Gauragangur

Gauragangur var bók sem ég var látinn lesa í grunnskóla og síðan þá hef ég aldrei pælt mikið í henni, hvað þá nennt að kynna mér hana aftur. Ég man samt alltaf hvað mér fannst um hana í denn; Sagan þótti mér ekkert sérstök og meginkarakterinn var skíthæll sem mér náði aldrei að líka við. Sömu orð eiga við um myndina að mínu mati, en það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart. Myndin er greinilega trú uppruna sínum og þeir sem dýrkuðu bókina eiga þá líklegast von á einhverju betra en það sem ég fékk. Nema þeir séu að búast við afar vandaðri mynd.

Ég get nefnt margar myndir þar sem aðalpersónan er hálfviti á hæsta stigi. Stundum þróast sögurnar þannig að okkur er ætlað að líka vel við hana undir lokin, stundum ekki. Ef saga kýs að sleppa því að veita slíkri persónu umhyggju þá er lykilatriði að áhorfandinn komist á einhverjum tímapunkti inn í hausinn á henni til að skilja af hverju hún er eins og hún er. Þetta er eitthvað sem ég fékk alls ekki út úr Gauragangi. Ormur Óðinsson er karakter sem augljóslega hefur ekki mikinn þroska. Hann er sérvitur, dónalegur og sjálfumglaður. Hins vegar fáum við að kynnast því (með smá voice over aðstoð) að hann hefur vott af samvisku en hann ákveður aldrei að hlusta á hana. Af hverju ekki?? Það fáum við aldrei að vita. Ormur er bara eins og hann er og mér finnst það frekar niðurdrepandi að fylgjast með honum út heila kvikmynd án þess að sjá einhverja fullnægjandi þróun hjá honum eða kynnast honum betur að minnsta kosti.

Alexander Briem stendur sig að vísu frábærlega sem Ormur. Hann neglir karakterinn vel niður og maður kaupir hann alveg. Það er ekki leikaranum að kenna að mér líkaði illa við karakterinn sjálfan heldur innihaldinu. Ormur fær þó nokkur hörkugóð móment sem sýna hversu fyndinn hann getur verið. Maður fær samt leið á honum fljótlega og það er einmitt ein ástæðan af hverju þessi mynd hélt takmarkaðri athygli minni í seinni hlutanum. Sagan er heldur ekkert heillandi, grípandi eða áhrifarík. Hún er raunsæ og kómísk en það vantar allt fjörið í hana. Ég hefði heldur ekkert hatað það að fá meiri fókus á vini Orms í myndinni. Þeir voru frekar útundan, og það er engin afsökun ef bókin þjáðist af sama vanda. Aukapersónurnar í heild sinni voru í raun allar merkilega flatar þrátt fyrir að vera fjölbreyttar.

Leikurinn er reyndar almennt góður, það er bara mismikið hvað fólkið fær að gera. Fyrir utan Alexander er það Hildur Berglind Arndal sem stendur upp úr. Hennar persóna var sú eina sem náði einhverju sambandi við mig. Hildur er sömuleiðis afar heit og sýnir það vel á ýmsum stöðum hér. Hvað leiksjórann varðar fannst mér eins og Gunnar B. Guðmunds hefði getað gert svo margt til að skella aðeins meiri sál í ræmuna, og það tengist bæði leikstjórninni og handritsvinnunni. Vandræðalegast fannst mér samt vera þegar myndin reynir að að rjúfa fjórða vegginn. Það kom kom bara svo mikið upp úr þurru. Annaðhvort hefði myndin átt að halda sig við þennan stíl og þá reglulega eða bara sleppa honum.

Gauragangur hefur þó sinn húmor og fær gjarnan prik fyrir hann. Annars fannst mér hún bara alltof köld og óeftirminnileg til þess að geta mælt með.

PS. Smá fyndið að sjá nútíma bifreiðar í endurspeglunum og víðskotum. Dregur mann dálítið úr tímabilinu sem myndin gerist á.

Besta senan:
Lúðalegi gæjinn með skrítna brosið var fyndinn í hvert sinn sem hann birtist.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 21.12.2010)

Sammála/ósammála?