennt óaðfinnanlegur. Steve Carrell sýnir aftur þá frábæru hlið sem seinast sást í hinni vanmetnu Dan in Real Life, og Little Miss Sunshine þar á undan. Ég hef samt aldrei séð hann standa sig betur en hér og tekst manni að finna til með honum og styðja hann strax frá fyrstu senunni. Maður kemur svo mikið til með að halda með Cal í gegnum skilnaðinn að álit manns á fyrrverandi eiginkonunni hans, sem Julianne Moore leikur, minnkar næstum því með hverri senu. Af óskiljanlegum ástæðum ætlast handritið til þess að við viljum sjá Cal og hans fyrrverandi sættast aftur og enda saman í lokin. Mér finnst alls ekki að sagan hefði átt að fara þá leið. Þetta hindrar alla þá þróunarmöguleika sem persónan Cal hefði getað haft, eins og t.d. að líkjast Jacob – „læriföður“ sínum – meira, á meðan Jacob verður sífellt mýkri.

Handritsgallarnir hefðu dregið heildina meira niður ef allt annað hefði ekki verið ljómandi fínt. Eins og Carrell sé ekki nógu góður ásamt restinni af leikhópnum þá er Ryan Gosling hátt í fullkominn sem hinn höggþétti Jacob, sem lekur af sjálfsöryggi og töffaraskap. Samband hans við Cal og samspilið sem þeir Gosling og Carrell eiga er hugsanlega áhorfsins virði eitt og sér. Emma Stone heldur áfram að sýna að það býr alvöru leikkona í henni á meðan Julianne Moore minnir mann á að hún sé það og yngstu leikararnir gefa þeim eldri lítið eftir. Mikið svakalega fékk samt Beikonið lítið til að gera. Það er varla hægt að kalla þetta hlutverk.

Þeir John Requa og Glenn Ficarra gera mjög góða hluti með leikstjórnina. Þeir eru löngu komnir á radarinn hjá mér sem eitt af þessu leikstjórateymi sem spennandi verður að fylgjast áfram með, þótt það verði seint hægt að segja að Crazy Stupid Love sé jafn „edgy“ mynd og Bad Santa (sem þeir reyndar skrifuðu bara en leikstýrðu ekki) og I Love You, Phillip Morris. En alveg jafngóð og þær engu að síður. Aðeins betri meira að segja. Þeir hefðu kannski átt að aðstoða aðeins með handritið. Dan Fogelman stóð sig vel með það en tilviljanirnar í sögunni koma ekki út eins og annað en handritsreddingar á köflum. Það var alveg efni til staðar til þess að gera eitthvað framúrskarandi úr þessu og afraksturinn ber ýmis merki um helbera snilld. Ég t.d. skrækti úr hlátri eins og þroskaheftur bavíani yfir tiltekinni senu þar sem allar helstu persónurnar koma saman á mettíma.

Myndin er næstum því frábær, en jafnvel þó svo að hún sé það ekki er þetta fyrirtaks deitmynd sem ég get mælt með fyrir ung pör, gömul pör, þá einhleypu og jafnvel alla þá fýlupúka sem eru orðnir þreyttir á hefðbundinni Hollywood-rómantík. Ég efa líka að hinir almennu áhorfendur séu jafn smámunasamir og ég, svo ég segi bara njótið ykkar vel!

Besta senan:
Ég held að bavíanakommentið hafi gefið í skyn hvaða sena það er.

Sammála/ósammála?