The Room

Ekki láta einkunnina rugla í ykkur, The Room er, eins og eflaust margir ættu að vita, einhver mesti saur sem hefur verið kvikmyndaður frá því að fundið var upp á kamerunni. En þrátt fyrir að vera einhver alversta og með öllum líkindum feilaðasta tilraun að dramamynd sem ég hef á minni stuttu ævi séð, þá er hún líka ein sú skemmtilegasta. Ástæðan er einföld: Tommy Wiseau er jafn hæfur kvikmyndagerðarmaður og blindur gaur með enga heyrn sem er þroskaheftur í þokkabót. Og viti menn, sem leikari er hann ENNÞÁ misheppnaðri! Ég hef bara sjaldan séð annað eins, og ég komst ekki hjá því að stara með galopinn kjaftinn yfir meirihluta myndarinnar. Ef þú ert farinn að leika það illa að sápuóperuleikarar myndu hlæja sig dauða yfir hverjum einasta sérhljóða frá þér, þá ertu heldur betur á vondum stað.

Myndin tekur sig svo tryllt alvarlega að það breytist fljótt í aðhlátursefni, mjög fljótt. Hún reynir af fullum krafti að vera einhvers konar áhrifaríkt melódrama en Wiseau virðist vera ófær um að búa til staka senu sem er ekki illa klippt, illa hljóðsett, hörmulega leikin, tilgerðarleg, grunn eða þvinguð á einhvern hátt. Senuuppbyggingar eru hræðilegar og flæði myndarinnar alveg yfir höfuð út úr kú. Hún er drulluhæg og reynir að slóra eins og hún mögulega getur, bæði með tilgangslausum samræðum, átökum sem stefna hvergi og kynlífssenum sem eru svo bjánalegar að þú ferð að efast um hvort leikararnir hafi hugmynd um hvernig kynlíf virkar. Tónlistin í þeim senum er algjör djókur líka. Reyndar ekki bara þar, heldur í allri myndinni. Annars hata ég venjulega að horfa á svona óvandaðar hægðarhrúgur en þar sem The Room virðist stefna að því að vera Casablanca slæmra mynda tókst mér að skemmta mér konunglega yfir henni, og félagar mínir gerðu það líka.

Ég hef sjaldan eða aldrei hlegið jafn mikið yfir mynd sem ætlaðist aldrei til þess að kalla fram slík áhrif. En í þessari mynd er varla mínúta sem líður án þess að maður hneykslist yfir hversu hallærisleg öll myndin er, og sumar setningar eru svo sjúkt kjánalegar að þú munt kvóta í þær dögum (jafnvel mánuðum) saman eftirá. Þetta er ein slíkra mynda sem þú þarft að sjá með eigin augum til að trúa. Hún er fyndnari heldur en Commando, Batman & Robin, Battlefield Earth og Never Back Down lagðar saman. Ef þú ert kvikmyndaaðdáandi og átt fullt af þannig vinum þá skaltu ekki hika við að skipuleggja gott vídeókvöld með þeim (smá bjór myndi nú ekki drepa múdið heldur). Hún nýtur sín albest í rétta félagsskapnum.

Lógíska einkunnin fyrir þessa mynd væri að sjálfsögu ás, en skemmtanagildið nær alveg upp í áttu í minni bók og því beygi ég reglurnar aðeins og enda með því að skella sjöu á kvikindið. Framvegis verður þessi mynd ofarlega á lista hjá mér yfir þær myndir sem munu kæta mig mest eftir vondan dag. Takk hr. Wiseau. Þú ert ómetanlegur og svo sannarlega einn þinnar tegundar.

Besta senan:
Ó mæ… Erfitt að velja. Ég ætla að segja „breast cancer“ senan/línan fræga. Þurfti fyrst að spóla tilbaka til að kanna hvort ég hafi heyrt rétt.

PS.
Hér eru reglurnar ef þú vilt einhvern tímann fara í The Room drykkjuleikinn. Rosa skemmtilegur:

– Drekktu í hvert sinn sem Johnny (Wiseau) hlær
– Drekktu í hvert sinn sem Johnny segir „Oh, hai (nafn á persónu)“
– Drekktu í hvert sinn þegar sagðir eru fallegir hlutir um Lisu eða Johnny
– Taktu skot þegar þú sérð að einhver lína er áberandi döbbuð.

Í lokin muntu líta svona út:

Sammála/ósammála?