Behind the Mask: The Rise of Leslie Vernon

Stundum langar mig til að skríða inn í kassa og leggjast í fósturstellingu vegna skammar þegar ég uppgötva rosalega góða mynd sem ég hefði átt að vera löngu búinn að sjá. Behind the Mask, sem er frá 2006 (en kom formlega út árið eftir), er án efa besta og snjallasta satíra á slasher-hrollvekjur sem ég hef nokkurn tímann séð. Verst er samt að alveg merkilega fáir hafa séð hana og ábyggilega er alveg haugur af bíónördum sem hefur ekki minnstu hugmynd um tilvist hennar.

Sjálfur hafði ég heyrt bara eitthvað lítið um hana þangað til ég loks gaf henni tækifæri (sem mér var skipað að gera af félaga mínum), en titillinn og plakatið virðist lítið gefa til kynna að hér sé eitthvað nýtt á ferðinni. Kannski tengist það markaðssetningunni og e.t.v. höfðu framleiðendur ekki hugmynd um hvað þeir höfðu hér í höndum sínum. Í staðinn ákváðu þeir bara að selja myndina sem það sem hún gerir mikið grín að. Myndin tekur allt það sem Scream kenndi okkur um slasher-geirann og lyftir því upp á mun hærra plan, og öskrar hreinlega af ferskleika og frumleika alla leiðina. Mikil kaldhæðni dreifð inn í líka.

Áður en ég sá myndina gerði ég þau mistök að kynna mér aðeins söguþráðinn fyrirfram. Þá fyrst var ég rosalega spenntur að sjá afraksturinn en mitt ráð – ef þú hefur kannski ekki heyrt mikið um myndina – er að segja þér að horfa á myndina undir eins, og þá blindandi (forðist trailerinn sérstaklega!). Ef þér finnst slasher-myndir oft á tíðum fyndnar nú þegar og ert pínu þreyttur á formúlum þeirra þá áttu eftir að dýrka þessa. Hún sameinar léttan óhugnað við húmor á þannig máta að þér leiðist ekki í eina mínútu. Ferskleika hennar er mestmegnis að finna í skemmtilegum strúktúr og gáfuðu handriti. Í cirka klukkutíma erum við að fylgjast með meinfyndinni mockumentary-mynd, þar sem áhorfandinn fær að kynnast raðmorðingjanum Leslie Vernon og hversu skarpur, metnaðarfullur og undarlega sjarmerandi hann er í raun. Síðan í lokahálftímanum slítur hún sig frá þeim frásagnarstíl og breytist í hefðbundna (en samt ekki) hryllingsmynd. Skiptingin er mun betur heppnaðri en maður myndi halda.

Það sést samt svo vel á þessari mynd að leikstjóri hennar hafi unnið heimavinnu sína, og maður finnur fyrir því í hverri einustu senu að þetta er eitthvað sem er gert af alvöru kvikmyndaáhugamanni. Krufningin á þessum bíógeira er það góð að ég get næstum því lofað þér að þú munt aldrei horfa á Halloween, Friday the 13th eða sambærilegar myndir aftur sömu augum eftirá. Tilvísanir finnast sömuleiðis í tonnatali, bæði augljósar og duldar. Leikstjórinn missir nokkur prik fyrir fullýktan tón þegar myndin tekur upp á því að skipta yfir í hryllingsmynd. Það koma nokkur brot í þeim stíl áður en myndin umturnast alveg, og þau virka ef ætlast er til þess að maður hlæi af þeim en aldrei tókst mér að finna fyrir alvarleika í andrúmsloftinu. Seinasti hálftíminn var heldur ekki jafn óhugnanlegur og ætlast var til, en allan tímann dáðist ég af handritinu og hugmyndunum hvort eð er. Það er samt erfitt að neita því hversu spúkí gaur Leslie er um leið og þú ert búinn að kynnast gáfum hans.

Leikurinn er yfir heildina ágætlega sannfærandi þó svo að Nathan Baesel hafi hiklaust skilið mest eftir sig í hlutverki sem þú munt seint gleyma. Leslie er svo frábær karakter og snilldarlega leikinn vegna þess að hann er svo fáránlega viðkunnanlegur. Og burtséð frá þeirri staðreynd að hann skipuleggur og fremur morð virðist hann vera ósköp eðlilegur náungi sem maður myndi glaðlega fá sér bjór með. Það er ekki möguleiki að nokkur annar leikari í þessari mynd komist nálægt frammistöðu þessa manns. Leiðinlegt samt að það hafi ekki verið hægt að gera meira við persónuna hans Roberts Englund.

Ég gæti lengi potað í smáatriði og sett út á feiluðu atriðin en ég ætla mér ekki að gera það því heildarniðurstaðan er svo tryllt skemmtileg og öðruvísi að smæstu gallarnir hverfa nánast út augsýn. Og það sem kryddar Behind the Mask ennþá meira er að hún segist aldrei vera að gera grín að hefðum og uppskriftum hryllingsmynda (annað en Scream). Í staðinn gerist hún í „heimi“ þar sem Freddy Kruger, Michael Myers og Jason Voorhees voru allir til í alvörunni. Ef þú hefur hvorki séð né heyrt um þessa mynd þá geturðu ekki annað en sagt að þetta hljómi ansi spennandi. Þeir sem hafa annars séð myndina hljóta að vera sammála mér, ef ekki þá hlýtur ádeilan að hafa farið alveg framhjá þeim.

Það er erfitt verk að móta vel heppnaða slasher-paródíu sem reynir svo LÍKA að vera slasher-mynd, en þessi hittir naglann á höfuðið. Hún er einfaldlega bara Geðveik með stóru G-i.

Besta senan:
Þegar Leslie fer í gegnum „planið“ sitt rétt áður en allt klabbið byrjar. BRILL-JANT!

Sammála/ósammála?