Batman Returns

Jú jú, The Dark Knight er án efa bestasta og myrkasta Batman-myndin sem hefur nokkurn tímann litið dagsins ljós þegar þessi texti er ritaður, en ef þetta snýst um hvaða mynd um Leðurblökumanninn er sú kaldasta, óvenjulegasta, grimmasta og þunglyndasta, þá held ég nú að Batman Returns sé ótvíræður bikarmeistari.

Myndin er hlaðin þemum og atriðum sem maður sér venjulega ALDREI NOKKURN TÍMANN í ofurhetjumynd sem er aðeins bönnuð nema innan 13 ára í heimalandi sínu. Listinn er jafnlangur og hann er sérkennilegur, en yfir lengdartímann fáum við t.d. senu þar sem foreldrar kasta barni í vöggu ofan í holræsi, fjölmargar morðtilraunir af öllum gerðum (þ.á.m. eina þar sem konu er þrykkt út um glugga af efstu hæð), nauðgunartilraun, barnarán, ungbarnarán, tilvísanir í ungbarnadrukknun og síðast en ekki síst illmenni sem frussar blóði af og til. Svo skulum við heldur ekki gleyma öllum kynferðislegu undirtónunum; allt S&M leðurblætið hjá Batman og Catwoman svo ekki sé minnst á það að Penguin er gangandi standpína frá byrjun til enda. Sá karakter fer ekki leynt með það hversu kynferðislega bældur hann er, en eins furðulega og það hljómar þá skilur maður hegðunina. Ef ég liti svona út og hefði búið í holræsum í 33 ár með mörgæsum þá myndi ég eflaust farast úr greddu í návist Kattarkonunnar. Guð má vita hvað hann hefur gert með helmingnum af þessum dýrum.

Þangað til að Sweeney Todd kom út árið 2007 leit ég á Batman Returns sem myrkustu og kvikindislegustu myndina sem Tim Burton hafði gert. Myndin er samt líka ein af þeim sem ber helstu merki leikstjórans. Gotneska andrúmsloftið ásamt stíl þýska expressionismans er angandi allan tímann, og Burton notar sjaldan sem aldrei skæra liti. Sviðsmyndahönnunin hjá Bo Welch er líka alveg ómetanleg. Andrúmsloftið verður skuggalegra en í senn meira grípandi með hjálp frá Danny Elfman-tónlistinni, sem á nánast alltaf þátt í því að gera myndirnar hans Burtons mun betri en þær hefðu verið án hennar. Fyrri hluti ’90s áratugarins býður upp á eitthvað það besta sem Elfman hefur gert á öllum sínum ferli, og í þessari mynd tók hann tónlistina sem hann samdi fyrir fyrstu myndina árið ’89 og betrumbætti hana helling. Mikilfengleg orkestra heyrist hér um bil út alla myndina og vegna hennar verður myndin eitthvað svo óþægilega skuggaleg, en á æðislega dáleiðandi hátt.

Margir hafa sagt að fyrsta Batman-mynd Burtons hafi ekki verið sérstaklega mikið í stíl við myndasögurnar, og ég efast ekki um að þessi sé síður þannig. En þó svo að ég hafi ekkert rosalega hátt álit á fyrri myndinni í dag (óvandað handrit, varla nein saga, leiðinleg kvenpersóna, of mikill fókus á grunnt illmenni og lélegt tvist með morðingja foreldranna) þá dáist ég mikið að þessari tilteknu túlkun á Batman-sögu og mér finnst alltaf gaman að sjá einhvern taka þekkta fígúru í allt aðrar áttir en maður er vanur að sjá. Þetta er kannski ein af ástæðunum af hverju fólk tók svona misvel í myndina á sínum tíma; Það bjóst bara enginn við svona sálfræðilega flókinni, efnislega ljótri og hreint út sagt niðurdrepandi mynd (endirinn er allt annað en það sem kallast á góðri ensku „upbeat“). En hvað er svosem að því að fíla það?

Stærsti vandinn við myndina er aðallega bara sá að Burton sýnir Bruce Wayne frekar lítinn áhuga, en sennilega er hann of „venjulegur.“ Mig minnir að við fáum ekki almennilega að eyða tíma með Bruce sjálfum fyrr en rúmur hálftími er liðinn af lengdinni. Illmennin og sérstaklega hinar útskúfuðu og misskildu persónur hafa alltaf forgang í Burton-myndum (hann þarf endalaust alltaf að spegla slíkar persónur við sjálfan sig. ÓKEI, VIÐ FÖTTUM ÞAÐ!). Wayne er líka gerður að svo óspennandi karakter, og svo þegar þörf eru á Batman þá kemur hann til að redda málunum. Burton finnur t.d. ekkert fyrir Wayne til að gera í upphafssenunni sinni annað en að sitja heima hjá sér í myrkri með hugsandi svip áður en Leðurblökumerkið skín framan í hann. Michael Keaton er samt vafalaust með bestu Batman-röddina, að mínu mati.

Sem betur fer eru þrjú illmenni í Batman Returns sem fá dreifða athygli í stað þess að leikstjórinn einblíni bara á eitt, eins og í seinustu mynd. Christopher Walken, Michaelle Pfeiffer og Danny DeVito eru öll reyndar meiriháttar, hver á sinn hátt og hryllilega vanmetin. Ég skal jafnvel nota orðið leiksigur til að lýsa hversu ótrúlega mikið þau gefa sig fram. Persónur þeirra eru líka áhugaverðar og ólíku samskipti aðalpersónanna í heild sinni eru það einnig. Hver þeirra hefur sitt truflandi mótív og prófílarnir eru athyglisverðir og ruglaðir: Batman er t.a.m. einmana, andlega ringlaður og ástfanginn af geðveikri píu, Penguin er ljótt, óheppið grey með kröftuga, innbyggða reiði, Catwoman er klofinn geðsýkissekkur og Max Schreck (Walken) er siðblint kvikindi sem vill að heimurinn elski sig. Gleymum því ekki að Burton er alltaf mjög annt um „fríkin“ sín, og hér fá þau öll að njóta sín í botn.

Hasarinn er einnig aðeins vandaðri en í ’89-myndinni þótt Burton kunni ekki alveg að leikstýra góðum slagsmálasenum. Þetta sleppur samt vegna þess að handritið gengur upp í skuggalegum absúrdleika sínum. Við erum að ræða um mynd sem hefur „climax-senu“ þar sem fullt af mörgæsum marsera með eldflaugar bundnar við sig, eins og það sé ekki til eðlilegri sjón í bíómynd.

Christopher Nolan verður alltaf meistarinn sem náði að gera Batman rétt á filmu, alveg frá persónunni til hugmyndafræðinnar. Batman Returns tekur myndasöguefnið og gerir eitthvað rosalega óvenjulegt úr því, og mér finnst það bara hið besta mál ef afraksturinn er góður. Þetta er eina myndin í gömlu seríunni sem ég kýs að horfa á með reglulegu millibili. Verst að leikstjórinn missti mikinn kjark eftir að þessi féll ekki í kramið hjá áhorfendum fyrir að ganga alltof langt yfir línuna. Síðan þá hefur hann oftast haldið sig á öruggu svæði.

Besta senan:
Senan á grímuballinu, þar sem Bruce Wayne og Selina Kyle uppgötva andlegu grímur hvors annars.

2 athugasemdir við “Batman Returns

Sammála/ósammála?