Melancholia

Það er farið að naga mig pínulítið hvað Lars von Trier er alltaf hrifinn af því að gera kvenfólki lífið leitt í kvikmyndum sínum (og oftast eru þetta persónur sem eiga það þegar nógu erfitt í upphafi sögunnar) og að þessu sinni tvöfaldar hann skammtinn sinn frá síðustu mynd sinni. Þá var það aðeins Charlotte Gainsbourg sem fékk að kenna á því í einn og hálfan tíma. Núna eykst lengdin og deilist gráturinn og andlega misþyrmingin á milli hennar og Kirsten Dunst, sem fær hérna hálfgerða kombakk-rullu (og stendur sig óaðfinnanlega í því).

Leikstjórinn leggur samt sitt umdeilda egó aðeins til hliðar, mýkir sig aðeins og nær í kjölfarið miklu betri fókus á Melancholia heldur en hann gerði nokkurn tímann með Antichrist að mínu mati. Myndin greip mig sterkt, hélt athygli minni allan tímann og sat lengi í mér eftirá, og gerir það í rauninni enn. Það er alltof lítil vísindalógík í henni miðað við það að vera óbein „vísindaskáldsaga“ af raunsæju gerðinni, en hún virðist á hinn bóginn spila afskaplega vel með það sem hún hefur.

Von Trier er hugrakkur maður án nokkurs vafa. Sumar myndirnar hans finnst mér samt bara hundleiðinlegar, og þessi er ein af skuggalega fáum sem mér fannst virkilega athyglisverð frá upphafi til enda. Einnig er þetta fyrsta myndin hans í langan tíma sem fékk mig ekki til að hata mannkynið og tilveruna eftir að hafa horft á hana. Þvert á móti reyndar.

Sem einhver sem er ekki aðdáandi leikstjórans þá var ég sjálfur hissa hversu góð mér fannst hún vera. Melancholia er mjög markviss, ljóðræn og sálfræðilega djúp mynd, stórkostlega leikin frá öllum hliðum og að sjálfsögðu glæsilega skotin (með nóg af sterkum römmum sem standa upp úr minninu eftir að áhorfinu lýkur). Tveggja þátta strúktúrinn kemur líka vel út og það er einkum áhugavert hvað fyrri og seinni helmingur myndarinnar eru ólíkir (alveg eins og systrurnar sem þeir fjalla um). Ekki einu sinni fannst mér 130 mínútna lengdin auglýsa sig of mikið nema rétt aðeins í kringum miðjuna.

Það má vera að Von Trier sé svolítill klikkhaus, en mikið helvíti kann hann að búa til flott skot og ráðast inn í heilabúið manns með tónlist sem hverfur ekki á næstu klukkutímum. Notkunin á Tristan & Isolde forspilinu eftir Wagner hefur næstum því truflandi áhrif á mann á meðan myndinni stendur, en krafturinn er óneitanlega öflugur. Það er þó reyndar ljóst að þessi mynd eigi annað hvort eftir að hitta beint í mark hjá fólki eða skjóta langt framhjá því, eins og gengur og gerist með allar myndir leikstjórans.

Mér finnst það alls ekki ólíklegt að Melancholia verði talin ein af eftirminnilegustu myndum ársins 2011 þegar uppi er staðið, og hún væri það sjálfsagt líka þótt mér hefði ekki fundist hún góð. Gefið henni að minnsta kosti tækifæri, hvort sem þið eruð Von Trier-unnendur eða ekki.

Og fyrir þá sem hafa pælt í því:
JÁ, Kirsten Dunst fer úr fötunum í myndinni, og NEI, það er ekkert sérstaklega kynþokkafullt. Danski klikkhausinn virðist alltaf ná að gera nekt (og kynlíf) mjög óaðlaðandi í myndunum sínum.

Besta senan:
Atriðin með mömmunni krömdu alveg í manni hjartað. Djös tík!

Sammála/ósammála?