Okkar eigin Osló

Okkar eigin Osló vill vera fyndin, dramatísk og heillandi „fílgúdd“ mynd, en hún er það bara alls ekki. Ef svona grautþunn gamanmynd á að virka þá þarf hún að halda manni reglulega brosandi, svo ekki sé minnst á það að bjóða upp á persónur sem eru jafn skemmtilegar og þær eru fjölbreyttar og furðulegar. Hún reynir bara alltof mikið á sig til að vera fyndin á köflum og stundum líður svo langt á milli brandaratilrauna að manni líður eins og hún sé bara ekki að reyna neitt. Mér fannst ekki einn einasti karakter hér vera athyglisverður eða viðkunnanlegur. Að horfa á þessa mynd er álíka vandræðalegt og að eyða heilli bústaðarferð með fólki sem er svo félagslega mismunandi að það á bara ekki heima undir sama þaki, og þar af leiðandi er samveran bara afskaplega þvinguð og óþægileg.

Myndin meinar vel samt og ég sé alveg hvað hún er að reyna að gera. Hún gerir það bara ekki vel. Þorsteinn Guðmundsson fannst mér líka teygja aumingjarulluna alltof mikið. Það tekur hér um bil á taugarnar að fylgjast með aðalpersónu sem lætur svona mikið vaða yfir sig (fyrir utan það að vera hvorki athyglisverður né elskulegur lúði) og allan tímann langaði mig til að hrópa í áttina til hans:  „mannaðu þig upp, maður!“ Í alvöru talað, hversu mikil umburðarlynd hæna getur einn maður verið?? Þossi selur þetta svosem prýðilega en handrit hans er langstærsti galli myndarinnar ásamt áhugalausri leikstjórn Reynis Lyngdal. Það vantaði meiri þróun hjá bæði aðal- og aukapersónum. Þær eru algjörar spýtur og ekki ein þeirra er þess virði að halda með eða þykja vænt um. Það er ætlast til þess að okkur líki vel við þær þrátt fyrir áberandi galla en það gengur bara alls ekki upp. Þær eru langflestar bara leiðinlegar manneskjur sem skilja nákvæmlega ekkert eftir sig sem persónur.

Samband Þorsteins og Brynhildar Guðjónsdóttur er líka stirt og klaufalega skrifað burtséð frá því að mér tókst aldrei að halda upp á þau sem par. Hann er þurr og hreðjalaus, hún tilfinningasprengja með lífið í óreiðu. Það tók ekki nema rétt svo 10 mínútur fyrir mig að sjá það að þessar persónur virtust ekki smella það mikið saman, enda leit bara út fyrir að tímabundin gredda í Noregi hafi verið það eina sem tengdi þau saman af einhverju viti. Ég fann aldrei fyrir kemistríunni. Gjörðirnar hjá Þossa í lokin eru einnig alveg óskiljanlegar. Þær eiga að sýna merki um karakterþroska en komu bara hallærislega út í latri tilraun til þess að búa til einhvers konar „climax“ endi. Aftur, þá sé ég hvað myndin var að reyna að gera, en hún bara gerir það ekki vel.

Einu leiktilþrifin sem sýndu einhvern lit voru þau frá Brynhildi og Hilmi Snæ. Þau náðu líka eitthvað saman á skjánum í þokkabót og voru ekki eins einhliða og flestir aðrir. Það fer samt ekki á milli mála að Brynhildur eigi vafalaust hallærislegustu dramasenuna í allri myndinni sem ætti ekki að fara framhjá neinum sem sér myndina. Laddi og Lilja Guðrún eru venjulega góð í flestöllu sem þau sjást í (Lilja var t.d. síðast þrusugóð í Óróa) en litla sub-plottið þeirra í þessari mynd var ekkert annað en uppfyllingarefni sem þjónaði heildarsögunni ekki neitt. Það skreið áfram hægt og rólega og leystist síðan bara upp. Öll myndin er dálítið þannig í hnotskurn. Þér líður eins og hún sé allan tímann að stefna eitthvert en á endanum gerir hún það ekki og breytist bara í ljóta klisju, og þá af amerísku gerðinni. Ég fann heldur ekki fyrir neinum húmor sem var ekki  eins og eitthvað sem maður sér úr þreyttum gamanþætti. Ég glotti stöku sinnum en hló aldrei upphátt nema rétt í lokin þökk sé Steinda Jr. Ég hef blendnar tilfinningar til mannsins, og tel hann ekki vera jafn fjölbreyttan og margir aðrir, en hér hefði ég glaðlega þegið það að fá hann í stærra hlutverk, m.a.s. lykilhlutverk.

Þessi mynd á einungis erindi til eldri áhorfenda (segjum svona 40+) sem eiga auðvelt með að hlæja yfir smotteríi sem ætlast til þess að þú hlæir að því. Ef þú ert t.d. gallharður aðdáandi Spaugstofunnar, Kexvexmiðjunnar eða gamanmyndarinnar Jóhannes þá muntu veltast um allt gólf yfir þessari mynd, og örugglega límast við „dramað“ í leiðinni vegna þess að þú veist ekkert betur. Hvað einkunnargjöf mína varðar ætla ég að vera pínu gjafmildur (en sleppa forgjöf að sjálfsögðu, þar sem ég geri augljóslega sömu kröfur til íslenskra mynda og erlendra). Myndin fær prik fyrir að reyna að vera með hjartað á réttum stað og leikararnir eru flestir sannfærandi. Hún fékk mig líka til þess að vilja skella mér í huggulegan sumarbústað á næstunni. Það er sterkur plús.

Besta senan:
Lokalínan hans Steinda. Tímasetningin hitti alveg í mark.

Sammála/ósammála?