Astrópía

Við íslendingar höfum alltaf annaðhvort vanmetið það hversu flippaðan húmor við höfum eða bara notað hann kolvitlaust, og það fer oftar en ekki framhjá íslenskri kvikmyndagerð sérstaklega. Að megnu til framleiðum við lítið annað en sorgmæddar bókaaðlaganir eða vælandi karakterstúdíur um fjölskyldukrísur. Einhver umtalaðasta íslenska bíómynd fyrr eða síðar hefur alltaf verið Sódóma Reykjavík, ekkert endilega útaf því að hún er ein af þeim fáu góðu gamanmyndum sem við höfum gert, heldur líka vegna þess að húmorinn er alíslenskur og gengur upp áreynslulaust. Sú mynd var yndislega kjánaleg og lúmskt yfirdrifin, og slíkur tónn hefur gengið bara ósköp vel upp í okkar gamanmyndum, þótt þær séu nú ekkert margar. Lítið til dæmis bara á Stellu í orlofi og Líf-myndirnar. Því miður fann ég ekkert betra dæmi því við höfum ekkert gert neinar betri gamanmyndir.

Astrópía
er nokkuð gott framlag til íslenskra gamanmynda að því leyti að hún prufar ýmislegt nýtt og er ekki almennt misheppnuð eða metnaðarlaus. Myndin er skemmtilega létt – í rauninni barnavæn – og tekur sig aldrei alvarlega. Menningarhúmorinn er á sínum stað, en ef eitthvað þá eru það sérkennilegu persónur myndarinnar sem að halda henni uppi. Afþreyingargildið missir aldrei flugið og væri ekki fyrir alveg hátt í hræðilegan lokahluta þá yrði þetta sennilega meiriháttar fjölskyldu- og nördamynd sem við landsmenn mættum vera stoltir af. Aðeins meiri pússun á handritið hefði lagfært slatta, og með öllum líkindum smámunasamari leikstjóri.

Söguþráðurinn er tiltölulega ferskur, þrátt fyrir ýmsar klisjur hér og þar. Það sem seldi söguna fyrir mér var sambandið sem þróaðist á milli Ragnhildar Steinunnar og Snorra Engilberts. Það var kannski pínu „mússí-mússí“ (svo ég kvóti smá í Fóstbræður) en einmitt í því öðlaðist myndin dálitla sál sem gerði hana talsvert viðkunnanlega, og þau tvö stóðu sig eins og hetjur. Halldór Magnússon átti líka mjög ljúfan og huggulegan karakter (og langfyndnustu senuna í allri myndinni) og Steinn Ármann stal einnig sínum örfáu senum og var eflaust fyndnasti maðurinn á skjánum. Sveppi var alls ekki langt á eftir, sem er einkennilegt fyrir mig að segja þar sem ég hef sjaldan fílað manninn, en hér kom hann með yndislega lúðalegan karakter sem virtist koma vel út. Besta atriðið með honum er þegar hann mælir með hryllingsmyndum fyrir lítinn strák („Svo er hérna Cujo, finnst þér ekki gaman að hundum?“), með þeim rökum að maður pælir fullmikið í myndatöku, brellum og hljóði þegar maður eldist, og þ.a.l. nýtur maður þeirra ekki eins mikið. Sjúklega fyndið, og aulalega góður punktur. Pétur Jóhann var aftur á móti fullýktur og mjólkaði sitt nördahlutverk aðeins of mikið. Hvað á samt það að þýða að gefa honum geislasverð í „fantasíuaheiminum“ ef hann á svo ekkert að nota það??

Stíll myndarinnar er þó að mörgu leyti stærsta klisjan, t.d. hvernig skipting á milli atriða notast við myndasögulúkkið. Þetta kemur alls ekkert illa út, en maður fær alltaf þá tilfinningu að maður hafi oft séð þetta gert, meira að segja í Svínasúpunni, sem skartaði einnig Sveppa og Pétur. Búningar og brellur koma ágætlega út miðað við þann standard sem myndin setur sér (semsagt, allt í gríni – eða þannig túlkaði ég það a.m.k.). Leikstjórnin er ágæt og með réttan fókus í venjulegu, raunsærri senunum en voða óvönduð í fantasíunni. Fyrst tekur maður þessu sem gríni hvað atriðin eru yfirdrifin og kjánaleg en svo þegar líður að lokasprettinum, þar sem einhver spenna reynir að myndast, koma slagsmálasenur sem eru hægar, orkulausar og ekkert vandaðri heldur en það sem maður sér í alvöru LARPi. Svo var ákvörðunin hjá Gunnari B. Guðmundssyni, leikstjóra myndarinnar, að skipta myndarammanum úr 1:85:1 yfir í 2:35:1 letterbox-ramma algjörlega tilgangslaus og sagði ekkert annað en: „Hey, þetta er hægt. Finnst ykkur þetta ekki sniðugt?“ Víði ramminn er bara notaður í fantasíunni, og ef hún hefði í heildina tekið upp meira en svona korter-20 mínútur allt í allt hefði þetta verið sniðugra, en þetta var bara hallærisleg hlutfallsbreyting. Þetta hefur virkað fínt í bíósal en er alveg ónýtt þegar myndin er skoðuð í venjulegum sjónvarpstækjum.

Styrkleika myndarinnar er að finna í hressum, pósitívum tón og skemmtilegri framvindu. Svo er myndin við allra hæfi og ættu jafnvel íslenskir nördar að fá tvöfalda ánægju úr húmornum sum staðar (Leroy Jenkins, einhver?). Miðað við efnið á borðinu hefði Astrópía getað orðið að óborganlegri skemmtun, og satt að segja myndi ég hiklaust vilja sjá ameríska endurgerð af þessari sögu sem væri vandaðri, fyndnari og aðeins beittari með auknu tilliti til nördahúmors í stað þess að reyna að höfða til ungra barna. Ég hika ekki við að segja að þetta sé eitt það ferskasta sem hefur komið frá okkur íslendingum síðan að Sódóma kom út. En svona í alvörunni, segir það eitthvað mikið?

fin

Besta senan:
Öskjuhlíðin, ekki spurning!

Sammála/ósammála?