Footloose (2011)

Hvernig er hægt að endurgera Footloose án þess að ætlast til þess að maður hlæji ekki pínulítið að senunni þar sem aðalpersónan brýst út í öfgafullan tjáningardans til að fá tilfinningalega útrás? Og allir sem sáu vanmetnu perluna Hot Rod með Andy Samberg eiga ósjálfrátt eftir að hugsa til senunnar sem gerir stórkostlega grín að þessu. Senan í gömlu myndinni þar sem Kevin Bacon (í óþægilega þröngum buxum) hoppar, skoppar og sveiflar sér út í allar áttir (bókstaflega!) er að mínu mati stórkostleg vegna þess að hún er óviljandi hlægileg og fyrir vikið ekkert annað en klassísk. Þetta óviðjafnanlega atriði má þó eiga það að vera með grípandi tónlist undir og aðdáunarverðar líkamshreyfingar.

Þetta sama atriði í endurgerðinni er alveg jafn fyndið og er skelfilega erfitt að dást ekki að danshreyfingunum. Vandinn er hins vegar sá að tónlistin passar bara ekki við senuna, að minnsta kosti ekki á sama hátt og Never með Moving Pictures gerði í frummyndinni. Þetta er ein mikilvægasta senan í allri myndinni og ef endurgerðin nær ekki að toppa þá upprunalegu á þeim sviðum sem skipta máli þá er furðulega lítill tilgangur með henni.

Footloose-endurgerðin er alls ekki svo slæm, reyndar býsna fín. Hún er hvorki betri né síðri en sú gamla. Myndirnar hafa svipaða kosti og galla, en vegna þess að 2011-myndin er hálfgert afrit þá get ég ekki sagt að ég styðji hana í botn. Afþreyingargildið er svosem í lagi, og ef þú ert ekki grjótharður Footloose-aðdáandi þá mun þér bara líða eins og þú hafir verið að horfa á sömu mynd aftur með nútímalegum tökustíl, öðruvísi tísku, nýjum leikurum og öðrum smávægilegum breytingum. Ég hafði ekki séð Beikonmyndina í nokkur ár og ég fékk svakalegt déjà vu-högg þegar ég hefði frekar viljað sjá sömu sögu í betri búning og með meira viðbættu efni. Þá hefði þessi endurgerð skipt einhverju máli.

Myndin vill rosalega vel. Hún reynir að sýna hlýju og er augljóslega metnaðarfull í dansdeildinni. Það sést að leikstjórinn Craig Brewer hafi sýnt efninu mikinn áhuga og ber hann mikla virðingu fyrir því. Hann vitnar bæði í gömlu myndina og uppfærir hana fyrir ungt fólk í x-kynslóðinni sem finnst alltof púkalegt að horfa á bíómyndir sem voru gerðar áður en það var fætt. Voðalega er þetta samt undarlegt val á mynd fyrir leikstjóra eins og Brewer. Þeir sem sáu Hustle & Flow og/eða Blake Snake Moan hljóta að skilja hvað ég á við.

Stöku sinnum er mikil orka til staðar, oftast í hópsenum (giskið af hverju), og stundum lekur myndin af seiðandi kynþokka en þegar dramað tekur við fer áhugi manns að síga. Leikararnir eru allir fallegir og liprir en þeir sem eru sjónskertir gætu séð að flestir voru valdir út af danshæfileikum frekar en leikhæfileikum. Mér fannst ég vera andlega fjarlægur hverri einustu persónu og naut samveru þeirra þokkalega en án þess að vera nokkurn tímann heillaður af þeim. Ég væri samt að ljúga ef ég myndi ekki segjast sakna Beikonins örlítið. Nobody puts Bacon in the corner!
(Nei, alveg rétt, það var hin myndin)

Hefði þessi Footloose-útgáfa ekki verið svona tilfinningalega köld (þó svo að hún reynir að vera það ekki) og svona undarlega lík uppruna sínum (sumir rammarnir eru meira að segja nákvæmlega eins) þá hefði hún getað heppnast stórvel og léttilega toppað Beikonmyndina. Hún þurfti ekki svo mikið til, en mikið ósköp er ég samt þakklátur að hún hafi ekki komið eins illa út og ógeðfellda Fame-endurgerðin.

fin

Besta senan:
Erfitt val á milli slagsmálasenunnar og umræddu danssenunnar („I need to go to my quiet place!!“). Sú fyrrnefnda er skemmtileg, hin er einfaldlega bara fönn :) og ekki alveg á réttan hátt.

Sammála/ósammála?