Attack the Block

Á einu sumri komu bandaríkin með Super 8 og Cowboys & Aliens, sem áttu báðar að vera óður til gamaldags geimverumynda (sem voru í senn hálfgerðar skrímslamyndir). Bretland færir okkur mynd sem reynir svipað og endar ekki bara með því að vera betri en báðar hinar heldur ein af betur heppnaðri afþreyingarmyndum ársins hingað til. Attack the Block veit fullvel hvernig mynd hún vill vera og sækist eftir markmiði sínu með miklum „old-school“ metnaði og svakalegri umhyggju fyrir geiranum sem hún tilheyrir. Framleiðendur Shaun of the Dead feta svolítið í spor þeirrar hér en er niðurstaðan varla síðri þótt hún sé alls ekki jafn fyndin. Hún er hins vegar dekkri, meira spennandi og með aðeins meira bit.

Myndin hefur þrusugott flæði og er augljóslega gerð af miklum áhuga. Tónlistin er líka geggjuð (Basement Jaxx stendur sig!) og setur ákaflega flottan tón á myndina ásamt fínni myndatöku. Það eru þó leikararnir sem koma mest á óvart, og eru hreinlega allir ungu leikararnir bara afar sannfærandi og reyndari menn eins og Nick Frost koma sér mjög vel fyrir. Handritið stríðir manni líka svolítið með því að kynna helstu persónurnar til leiks í afar neikvæðu ljósi, og sem stereótýpur. Síðan með tímanum bætist við örlítil dýpt hægt og hægt og að lokum verða flestir að viðkunnanlegri og raunverulegri karakterum.


(Aðalleikarinn er óviðurkennda afkvæmi Denzels og Michael Jai White)

Spenna nær að byggjast upp vegna þess að það er hægt að halda upp á karakterana, og í þokkabót eru geimverurnar í myndinni býsna ógnandi. Sérkennilegt útlit, en frábær tilbreyting frá klassískri hönnun og finnur maður fljótt fyrir óttanum vegna þess að þessar verur eru ofsalega grimmar og hættulegar (leikstjórinn leggur áherslu á það með því að koma með örfáar ljótar ofbeldissenur til að hrista upp í manni). Miklu villtari heldur en í hinum geimverumyndum sumarsins. Ég neita þó að ganga svo langt með að kalla þessa mynd eitthvað óhugnanlega, en skemmtanagildið rúllar alla leið og festist maður fljótt við atburðarásina. Breski keimurinn er sömuleiðis mjög ferskur og skynjar maður ansi fljótt að ekki mikið tillit sé tekið til Hollywood-reglna. Það er eitt besta hrósið sem svona mynd getur fengið.

Allt í allt eru það trúverðugir leikarar, gott handrit, þokkalegur húmor og gríðarlegur ferskleiki sem gerir Attack the Block að einhverju sem má alls ekki hundsa á fljótu bragði. Bíóunnendur með dálæti fyrir myndum sem blanda saman sci-fi, gríni og skrímslatrylli eiga eflaust eftir að koma sáttastir út.

Vel gert hjá þér, Joe Cornish! Hlakka til að sjá meira frá þér.

atta

Besta senan:
Opnunarskot með Luke Treadaway og Nick Frost sitjandi í sófa dauðaalvarlegir og þöglir í cirka 20 sekúndur. Sjáið myndina og þá skiljið þið.

2 athugasemdir við “Attack the Block

  1. Það var gjöööðveikt. Tónlistin gerði alveg senuna líka.

Sammála/ósammála?