Midnight in Paris

Woody Allen hefur í gegnum áratugina verið maður sem fólk annað hvort dýrkar eða hreinlega þolir ekki, en það eru svosem engar nýjar upplýsingar. Ég hef alltaf verið lúmskur aðdáandi þó svo að það sé vafalaust hægt að saka manninn um að sækja aðeins of oft í gömlu vinnubrögð sín, einhæfan stíl og þar að auki kemur hann aldrei með neitt brakandi ferskt nema með margra ára millibili. Ég hef ekki séð margar slæmar myndir eftir hann (og þetta kemur frá manni sem hefur séð þær flestallar) en síðustu tvo áratugi hafa þær ekki verið nema í besta falli fínar, sumar góðar, með kannski nokkrum framúrskarandi myndum inn á milli. En bara nokkrum.

Midnight in Paris er pottþétt langbesta myndin frá þessum manni síðan hann gerði Match Point árið 2005 og fyrsta myndin hans í mörg ár sem ég myndi vilja horfa á oftar en einu sinni. Hún er heillandi, fyndin, skörp, yndislega furðuleg og skemmtileg út í gegn. Hún sýnir hversu góður penni Allen getur verið þegar hann fær loksins nýja og skemmtilega hugmynd. Hérna höfum við mynd sem er á yfirborðinu tímaflakksfantasía en eyðir engu púðri í að velta sér upp úr henni. Lögmálin eru aldrei útskýrð, sem er soddan snilld. Sagan veit hver þemun eru og er tímaflakk einungis notað sem aukaatriði í bakgrunninum. Ekta Allen-steik, hvað annað?

Leikararnir eru allir ómótstæðilegir (já, allir! Að telja þá upp tæki alltof langan tíma) og hinn einfaldi, dæmigerði tökustíll leikstjórans hentar Parísarumhverfinu glæsilega, enda er borgin nánast gerð að sérstæðum karakter. Ef þú ert báðum áttum með hvort þú eigir að kíkja til borgarinnar eða ekki, þá er ég nokkuð viss um að þessi mynd hjálpi ákvörðun þinni.

Það er spurning hvernig myndin hittir í mark hjá þeim sem eru ekki Allen-aðdáendur/þolendur en þeir sem kunna að meta bjartar, viðkunnanlegar og heldur óvenjulegar ævintýrasögur – ef svo má að orði komast – eiga alveg erindi inn á þessa. Skilaboð myndarinnar eru borðliggjandi („fortíðin verður alltaf að vissu leyti meira heillandi en nútíðin“) en burtséð frá því mæli ég eindregið með henni og geng jafnvel svo langt að kalla þetta eina af þeim betri sem ég hef séð á öllu árinu.

atta

Besta senan:
Owen Wilson + eyrnarlokkar + klassískur misskilningur í Allen-stíl = óborganlegt.

Sammála/ósammála?