Scott Pilgrim vs. The World

Scott Pilgrim vs. the World er án nokkurs vafa einhver steiktasta, líflegasta, fyndnasta en umfram allt skemmtilegasta unglinga(nörda-)mynd sem ég hef séð í mörg, MÖRG ár. Ég naut hverrar einustu mínútu alveg í botn og var meira að segja hálf sorgmæddur þegar hún kláraðist. Já, svo frábær er hún! Edgar Wright hefur sannað sig sem einn af betri húmoristum starfandi í dag, en eins og hann hefur sýnt í öllu sem hann hefur gert þá er hann líka gríðarlega fjölhæfur þegar kemur að stíl, brjáluðum klippingum og flæði. Ég dýrka manninn fyrir að hafa gert Spaced, Shaun of the Dead og Hot Fuzz, og núna dái ég hann ennþá meir fyrir að hafa gefið mér þá snargeðveiku, megahröðu stílsúpu sem Scott Pilgrim er.

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki lesið allar bækurnar sem þessi mynd er byggð á. Ég hef hins vegar gluggað í nokkrar og hef mikið fílað húmorinn, manga-fílinginn og hvernig lógían í sögunni fylgir reglum tölvuleikja. Þegar ég sá svo loks myndina þá sá ég hvað Wright fór miklu lengra með hráefnið, og það er heldur vægt til orða tekið að segja að hann hafi lífgað upp á það. Hann er geysilega trúr upprunanum bæði í tón og sögu en samt tekst honum svo vel að skreyta myndina með glæsilegu litabrjálæði, ótrúlega súrum stíleffektum og frábærum ofleik frá stórskemmtilegu leikaraliði. Kannski munu sumir áhorfendur fá flogakast yfir þessu áhorfi og ég get vel skilið það að sumir eiga alls ekki eftir að lifa sig inn í þennan heim, en ég gerði það svo sannarlega og ég er strax byrjaður að hlakka til að horfa á myndina aftur, og svo e.t.v. klára að lesa bækurnar.

Það er samt ekki bara skemmtanagildið, ferskleikinn og flæðið sem heldur fjörinu uppi, heldur persónurnar, húmorinn og umfram allt sjarminn. Það er í raun frekar skrítið hvernig mynd sem lætur eins og hún sé á spítti allan tímann getur verið svona heillandi. Annars veit ég ekki alveg hvar ég hef Michael Cera í áliti núna. Krakkinn er búinn að vera mistækur undanfarin ár og merkilega einhæfur, en það er eitthvað við hann hér sem fær mann til að halda með honum. Ég trúi því líka að það sé til eitt ákveðið hlutverk sem hver og einn er fæddur í og í hans tilfelli þá er það hiklaust Scott Pilgrim. Karakterinn er svo æðislegur, bæði vegna þess að hann er jafn gallaður og flestöll ungmenni eru (sem þýðir að hann tekur oft asnalegar ákvarðanir og getur látið eins og algjör skíthæll við suma vini sína) en líka vegna þess að hann er elskulegur lúði sem kann að lemja mótherja sína í köku. Cera hittir á allar réttu nóturnar hér, og í raun gera það allir, sama hversu smá hlutverk þeirra eru.

Þau sem stóðu mest upp úr hjá mér voru Kieran Culkin (ég held að hann hafi ekki átt EITT atriði sem fékk mig ekki til að brosa eða hlæja!), Chris Evans, Brandon Routh, Ellen Wong og Mary Elizabeth-Winstead. Ég er samt mest hissa yfir því hvað Wright nær að meðhöndla skjátíma aukapersónanna vel, því það er sko heill hellingur af þeim. Annars er ég langmest hrifinn af þessari sögu, bæði vegna þess að hún er svo einkennileg og líka vegna þess að hún byggir upp mjög manneskjulega persónusköpun fyrir aðalkarakterinn. Wright fær sitt þrítugasta klapp á bakið fyrir að hafa þjappað þessum 6 bókum í mjög heilsteypta bíómynd án þess að hún verði að algjörri óreiðu.

Tæknibrellurnar, myndatakan, klippingin, og hasarinn er síðan ekkert annað en bara meira af því góða. Það er líka ótrúlega gaman að fylgjast með því hvernig hvert einasta atriði er pakkað bröndurum eða einhverri tilvísun, hvort sem skotið er á spilakassaleiki, bíómyndir, þætti (eitt orð: SEINFELD!) eða eitthvað sem bara við nördarnir munum skilja. Stundum líða senur svo hratt hjá að maður nær ómögulega öllu sem er á skjánum. Ég gæti þannig séð talið það vera galla, en einhvern veginn ýtir það bara meira undir það hvað mig langar mikið til að horfa á myndina aftur.

Hins vegar, þar sem þetta er gagnrýni en ekki eingöngu ástarbréf þá neyðist ég til að benda á fáeina örgalla. Það kemur svosem ekkert á óvart að Wright missi marks einhvers staðar í öllum látunum. Það eru reyndar ekki nema nokkur tilfelli þar sem ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við sumum senum af sökum þess að þær voru einfaldlega bara ALLTOF súrar, og ein þeirra tengist atviki þar sem karakter nokkur brestur í söng. Ekki beint vont atriði, en mjög… sérstakt. Það er eitthvað sem Wright hefði aðeins mátt laga til, og þó svo að nánast alveg eins sena eigi sér stað í bókinni þá þýðir það ekki að það sé sjálfsagt mál að það gangi upp hérna. Ég vil líka minnast á það að mér fannst Sex Bob-Omb lögin mátt vera aaaaaaðeins betri. Tónlistin í myndinni er almennt fjörug og grípandi, en þar sem þessi hljómsveit kemur sögunni beint við fannst mér mátt vera meiri kraftur í þeirra lögum. Opnunarkreditlistinn þjáðist svolítið fyrir þetta. Þetta hljómaði minna eins og tónlist og meira eins og óhljóð.

En Scott Pilgrim hefur þessa rafmögnuðu orku sem ég get varla lýst með orðum, og yfir heildina er hún svo frumleg og skemmtileg að ég gæti ómögulega kallað sjálfan mig heilbrigðan ef ég myndi ekki segja fólki að kíkja á hana undir eins. Þetta er eins og Sin City eða Kill Bill fyrir unglinga (myndirnar þrjár eiga það allar sameiginlegt að vera með einstaklega flippaða dauðdaga) þar sem einungis er lögð áhersla á ofvirka gamanið með smá hliðarskammti af persónusköpun.

Hún er samt alveg ein sinnar tegundar og ég held að eina sem gæti jafnað tón hennar væri Speed Racer og einhverjar japanskar tripp-myndir. Það má vel vera að hún sé aðeins of mikið fyrir suma, og vissulega hittir svona húmor og kaos ekki í mark hjá öllum. Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum ofhlaðin skammt af klisjumyndum á hverju ári. Aftur á móti, ef þú ert eins og ég og nýtur þess að horfa á mynd sem er eins og risastór nördafullnæging sem dúndrar í þig látum, bröndurum og brjálæði eins og það sé enginn morgundagurinn, þá er þetta myndin fyrir þig! Ég held jafnvel að þetta sé einhver langbesta ADHD-mynd sem ég hef séð, punktur!

Besta senan:
Vegan Police! Hvað annað?

Ein athugasemd við “Scott Pilgrim vs. The World

Sammála/ósammála?