Bjarnfreðarson

Vaktarseríurnar hafa aldrei verið í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér, sem er stórfurðulegt þar sem þessir þættir eru með þeim bestu sem hafa verið framleiddir á Íslandi. Það segir væntanlega þá meira um íslenskt sjónvarp heldur en þessa þætti.

Seríurnar eru reyndar mjög fínar; vel unnar og á köflum bráðfyndnar (Fangavaktin sérstaklega), létt dramatiskar en ég náði aldrei að deila sömu umhyggju gagnvart Georgi, Ólafi og Daníel og meirihluti þjóðarinnar gerði. Þrátt fyrir að karakterarnir hafi verið skrautlegir, raunsæjir og vel leiknir fór það alltaf mikið í taugarnar á mér hvað þroski þeirra og persónuþróun var takmörkuð út allar þrjár seríurnar. Auk þess voru þeir allir svo heiftarlega sorglegir að maður átti erfitt með að finna eitthvað sérstaklega til með þeim, hvað þá halda upp á þá. Georg var bara óviðkunnanlegur fasistafýlupúki, Ólafur seinþroska aumingi sem aldrei lærði neitt og Daníel var bara óákveðinn, bældur og þurr. Þeir voru allir svona í byrjun Næturvaktarinnar og þeir voru ekkert skárri í lok síðustu Vaktar.

Síðan ákvað Ragnar Bragason og co. að taka einhverja bestu ákvörðun sem þeir gátu tekið varðandi þetta efni, og það er að gera bíómynd sem bæði betrumbætir persónusköpunina og flytur þessa sögu – ef við leyfum okkur að kalla þetta það – upp á allt annað stig.

Bjarnfreðarson er geggjuð mynd! Og miðað við hvernig hún meðhöndlar efnið mætti halda að sjónvarpsseríurnar þrjár hafi bara verið viss konar upphitun. Myndin virkar gallalaust sem lokahnykkur þáttanna og einnig sem sjálfstætt gamandrama sem hefur ýmislegt áhugavert að segja um uppeldi, vinasambönd, einkenni og (ahem…) sjálfstæði. Þetta er akkúrat íslenska feel-good myndin sem ég beið lengi eftir og tekst henni bæði að vera fyndin og nett hjartnæm á þeim stöðum sem skipta máli. Aðstandendur myndarinnar gefa henni þá sál sem hefur vantað í þættina og fær maður loksins að sjá einhverja breytingu hjá þessum skemmdu – en þó mannlegu og raunsæju – persónum. Og fyrst að ég, skeptíski gaurinn, var svona gríðarlega sáttur með niðurstöðuna, þá get ég ekki ímyndað mér annað en að hörðustu aðdáendur verði í skýjunum eftir myndina. Ekki nema þeir telji þróunarleysið vera sterkan kost, sem ég einhvern veginn efa, enda tel ég takmarkað hversu lengi er hægt að elska að hata Georg.

Jón Gnarr hefur mér alltaf þótt vera æðislegur enda langbesti íslenski húmoristinn (Laddi hvað?). Hann var alltaf fyndnasti Fóstbróðirinn og meira að segja í auðgleymdum bíómyndum (Íslenski Draumurinn, Maður eins og ég) stóð hann upp úr og gerði gott úr því sem hann hafði. Þegar ég fyrst sá hann leika Georg Bjarnfreðarson fannst mér persónan vera alltof einhliða týpa. Ég var heldur ekki bjartsýnn þegar ég sá að aðstandendur ákváðu að halda áfram að gera nýjar seríur. Þessi maður var bara viðurstyggð til áhorfs. Stundum var hann fyndinn en maður gat ómögulega þolað hann í meira en hálftíma. Í bíómyndinni gerðist hið ómögulega; mér fór skyndilega að þykja vænt um hann. Vægast sagt undarleg tilfinning en hvernig handritið fókusar á persónusköpun hans og sífellt dýpkar hana fór mér að finnast erfitt að fá ekki samúð með honum. Stór hluti af frásögninni fer líka í að sýna hvernig uppvaxtarár hans gengu fyrir sig, og þau atriði heppnuðust mun betur en ég bjóst við. Þau tóku sig heldur ekki of alvarlega, sem er alltaf plús þegar um íslenskt drama er að ræða.

Gnarr fer nánast með leiksigur í þessari mynd (og brillerar allt í allt í þremur ólíkum hlutverkum, eða allavega tveimur plús einu cameo-i). Af hverju? Jú, útaf því að hann tekur þessa einhliða persónu og breytir henni í lagskiptan einstakling sem maður finnur til með. Sama má eiginlega segja um Jörund Ragnarsson og Pétur Jóhann. Ég var sömuleiðis ánægður að sjá þá fá sína uppljómun, enda kominn tími til. Loksins fáum við að kynnast því að þessir drengir eiga allir eitthvað sameiginlegt þótt ólíkir séu á yfirborðinu, og með aðstoð þessarar myndar tel ég klárt mál að þeir séu eitt eftirminnilegasta þríeyki sem við höfum séð á klakanum. Ég verð líka að gefa Ágústu Evu hrós fyrir að taka að sér hlutverk móður Georgs (þ.e.a.s. yngri útgáfuna). Þetta er erfið rulla sem hefði getað orðið pirrandi og einhæf, eins og Georg var alltaf upphaflega, en hún lætur hana virka. Er ég samt einn um það að hún og Sara Margrét séu nánast alveg eins í útliti? Þær gætu klárlega verið systur, þessar fallegu dömur.

Sem betur fer er ekki nema einn galli sem Bjarnfreðarson erfir frá þáttunum, og þótt hann hafi viss áhrif á meðmælin þá hefði alveg getað farið verr. Tilraunir til húmors finnst mér stöku sinnum, alls ekki oft, vera býsna ódýrar, eins og hann reyni stundum að ganga einu skrefi lengra en hann ætti að gera. Oftast er betra að leyfa aðstæðum að spilast út á eðlilegum hraða án þess að pína ofan í þær sketsa frekar og yfirstíga dramað. Með öðrum orðum, þá eru ýmis atriði bara sett inn í myndina til að vera fyndin, frekar en nauðsynleg (sub-plottið með hommamiskilninginn var nákvæmlega eitt af því sem var bara sett inn til þess að vera fyndið og þjónaði heildarsögunni merkilega lítið). Þetta gerist þó ekki oft, og satt að segja hló ég mig vitlausan yfir mörgum atriðum. Svo má deila um það hvort myndin sé fullsykruð í lokasprettinum, en ég leit á það sem hluta af gríninu.

Bjarnfreðarson er ein best heppnaða íslenska kvikmynd (bæði í flokki gríns og drama) sem ég hef séð í mörg ár og ef ég gæti þá myndi ég klappa Ragga Braga á bakið fyrir að hafa lokað þessari Vaktarbók sinni með slíkum stæl. Út frá tæknivinnslu er myndin einnig faglega unnin og lítur almennt rosalega vel út. Hvað afþreyingargildi varðar þá er aldrei langt í grínið og alvarlegu augnablikin verða aldrei of meló eða áreynslumikil. Svo vefst þetta allt saman utan um andskoti fínan boðskap. Ég hefði alls ekki viljað hafa þessa mynd né lokaniðurstöðu sögunnar eitthvað öðruvísi, nema auðvitað á þann veg sem hefði getað gert hana að stórkostlegri mynd. En ég ætla ekki að vera vanþakklátur, og miðað við umhyggju mína gagnvart þáttunum er ég enn hissa hvað ég ber hlýjar tilfinningar til myndarinnar.

Há sjöa!

Besta senan:
Það er reyndar alveg slatti af góðum atriðum sem erfitt er að velja úr. Hjartnæmasta atriði er þegar Georg finnur gamalt dót (og bréf) úr æsku sem hann mátti aldrei sjá. Fyndnasta atriðið tengist ómetanlegum „ertu þroskaheftur?“ svip sem Jóhannes Haukur gefur Arnari Jónssyni.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 21.12.2009)

Sammála/ósammála?