Back to the Future

Í æsku minni horfði ég rosalega oft á þrjá ólíka þríleiki: Gömlu Star Wars-myndirnar, Indiana Jones og Back to the Future, og sá þríleikur sem ég horfði hiklaust langmest á var þessi síðastnefndi. Mörgum þætti þetta ábyggilega skrítið eða a.m.k. finnst mér það tiltölulega sérstakt að ég vildi oftar eyða tíma með Marty McFly í staðinn fyrir Luke Skywalker eða Indy.

Sem krakki elskaði ég hugmyndirnar í þessum myndum. Það var líka alltaf nóg að gerast, persónurnar eru ógleymanlegar og DeLorean-bíllinn var ábyggilega efstur á blaði hjá mér yfir það leikfang sem ég þráði mest í heiminum (á eftir Ghostbusters-bílnum, sem ég átti). Eftir því sem ég eldist meira fór ég að kunna smám saman að meta myndirnar þrjár meira, á allt öðrum sviðum, og þótt ég geti ómögulega munað hvenær ég sá þær fyrst þá hef ég aldrei nokkurn tímann fengið leið á þeim síðan. Ég mun ekki hika við það að sjá til þess að ófædd börnin mín kynnist þessum myndum.

Ég horfi á þennan þríleik ábyggilega einu sinni á ári núna. Vissulega get ég nefnt bíómyndaseríur sem eru miklu betri, en þessi verður alltaf í sterku uppáhaldi. Samt, eins og gengur og gerist með flesta sem hafa ólæknandi áhuga á kvikmyndum þá breytist oft álit manns á þeim myndum sem maður ólst upp með. Þangað til ég var kominn með lágmarksvit á bíómyndir var Back to the Future: Part II alltaf í mesta uppáhaldi hjá mér (líklegast vegna þess að bíllinn gat flogið í henni – það er svona að vera heimskur smákrakki), þótt hinar hafi ekki verið langt á eftir. Í dag segi ég það sama og flestir: Sú fyrsta er klárlega sú albesta, og þeir sem þekkja gott handrit og vel skipulagða sögu geta ekki sagt annað.

Back to the Future er kannski aðeins of upptekin stundum við að vera sniðug og vitna í menningartengda hluti sem áhorfandinn fattar en persónurnar ekki. Svo að auki er endalaust hægt að taka þá umræðu um hversu heimskuleg vísindalögmálin eru. Allt þetta þykir mér samt vera líka partur af sjarma myndarinnar. Hún er augljóslega gamanmynd og eldist að mínu mati alveg gríðarlega vel. Persónurnar eru hér um bil allar frábærar, leikararnir gallalausir hver í sínu lagi og samspil þeirra enn betra. Handritið er samt sem áður helsta gullið hvað kostina varðar. Sagan er dúndurskemmtileg, athyglisverð alla leið, mjög fyndin, undarlega spennandi, meistaralega samsett (með miklu tilliti til „set-up, pay-off“ reglunnar) og byggir upp einhvern best heppnaða lokaþriðjung kvikmyndasögunnar að mínu mati, a.m.k. hvað gamanmyndir varða. Þar er frásögnin sífellt að þrepa sig upp frá einum endi til þess næsta og maður helst alltaf jafnlímdur við sætið; Frá tímapunktinum þar sem skólaballið byrjar til mögnuðu senunnar þar sem George McFly (Crispin Glover í besta hlutverki ferils síns) mannar sig upp, svo tónleikanna og að lokum þegar Marty reynir að koma sér aftur heim.

Tónlist Alans Silvestri er ekkert annað en æpandi klassík, og með öllum líkindum einhver sú minnisstæðasta og mest grípandi sem ég hef heyrt í bíómynd. Silvestri hefur að mínu mati aldrei komist á sama stall og helstu meistararnir í kvikmyndatónlist – þó svo að hann hafi oft og mörgum sinnum reynt það – en Back to the Future-tónlistin er vafalaust eitt það besta sem hann hefur samið á ferlinum. Í hvert sinn sem aðalstefið hrekkur í gang kemst maður í svakalegan fílíng, og þá ekkert minna en t.d. þegar maður heyrir þemalagið í Indiana Jones-myndunum. Þetta er eitt af þessum stefjum sem fær mann til að vilja keyra ofsalega hratt þegar maður heyrir það.

Eftir meira en 25 ár er enn hægt að njóta þessarar myndar og þeir sem eru með fóbíu gagnvart myndum sem eru áberandi gamlar (já, slíkt fólk er víst til!) munu ekkert þurfa að kvarta vegna þess að saumarnir sjást varla. Myndin er vissulega angandi af ’80s-stílnum, en það er hvort eð er tilgangurinn og vinnur það alls ekkert gegn henni. Þetta er skylduáhorf í orðsins fyllstu merkingu, og svo er eiginlega skylda að loka sögunni með því að horfa á hinar tvær myndirnar. Þær eru alls ekki jafn góðar (ástæðan liggur í þremur orðum: Ekki. Jafn. Heillandi.) en bráðskemmtilegar þrátt fyrir það. Númer tvö er að mínu mati örlítið betri en sú þriðja vegna þess að hún gerir hugmyndaríka hluti á meðan lokamyndin nýtur sér meira eða minna sama söguþráð og fyrsta myndin. Flestir eru að vísu ekki alltaf sammála mér þarna.

Pjúr og einfalt; Þetta er nákvæmlega ein af þessum myndum sem þú átt að horfa á með reglulegu millibili. Og skildi það ólíklega vilja til að þú hafir ekki ennþá séð hana, þá skaltu hypja þig frá skjánum og kippa því í lag eins og skot!

Besta senan:
George McFly breytist úr dreng í mann! (ekki bókstaflega)

Ein athugasemd við “Back to the Future

  1. Þessar myndir eru á semi löngum lista yfir þær myndir sem virðast vera must see sem ég á enn eftir að sjá, greinilegt að ég þarf að fara drulla mér í að horfa á þær!

Sammála/ósammála?