Borgríki

Eftir að hafa misst vitið úr leiðindum yfir Kurteisu fólki og tímabundið sturlast vegna stefnuleysi myndarinnar Stóra planið þar áður var ég óviss um hvort ég myndi nokkurn tímann leggja í það að horfa á aðra mynd eftir Ólaf (De Fleur) Jóhannesson. Eins og marin eiginkona sem stöðugt sækist í meira heimilisofbeldi ákvað ég að gefa Borgríki tækifæri. Og fyrir að hafa setið í gegnum allar myndir leikstjórans án þess að geta mælt með einni einustu ákvað hann að verðlauna þolinmæði mína með mynd sem er ekki bara í allt öðruvísi geira, heldur töluvert skipulagðari, beittari og betur strúktúruð. Hún er vissulega soddan óreiða líka, alveg eins og hinar, en þó óreiða sem kemur sínu til skila.

Reykjavík-Rotterdam (bráðum Contraband) var fyrsti íslenski spennuþrillerinn sem hægt var að taka alvarlega. Borgríki gengur upp útaf svipuðum ástæðum; Maður kaupir hana og sagan heldur manni áhugasömum alla leið, sem er miklu meira en hægt er að segja um megnið af íslenskum kvikmyndum og hvað þá íslenskum þrillerum (hí á þig, Köld slóð!) eða spennuþáttum. Myndin er hrá og ansi grípandi á köflum. Aldrei dauð sena eða langdreginn kafli. Atriðin eru nú reyndar flestöll í styttri kantinum, sem hjálpar flæðinu rosalega. Sagan hoppar skemmtilega á milli ýmissa karaktera, sem allir eru partur af athyglisverðu tengslaneti og þrátt fyrir alvarlegan skort á persónusköpun er spennandi að fylgjast með röðum atburða.

Keyrslan á myndinni, lúmskt öflugt hefndarplott og skotheldur leikur úr öllum áttum er það sem gerir ræmuna að þeirri langbestu sem Óli hefur gert, semsagt burtséð frá þeirri staðreynd að hún er bara ekki átakanlega leiðinleg frá A-Ö. Óli vinnur einmitt afskaplega vel með það sorglega litla fjármagn sem hann hafði og felur það þokkalega (sérstakt samt hvernig myndgæðin á þyrluskotunum voru áberandi slakari heldur en alls staðar annars staðar). Klipping og myndataka er annars nokkuð traust þótt stíllinn sé langt frá því að vera ferskur.

Þegar um svona fína marga leikara eru að ræða í bíómynd getur maður annaðhvort sigtað út þá sem eru góðir og slæmir eða bara sagt að allir séu traustir þegar tilfellið er þannig. Í rauninni er það þannig hérna þó mig langi til að gefa Sigga Sigurjóns afskaplega gott klapp á bakið fyrir að hrista lífið úr Spaugstofuímynd sinni. Ég verð þó að klóra mér í hausnum yfir því hvað breski fagmaðurinn Jonathan Pryce var að gera þarna. Hann þjónar litlum tilgangi og kemur út eins og hann sé bara til staðar til að áhorfendur sjái að leikstjórinn hafi fengið virtan erlendan leikara í myndina sína. Ekki ósvipað því þegar Michael Imperioli sást í Stóra planinu af engri spes ástæðu en bara til að auglýsa sig, og það sést langar leiðir að leikarinn hafi ekki eytt miklum tíma á settinu.

Borgríki er ekki að gera margt sem við höfum ekki séð áður og betur gert, en hún stendur sig engu að síður vel í því sem hún gerir rétt. Smá meira kjöt á beinin hefði getað gert myndina að nánast frábærum og áhrifaríkum krimmaþriller. Persónurnar eru aldrei neitt meira en tvívíðar í besta falli og dregur það talsvert úr áhrifunum þegar kemur að t.d. ofbeldinu. Hjá sumum sleppur það en aðrar eru alveg lausar við allan fókus. Nokkrar fá ekki einu sinni hnútanna sína hnýtta á fullnægjandi hátt. Ég ætla nú samt að vera gjafmildur að þessu sinni og segja að Óli hafi komið mér þægilega á óvart þrátt fyrir ókosti sem auðvelt er að telja upp. Vonandi getur ameríska endurgerðin lagfært þessa galla.

thessi

Besta senan:
Þegar Gísli Örn kemur með sitt pimpaða lið og „get down to business.“ Ekki vildi ég vera Björn Hlynur í þeirri senu.

Sammála/ósammála?