Warrior

Skortur á frumleika er enginn dauðadómur fyrir kvikmynd en það fer mikið eftir efninu hvort slíkt dragi heildina mikið niður eða ekki. Klisjur eru aðeins alvarlegra vandamál og þegar maður sér eitthvað sem maður hefur margoft séð áður, og gert betur, þá dettur fókusinn aðeins. Það gerist ekki nema í örfáum tilfellum með gríðarlega löngu millibili að maður sjái kvikmynd sem fer eftir uppskrift og nær samt að hafa þau áhrif á mann eins og maður hafi orðið vitni af einhverju ótrúlega fersku.

Warrior rotaði næstum því úr mér vitið og sannaði fyrir mér að hún væri einmitt slík mynd. Hún er svakaleg klisja í sjálfu sér og langt frá því að vera óútreiknanleg, en hún virðist heldur ekkert að fela það. Í staðinn nýtir hún sér þá styrkleika sem hún hefur, leggur heilmikið púður í það sem liggur á borðinu og útkoman verður eitthvað það öflugasta slagsmáladrama sem ég hef séð í áraraðir. Og fyrir alla þá sem töldu The Fighter vera hágæðamynd, bíðið bara þangað til þið sjáið hvernig þessi ráðskast með ykkur tilfinningalega. Ekki ósvipaðar myndir, fyrir utan það að þessi hefur alvöru pung.

Bestu myndirnar af þessari tegund (eins og t.d. Raging Bull, Million Dollar Baby o.fl.) eru þær sem gera allt sem gerist utan slagsmálahringinn jafn áhugavert ef ekki meira svo heldur en það sem á sér stað inni í honum, og þar hittir Warrior alveg í mark. Myndin er frekar hæg og tekur sinn tíma til að hrökkva í gang, en það er viljandi gert og hiklaust nauðsynlegt til að áhorfandinn eyði smátíma með persónunum áður en mikilvægustu atburðirnir eiga sér stað í seinni hlutanum. Slagsmálaatriðin sjálf eru hörð, átakanleg og stundum óbærilega spennandi (jafnvel þau sem við vitum hvernig eiga eftir að enda). Þau myndu hins vegar engu skipta ef manni væri ekki jafn annt um þessa karaktera, og persónutengslin og sérstaklega gallar þeirra sem myndin snýst um er aðallinn í sögunni. Þolinmóða uppbygging myndarinnar gerir það sem koma skal miklu meira taugatrekkjandi um leið og maður sér hvert sagan stefnir, og það er ansi fljótt.

Leikstjórinn hittir á allar réttu nóturnar þegar kemur að því að láta dramað virka. Síðan er handritið býsna höggþétt og leikurinn ekkert annað en óaðfinnanlegur. Ég hef haft gríðarlegt dálæti á Tom Hardy alveg síðan ég sá hann stela senunni í hinni annars ómerkilegu Star Trek: Nemesis (þar var hann grannur og sköllóttur). Eftir að hafa fylgst með leiksigur hans í Bronson, töffaratöktunum hans í Inception og núna vélsöginni sem hann leikur í Warrior er ég öruggur um að þetta sé einn sá metnaðarfyllsti og aðdáunarverðasti sem hægt er að finna í dag. Hardy og mótileikari hans, Joel Edgerton, eru hér um bil fæddir í þessi hlutverk. Sögur um lítilmagna (þ.e. svokallaðir underdogs) geta oft verið áhrifaríkar, og hérna höfum við tvo. Við finnum til með báðum aðilum á ólíkan máta. Baksagan hjá Hardy er óljósari en hjá Edgerton í upphafi sögunnar en hvernig leiðir þeirra liggja saman býr til einhvern albesta endasprett sem ég hef séð í bíó á öllu árinu. Fjölskyldudeilurnar í The Fighter, eins sterkar og þær voru, eiga ekkert í þessa mynd.

En ef Hardy og Edgerton eru hér um bil fullkomnir, þá verð ég að segja að Nick Nolte er aðeins betri. Honum tekst að breyta ótrúlega gölluðum einstaklingi í gríðarlega sympatíska persónu, og nokkrar senurnar sem hann fær eru líklegar til þess að græta aldraða feður úr öllum áttum og jafnvel fá hin hörðustu vöðvatröll til að sjúga upp í nefið. Ég get heldur ekki sett út á Jennifer Morrison (þessi fallega gella úr House sem lítur alltaf út fyrir að vera reið en er það ekki) eða nokkurn annan sem fer með aukahlutverk í myndinni.

Enn og aftur, Warrior er öskrandi klisja með mikið af kunnuglegum töktum og ef menn ætla að hakka hana í sig með því hugarfari þá er það mjög auðvelt. Ég hika þó ekki við að segja að þú sért gerður úr steini ef þessi mynd hvorki hreyfir við þér eða heldur þér pikkföstum þegar bæði andlegu og líkamlegu átökin byrja. Kvikmynd þarf ekki að brjóta blað í sögu kvikmynda til að fá þig til að segja: “Kræst, hvað þetta var góð mynd!” Hún þarf auðvitað að hafa eitthvað almennilegt í boði í staðinn. Warrior hefur helling, en hún er umfram allt nautsterk og hélt ótruflaðri athygli minni allan tímann.

Besta senan:
Flestallar með Nick Nolte í seinni helmingnum. Annars myndi ég bara hreinlega skjóta á augljósa valið: lokabardaginn.

Sammála/ósammála?