The People vs. George Lucas

Þegar ég var 6 ára kynntist ég fyrst Star Wars-heiminum og hafði ég ólæknandi áhuga á honum sem lauk einhvern tímann á síðasta áratug. Ég, eins og svo margir aðrir, gat bara ekki þolað lengur þessar andlegu barsmíðar frá skaparanum sjálfum. Ég efa ekki að George Lucas sé ánægður í dag með bankahvelfinguna sína, en til þess að ná þeim stað þurfti hann að selja sál sína fimmfalt og smám saman lækka í áliti hjá þeim sem settu hann fyrst á háan stall.

Snemma á feril sínum var Lucas metnaðarfullur, hugmyndaríkur og heldur djarfur kvikmyndagerðarmaður. Smám saman fóru stærri og stærri dollaramerki að myndast í augunum á honum og þá varð hann ekki lengur leikstjóri eða hugmyndasmiður, heldur stórfyrirtækjaeigandi og framleiðandi sem tekur mikið tillit til leikfangasala. Tilfinningar mínar gagnvart honum eru svo blandaðar að það á sér eiginlega ekkert fordæmi, og þessi heimildarmynd kafar svo sannarlega út í það hvernig aðdáendurnir geta elskað einn merkilegasta manninn í bandarískri kvikmyndasögu og hatað hann á sama tíma.

The People vs. George Lucas er fantagóð heimildarmynd þótt hún segi eiginlega ekkert sem Star Wars-aðdáendur hafa ekki heyrt 100 sinnum nú þegar. Hún týnir samt umræðurnar vel saman, kemur með skemmtilegar rökfærslur (stundum úr báðum áttum) og byggir efni sitt vel upp svo úr því verði athyglisverð heimildarmynd sem missir aldrei flæðið.

Reyndar fannst mér skilaboðin í lokin snúa dálítið út úr öllu því sem afgangurinn af myndinni hefur að segja, og það hefðu alveg mátt koma oftar rök gegn því sem nördahóparnir höfðu að segja. Þessi mynd væri sennilega eitthvað parsec-dúndur ef hún kæmi með góða samantekt frá báðum hliðum og leyfði áhorfandanum að dæma sjálfur. Í staðinn er þetta bara sama nördaröflið sem maður hefur bæði heyrt frá félögum sínum, lesið um af netinu eða tautað sjálfur.

Allt sem er rætt um eru samt góðir punktar, og ein áhugaverðasta pæling myndarinnar tengist ákvörðun leikstjórans um að afneita frumútgáfunni frá 1977, og leyfa henni ekki að lifa áfram þó svo að hún sé ein mikilvægasta kvikmynd sögunnar. Netgagnrýnandinn Mike Stoklasa sagði eitt sinn þetta væri eins og einhver myndi fjarlægja Monu Lisu málverkið og leyfa bara stafrænum myndaskrám af því að lifa.


(hví Lucas? HVÍ????)

George Lucas er samt jafnmikið efni í heimildarmynd og Star Wars-fyrirbærið sjálft. Þetta helst auðvitað í hendur og maður spyr sig í rauninni hvort þetta áhrifaríka vörumerki hafi verið dauðadæmt strax frá upphafi? Lucas þykist alltaf sjálfur vita betur en aðdáendurnir þótt hann sjái ekki einu sinni sjálfur það sama og við sem gerir Star Wars gott.

Áður en ég fer út í þessa mynd, þá vil ég rétt minnast stutt á heimildarmyndina Empire of Dreams:  The Story of the Star Wars Trilogy (2004). Ef þú ert aðdáandi þá ertu sennilega löngu búinn að sjá hana, og miklar líkur eru á því að þú dýrkir hana jafnmikið og ég. Sú mynd sýnir á mjög grípandi hátt hvernig fyrsta Star Wars-myndin braut blað í kvikmyndasögunni. Mikið er fjallað um þá heljarinnar framleiðslu sem sú mynd var, og hvað Lucas barðist mikið fyrir henni. Mjög átakanlegt fyrir manninn, sem á þessum tíma sýndi merki um alvöru leikstjóra og frumkvöðul. Fjallað er um gamla þríleikinn í heild sinni og hvernig kóngurinn klifraði stöðugt hærra í virðingastiga bransans.

Erfiða reynslan sem fylgdi A New Hope hafði sína kosti og galla, bæði fyrir hann og aðdáendur. Þetta olli því að hann vildi ekki gera mikið annað en að sitja í sínum þægindum, telja peningana sína og hafa yfirumsjón með öllu án þess að gera of mikið. Síðan hefur hann reglulega gefið aftur út myndirnar sínar, er stöðugt fiktandi í þeim og hefur svo ekki einu sinni áhuga á því að leggja almennilega handritsvinnu í söguna. Ef það skiptir svona miklu máli að „fullkomna“ gömlu myndirnar með tölvugerðum breytingum, af hverju var þá ekki þessi fullkomnunarárátta til staðar í prequel-seríunni?

Lucas er markaðssnillingur sem kann að misnota aðdáendur sína. Allir Star Wars-nördarnir hafa látið „blekkja sig“ í að kaupa sama hlutinn oftar en einu sinni, bara því einhverju nýju hefur verið bætt við. Krakkar eru auðvitað líka óðir í þetta, og ég segi þetta sem einhver sem var það sjálfur einnig. Heimurinn er algjör draumur í augum barns, og leikföngin eru eins og lykill inn í þann fantasíuheim. Lucas hefur heilu kynslóðirnar í vasanum sínum með vöru sem maður efast um að hann dýrki svo mikið sjálfur. Það spilast náttúrulega inn í að maðurinn er hörmulegur handritshöfundur og tekur oft asnalegar leikstjórnarákvarðanir.

Kannski er ég kominn út fyrir grunnefnið en þetta sýnir bara að myndin kastar eldi á bálið sem hefur ekki ennþá slokknað hjá okkur sumum. The People vs. George Lucas dregur upp allt það sem hefur angrað þig við skapandann og leyfir þér að heyra hvað aðrir hafa að segja líka. Ef Star Wars hefur aldrei verið þinn tebolli þá er algjör óþarfi að kíkja á þetta. Ég hvet þig samt eindregið til þess að horfa á þessa mynd ef þú ert eða varst harður aðdáandi. Þetta væri að vísu miklu eftirminnilegra verk ef vefsíðan Red Letter Media væri ekki búin að koma á undan. Plinkett-umfjallanirnar um síðustu þrjá kafla seríunnar eru sennilega með skemmtilegri krufningum sem ég hef séð um bíómyndir. Þar er fjallað miklu betur um allt sem Lucas hefur breyst í og hvernig hann hefur rústað sínum eigin heimi.

Ég mæli með því að fyrst verði tékkað á Red Letter Media-dómunum, síðan þessari, þó svo að það krefjist mikils tíma. Þeir sem eru varir við Plinkett-efnið eru augljóslega búnir að sjá það og eiga þ.a.l. erindi hingað næst.

Svo skulum við muna framvegis að segja alltaf nei við fíkniefnum Lucasar.

Besta senan:
Þegar tekin eru viðtöl við aðdáendur áður en þeir sjá The Phantom Menace í bíó. „There’s just no way this movie will suck!“ segir einn. HA-HA (í Nelson-rödd).

Sammála/ósammála?