Contagion

Það er alveg sama hvað Steven Soderbergh gerir, það er alltaf þess virði að kíkja á. Fleiri leikstjórar mættu alveg prófa jafnmikið af fjölbreyttum hlutum og hann. Því miður hef get ég ekki sagt að allar myndirnar hans séu góðar, og satt að segja hef ég meira verið hrifinn af mainstream-myndunum hans (að hluta til vegna þess að þær eru oft eitthvað svo ó-mainstream á sama tíma, ef það er eitthvað til í því) heldur en þessar djúpu og listrænu. Þær reyna oft meira á sig og skilja mann eftir frekar kaldan. Soderbergh-myndir eiga það samt oft sameiginlegt að mínu mati að vera andlega fjarlægar og þreytandi.

Contagion er rosalega traust mynd; vel skrifuð, grípandi á sumum stöðum, skuggaleg á öðrum en almennt raunsæ og athyglisverð. Hún er sennilega ein sterkasta mynd sem hefur verið gerð um veirufaraldur. Helsti gallinn við hana er aðallega sá að maður tengist persónum myndarinnar voða lítið og festist þar af leiðandi ekki jafnmikið inn í dramanu þegar sumir fá vírusinn. Svo gengur það oft og gerist í svona stjörnuprýddum „ensemble“ myndum að sumir leikarar fá heilar persónuarkir á meðan aðrir fá bara hálfkláraða prófíla. Sá karakter sem nær best sambandi við áhorfandann er trúlega sá sem Fat… Matt Damon leikur.

Leikararnir eru allir til fyrirmyndar en það er ekki við öðru að búast vegna þess að Soderbergh hefur alltaf verið frábær á því sviði. Hlutverkin eru heldur ekki þessi hefðbundnu sem maður sér í mainstream-myndum og einnig er ljóst að leikararnir séu ekkert feimnir við það að vera örlítið ljótari á skjánum en venjulega. Fólk er oft ófarðað í nærmyndum og að sjúga upp í nefið með sjúskað hár. Síðan eru nokkrir aðeins „þykkari“ en yfirleitt og Jude Law fær meira að segja ógeðslega framtönn af engri sérstakri ástæðu. Ég hætti ekki að stara á hana.

Tónlistin er hörkugóð, myndatakan flott og klipping og stíll kemur vel út, en það eru svosem kostir sem fylgja langflestum Soderbergh-myndum. Þeir sem þekkja ekki nafnið eru ábyggilega þeir sem fara ekki oft í bíó. Ef þú ert ein/n af þeim þá vonast ég innilega til þess að þú búist ekki við annarri Outbreak. Þin hin getið átt von á veiruútgáfunni af Traffic sem er bara aðeins styttri, breiðari og minna stílíseruð. Hún fær mann gjarnan einnig til að brjóta heilann yfir því hversu miklar skepnur við manneskjur erum inn við beinið þegar lífið er í húfi.

Besta senan:
Þegar kaosið byrjar að stigmagnast.

Ein athugasemd við “Contagion

Sammála/ósammála?