Real Steel

Það er hægt að gera ýmsa brandara um Real Steel, en aðeins einn er svo augljós að allir eiga sem hafa séð myndina (eða eitthvað úr henni) eiga eftir að keppast við það að benda fyrst á hann: Þetta er kvikmyndaútgáfan af Rock ’em Sock ’em-róbotadótinu sem maður sá alltaf í æsku, en myndin vill bara ekki viðurkenna það. Mjög klassískt leikfang og ef þið viljið vita uppskriftina að þessari mynd þá skuluð þið sjá fyrir ykkur Rocky með þannig köllum, vöðvana á Hugh Jackman og allar helstu feðgaklisjur sem Spielberg hefur nálgast.

Myndin er alls ekki slæm en heldur ekki góð. Hún hefur reyndar alveg þrusufína kosti, eins og góðar brellur, skemmtilega bardaga, flotta myndatöku og líflegan Hugh Jackman. Massaði og helköttaði sjarmörinn sýnir hlutverki sínu mikinn áhuga og verð ég sjálfur að játa það að karakterinn hafi verið talsvert óvæntur, ef svo má segja.

Myndin segir þessa dæmigerðu sögu skíthælsins sem er lélegur faðir í fyrstu en öðlast smám saman sál því lengri tíma sem hann eyðir með syni sínum. Ég hef séð tonn af myndum með þessum söguþræði, en það sem lætur Real Steel skara aðeins framúr er að Jackman eykur stælana sína þrefalt meira en þykir eðlilegt. Mér finnst á köflum drepfyndið hvað karakterinn hans er ófyrirgefanlega mikill skíthæll, og þetta hefði þótt mjög djarft ef við værum að horfa á meinlausa PG-mynd. Myndin lætur einmitt eins og hún sé að reyna að vera algjör krakkamynd, fyrir utan allt ofbeldið og „attitjúdið.“

Við erum í staðinn að ræða um PG-13-mynd sem liggur pikkföst á milli tveggja ólíkra markhópa. Tónaskiptingin er vægast sagt ójöfn. Það er eins og hún sé að reyna að vera eins mjúk og saklaus og einhver Disney-súpa en einnig dökk og hrá eins og Transformers-myndirnar. Ég hefði alveg viljað þetta síðarnefnda vegna þess að hún er stundum óvenju hörð og hefði hún gengið aðeins lengra með það myndi ég ábyggilega kalla hana góða þótt klisjukennd sé. Tónninn er alltof mjúkur í þeim senum sem reyna að vera sætar og hjartnæmar en það kemur alls ekki á óvart frá leikstjóra eins og Shawn Levy. Maðurinn hugsar hvorki um orðspor né virðingu. Hann er bara í Hollywood til að græða og vera ófyndinn. Real Steel er stærsta tilbreytingin hans til þessa, en allt það góða við myndina kemur honum ósköp lítið við.

Myndin er reyndar alveg brandaralega löng og svakalega lengi að henda sögunni í gang. Þessi galli springur samt alveg framan í mann á lokahálftímanum, en þá er eins og myndin hafi loksins áttað sig á því hvað hún er hæg. Þá byrjar frásögnin að hlaupa hratt yfir mikilvægustu senurnar, ljúka öllum vandamálum sögunnar á klunnalegan hátt (var svo bara aldrei minnst á það aftur að Jackman seldi krakkann sinn í byrjuninni??) og drífa sig beint að lokabardaganum, sem er samt hraðspólað líka í gegnum. Við fáum ekkert nema bara fyrstu og seinustu lotuna. Persónan hennar Evangeline Lilly dregur myndina líka talsvert niður. Hún er svakalega leiðinleg og í rauninni gerir leikkonan ekkert til að berja smá lífi í hana. Rómantíkin hjá henni og Jackman er sömuleiðis þvinguð og skortir allan fókus.

Róbotaslagsmálin eru annars bara helvíti góð, og ég er viss um að krakkar, sérstaklega ungir strákar, eigi eftir að kalla sig sátta eftir þessa. Myndin hefði getað orðið meira aðlaðandi ef það sæi markvissari leikstjóri um verkið. Það er saklaust afþreyingargildi í henni fyrir utan ýmsa leiðinlega kafla, en hún fuðrar fljótt úr minninu og versnar örlítið því meira sem maður hugsar um hana.

Já, og meðan ég man… Ég held að Danny Elfman hafi aldrei selt sig jafnmikið út og hér. Rosalega væmin og týpísk tónlist.

Besta senan:
Lokabardaginn er alls ekkert slæmur.

PS.
Real Steel hefði satt að segja verið töff titill á næstu Wolverine-mynd.

Sammála/ósammála?