Drive

Drive er ein af þessum myndum sem á algjörlega eftir að bræða kvikmyndaunnendur. Hún er múdí, villt, óútreiknanleg og gjörsamlega koksandi á stíltengdum gotteríum sem gera hinar ómerkilegustu senur að einhvers konar listaverki. Þar að auki er leikstjórnin markviss, leikurinn rafmagnaður, handritið beitt og frásögnin fersk og óhefðbundin. Keyrsla myndarinnar, útlit og atburðarás er nokkurs konar blanda af film noir og hráum vestra af gamla skólanum, og nöfn eins og Michael Mann og Sergio Leone koma strax upp í hugann. Flæðið í myndinni á einmitt ekki eftir að leggjast vel í þá sem eru með athyglisbrest en það segir sig kannski sjálft.

Samspil leikaranna, rólegi tónninn og ekki síst einkennilega tónlistarnotkunin gerir það að verkum að maður er á köflum hálfpartinn í leiðslu og þótt ég gangi ekki svo langt að kalla myndina einhverja snilld þá eru engu að síður nokkur brilliant atriði í henni sem munu lengi geymast í hausnum á mér. Reyndar hefur öll myndin þannig áhrif að hún situr talsvert lengi eftir í minninu og verður eiginlega betri eftir því meira sem ég hugsa um hana. Upplifunin sem hún leynir á sér bætir ánægjulega upp fyrir lítið efnisinnihald og payoff-endi sem er næstum því ófullnægjandi og kraftlaus. Myndin nýtir sér sniglahraða sinn til að læðast upp að manni á bestu stöðum með óvæntu (og huggulega grafísku) ofbeldi sem maður bregst við eins og maður sé á staðnum. Spennuuppbyggingin í myndinni er annars meistaralega góð og spilar leikstjórinn glæsilega með lágstemmda tónlist og langar þagnir. Ekki vissi ég að bankaránssena gæti t.d. verið svona spennandi án þess að maður sjái nokkuð annað en flóttabílstjórann bíðandi fyrir utan. Magnað atriði! Leitt að lokasenurnar voru ekki á sama pari.

Danski klikkhausinn Nicolas Winding Refn er orðinn einn af þessum leikstjórum sem ég skammast mín fyrir að hafa ekki uppgötvað fyrr af einhverju viti. Ég hef séð eitthvað af fyrri verkum hans en lítið pælt í leikstjóranum sjálfum, en eftir að hafa séð þann gígantíska áhuga sem hann dælir í Drive fer það ekki á milli mála að ferillinn hans er eitthvað sem þarf að grandskoða á ný. Trúlega erum við að ræða um einhvern vanmetnasta kvikmyndagerðarmann síðustu ára, og það sést að Refn setur sinn stimpil á hverja einustu senu og finnur sér alltaf leið til að gera efnið sem áhugaverðast. Leone og Mann bergmála svolítið í gegnum þetta allt en einnig koma í hugann nöfn eins og Sam Peckinpah og David Cronenberg. Hver einasti rammi er samt útpældur, efnislega og myndatökulega séð og er greinilega séð til þess að þér líði aldrei eins og þú sért staddur í týpískri stúdíómynd. Að geta mótað svona einstakan stíl sem er aðallega púslaður saman úr annarra manna verkum er eitthvað sem örfáir snillingar hafa náð að mastera. Refn er kannski örlítið „pretentious“ miðað við hvað þetta er mikil „style-over-substance“ mynd, en heildarsvipurinn hittir beint í mark.

Af öllum svokölluðu „pretty boy“ leikurum sem eru starfandi í dag er Ryan Gosling án efa sá kjarkmesti. Það tók hann ekki langan tíma að jarða ímynd sína sem nýi Hollywood-súkkulaðistrákurinn eftir The Notebook. Myndir eins og The Believer, Half-Nelson, Blue Valentine, þessi og meira að segja Crazy Stupid Love sýna að þessi maður getur tæklað nánast hvaða hlutverk sem er, lekandi af fagmennsku alla leið. Við erum að ræða um strákinn sem bætti á sig 27 kg fyrir The Lovely Bones án þess að spyrja neinn (honum fannst það bara henta persónunni), en það kostaði hann starfið á endanum og þá kom Marky Mark í staðinn. Í Drive er Gosling alveg til fyrirmyndar og ég er viss um að hann hafi tekið hlutverkið lengra en blaðið bauð upp á. Ég held að allir vildu óska þess að þeir liti út fyrir að vera svona svalir á bakvið stýri. Hann er eins og Eastwood í spagettívestrunum, bara með 10 sinnum stærra hjarta. Karakterinn hans er dularfullur, harður, mjúkur, óstöðugur og almennt risastórt spurningarmerki og Gosling feilar ekki á einu einasta sviði. Hversu ruddalega erfitt ætli það sé að geta náð gallalausum tökum á persónu sem á bæði að vera kaldlyndur nagli og hvolpalegur ljúflingur??

Aukaleikararnir gefa stráknum ekkert eftir, og það segir í rauninni heilan helling. Bryan Cranston, Carey Mulligan, Ron Perlman, Oscar Isaac og Albert Brooks eru öll stórkostleg. Brooks stendur samt mest upp úr aukaleikurunum. Jafnvel Christina Hendricks gerði meira en gott úr agnarsmáu hlutverki og fær í staðinn einhverja minnisstæðustu senuna í allri myndinni. Reyndar er alveg meira en nóg af þeim hérna, eins og ég áður sagði. Ég get einfaldlega ekki sagt það nógu oft hversu sterka hápunkta er hér að finna, enda klárlega ein af bestu myndum 2011 og soundtrack-ið er líka með þeim betri frá árinu. Mig hefur lengi vantað nýja tónlist til þess að keyra við.

Besta senan:
Guð, þær eru svo margar! Lendi sjaldan í því. Ég myndi samt velja lyftusenuna í allri sinni dýrð. Falleg og brútal… and in that order.

Sammála/ósammála?