Thor

Ég held að ég sé ekki einn um það að hafa haldið að sú Marvel mynd sem hefði getað orðið einna hallærislegust væri sú sem fjallaði um norræna þrumuguðinn, sem tilheyrir samt sama heimi og Iron Man, Hulk og félagar. Þegar um fantasíubíómyndir er að ræða er oftast betra að hafa varann á, sama hver það er sem er við stjórnvölinn. Mín stóra spurning fyrirfram var samt sú hvort Kenneth Branagh, menningarlegi leikstjórinn sem hann er, væri að tækla þessa sögu til að koma með sinn eigin snúning á hana eða bara til að hirða safaríka launaseðilinn sem Marvel veifaði. Ég gerði ráð fyrir því versta, en stundum er það bara ekki svo slæmt að hafa rangt fyrir sér.

Thor er kannski ekki hágæðamynd en hún er skemmtun á hæsta stigi, og uppfyllir þ.a.l. helstu kröfur sem ég geri til stórmynda á sumartíma. Það eina sem þú þarft í rauninni að gera til að njóta hennar er að sætta þig við það að hún mígur svolítið á norræna goðafræði – sem ég býst fastlega við að við Skandinavíubúar tökum meira nærri okkur heldur en kanarnir. Svo þegar þú ert kominn yfir það stig að flissa yfir framburðinum á orðum eins og Mjölnir og Bifröst, tekur það fullkomlega í sátt að myndin vill bara vera töff og skemmtileg, þá ættirðu að rúlla alla leið með henni án þess að þurfa að láta þér leiðast í hálfa mínútu. Myndin ætti heldur ekki að vera lengi að grípa athygli þína. Hún er fljót að komast í gang og heldur rafrænum hraða til enda án þess að tefja með tilgangslausum uppákomum, óspennandi drama, spunasenum eða teygðri Avengers-uppbyggingu (af einhverjum ástæðum bendi ég á þig, Iron Man 2). Hún er hvorki yfirdrifin né skrípaleg heldur, eins og hún leit örugglega út fyrir að vera á blaði. Mannlegi þátturinn fær sinn fókus og það gengur aldrei brösulega að taka hana alvarlega þegar hún ætlast til þess.

Branagh veit hvað hann vill og hann nær markmiðum sínum með algerum stæl. Ég er einmitt hissa yfir hversu hraða og vel flæðandi mynd við fáum frá manninum sem gaf okkur m.a. fjögurra klukkutíma löngu kvikmyndaútgáfuna af Hamlet. Tónninn er samt alveg réttur (sem og tónaskiptingin úr alvarlegu í létt) og ég er mjög hrifinn af því hvað myndin er hlaðin fjölbreytni. Það er ansi góður díll fyrir 100+ mínútna mynd. Það líður sjaldan langt á milli kætandi atriða; Hasarsenurnar í goðaheiminum, hasarinn á jörðinni, óvænti húmorinn (hef aldrei hlegið svona mikið yfir Marvel-mynd), lúmski sjarminn, músíkin, litlu persónudeilurnar, almenn þroskasaga titilkaraktersins, allt saman kemur bara ljómandi vel út. Ég steig út úr bíóinu eins og glaður smákrakki sem gat ekki beðið eftir að komast heim til að leika sér með Thor-leikföngin sín. En fullorðna hliðin af mér (sem er víst til) var meira gáttuð yfir hversu vel heppnuð sú ofurhetjumynd var sem hefði með öllum líkindum getað orðið að stórslysi.

Allt þetta góða lyftist síðan upp í meiriháttar með hjálp frá þrennu: Útlitshönnuninni, kvikmyndatökunni og aðalleikaranum, Chris Hemsworth. Senurnar í Ásgarði líta út eins og bræðingur af Tolkien og Star Wars heimi. Þær eru gullfallegar, og blöndun sviðsmynda við bluescreen kemur e.t.v. betur út en í mörgum undanförnum ævintýramyndum. Kvikmyndatökustíllinn er líka svo einkennilegur oft (og þið ættuð að sjá það fljótt hversu oft skotin halla til hliðar – kallast „Dutch angle.“) en samt svo undarlega ferskur. Þetta fær mann til að óska þess að leikstjórar ofurhetjumynda prufi oftar óhefðbundnari hluti með vélarnar sína. Þá kem ég að titilhetjunni sjálfri, sem er heldur betur í góðum höndum og satt að segja fullkomið dæmi um hvernig skal gera ofurhetju rétt. Alveg síðan ég sá seinustu Star Trek fyrst vissi ég að Hemsworth væri alvöru efni í leikara með karisma, enda skildi hann meira eftir sig þar með 5 mínútna skjátíma heldur en ýmsir aðrir gera í heilum stórmyndum. Hann er mátulega massaður (stelpur, fagnið!), oft drepfyndinn og ávallt svalur þegar hann kemst í rétta gírinn. Mér gengur illa að finna íslensku þýðinguna fyrir „screen presence,“ en þessi gaur hefur mikið af því!

Sagan sjálf er ekki angandi af frumleika, þvert á móti. Við höfum oft séð þessa þroskasögu áður, en það sem gerir Thor að grípandi sögu er að þú heldur með hetjunni þinni allan tímann, þrátt fyrir merki um ákafan hroka, og illmennið er skuggalega athyglisvert. Samband þeirra er kjarninn sem liggur fyrir neðan allan glansinn á yfirborðinu. Það virkar, þótt ég hefði ekki grenjað að sjá aukapersónurnar gera aðeins meira. Skrítið að sjá t.d. Rene Russo gerða að svona miklu hliðarskrauti. Leikararnir gera samt allir sitt besta með það sem þeim er gefið, sem er því miður ekki mikið. Tom Hiddleston stendur sig samt vafalaust best af öllu aukaliðinu í hlutverki Loka. Idris Elba – með sína guðdómlegu rödd – fær langsvalasta aukakarakterinn, og framvegis þegar einhver minnist á Heimdall mun ég örugglega hugsa strax til hans. Natalie Portman fær einnig talsvert öðruvísi prófíl heldur en að vera þessi dæmigerða gella sem hetjan neyðist til að bjarga. Annars er viðtekin venja að skella inn klisjukenndri og leiðinlegri ástarsögu í Hollywood-myndir, en slíkt er ekki blóðmjólkað hér.

Litli nördinn í mér er kannski örlítið leiður yfir hversu fljótt öllu lýkur í endann en hérna er það meira merki um það hversu mikið ég skemmti mér í stað þess að vera eitthvað sem bitnar á rennsli myndarinnar. Thor er fyrir minn smekk besta Marvel-myndin sem ég hef séð í þónokkur ár núna en jafnframt sú óvæntasta og með öllum líkindum sú óvenjulegasta. Hún ber undarleg merki um góða sögu með smá dýpt, er í þokkabót óendanlega svöl á köflum og missir aldrei flugið hvað afþreyingargildi varðar. Ef ævintýramyndir með smá ofurhetjukryddi eru eitthvað sem bragðast vel að þínu mati þá áttu eftir að éta þig saddan á þessari. Lokasenan – eftir kreditlistann – trekkir mann líka ágætlega upp fyrir stærstu ofurhetjumynd allra tíma, sem kemur út á næsta ári. Í bili mun Thor alveg duga.

atta

Besta senan:
„I need a horse!“

Eitt samt!
Ég held að aðstandendur hafi eitthvað misskilið hvaða kyni nafnið Laufey tilheyrir vanalega. Hér er það allavega notað semkarlmannsnafn (borið fram „Lá-Fí“). Vandræðalegt…

2 athugasemdir við “Thor

Sammála/ósammála?