Jóhannes

Það er alltaf vel þegið að fá að berja nýja alíslenska gamanmynd augum, þó þær séu nú oft mistækar. Engu að síður er fínt að fá tilbreytingu frá öllu því alvarlega sem framleitt er í tonnatali. Það er takmarkað hversu oft maður nennir að horfa á þunglynt fjölskyldudrama sem gerist í Breiðholtinu þar sem annar hver maður talar í háum tónum og rétt undir lok finnst alltaf einhver grátandi. Kannski smá ýkja, en samt ekki.

Jóhannes, fyrsta myndin þar sem Laddi fær aðal(og titil-)hlutverk, er ekki bara gamanmynd, heldur reynir hún að vera nokkurs konar feel good-mynd í bland við grínfarsa. Myndin setur sér sem sagt einfalt markmið: Hún vill koma manni í gott skap, en hefur í rauninni engan söguþráð eða stefnu. Við fylgjumst aðeins með titilpersónunni ganga í gegnum ýkta – og að mínu mati frekar fyrirsjáanlega – atburðarás og hvergi er gerð tilraun til persónusköpunar eða að koma einhverjum boðskap á framfæri. Myndin er ekki flóknari heldur en þetta; Hlutir gerast, karakterar hlaupa um, misskilningur brýst út og Jóhannes sjálfur, sem okkur er skítsama um, upplifir óheppilegan dag. Engin saga, bara hamagangur. Ég myndi fyrirgefa þessa ókosti ef handritið hefði verið hnyttið, viðburðarríkt, skemmtilegt eða fyndið, sem það er bara alls ekki því miður. Ég held að ég hafi hlegið oftar að Mýrinni.

Það er eins og leikstjórinn sé að reyna að fá allan salinn til að hlæja og treður handahófskenndum bröndurum inn í allar aðstæður í stað þess að búa til atriði sem verða fyndin að sjálfu sér. Það er heldur ekki mikið skemmtanagildi að finna þar sem efnisinnihaldið er svo gríðarlega þunnt að það er næstum því hægt að segja að myndin sé of löng þrátt fyrir að vera rétt undir 90 mínútur að lengd. Mörg atriðin virka líka á mann eins og uppfyllingar, eins og t.d. senurnar með gömlu konunum eða þetta tilgangslausa atriði þar sem Jóhannes rífur kjaft við Flemming Geir. Mér leið líka allan tímann eins og hún væri að byggja upp einhverja þétta samantekt á allri atburðarásinni sem myndi útskýra tilganginn á þeim atriðum sem héngu bara í lausu lofti, en svo á síðustu mínútum er söguþráðurinn bara vafinn upp á örstuttum tíma og ætlast er til þess að allir gangi sáttir heim. Þessu hefði naumlega verið hægt að fyrirgefa ef myndin væri stanslaust fyndin, en ekki svona sjálfumglöð og pirrandi.

Ég hef sjaldan getað sett út á hann Ladda, og ég ætla mér ekki beint að gera það hér. Ég á góðar æskuminningar um hann, þá aðallega í gegnum raddsetningar, sem ná frá Strumpunum til spræka andans í Aladdín sem hann talsetti af miklu prýði (það var líka eina Disney-teiknimyndin sem ég vildi einnig horfa á með íslensku tali). Sem titilkarakterinn hérna er hann svosem fínn en gerir ekkert nýtt heldur. Það hefði verið gaman að sjá eitthvað nýtt frá honum þar sem hann fær loks hlutverk sem ber uppi heila mynd. Hann á nokkrar góðar línur en manni finnst oft eins og maður sé bara að horfa á týpískan Ladda, þennan sem maður hefur séð milljón sinnum áður. Ég vil samt ekki vera of harður á manninn þar sem hlutverkið er frekar illa skrifað, svo það er meira handritinu að kenna. Skamm, handrit!

Annars eru Stefánarnir Karl og Hallur báðir ágætir og eiga líklega bestu brandaranna, þrátt fyrir skuggalega einhliða karaktera – eins og allir eru – og takmarkaðan skjátíma. Ég er samt enn að átta mig á því hvað Unnur Birna var að gera þarna, og ég skal orða það vægt þegar ég segi að stelpan eigi langt í land ef hún ætlar að eiga einhverja framtíð sem leikkona. Orð fá því ekki lýst hversu falleg hún er, en það eina sem vantaði upp á vondu frammistöðu hennar var klámmyndatónlist. Og ég sem hélt að Ragnhildur Steinunn myndi eiga verstu frammistöðu íslendings sem ég myndi sjá árið 2009 (fyrir Hvalaskoðunarslátrun Reykjavíkur), en greinilega ekki. Unnur hefur það a.m.k. fram yfir Ragnhildi að hún sést léttklædd á skjánum, og hún fær auðvitað plús fyrir það.

Jóhannes er yfir heildina saklaus en merkilega ómerkileg mynd sem hvorki skilur neitt eftir sig né þjónar helsta tilgangi sínum. Þetta er lítið meira en bara samansafn af ófyndnum sketsum og ég neyðist einnig til að skjóta því snöggt inn að hljóðvinnsla og klipping hafi verið áberandi óvönduð. Ef þessi mynd er þinn tebolli þá segir það allt um hvernig húmor þú hefur. Spaugstofuaðdáendur verða t.d. yfir sig hrifnir sem og gamlingjar sem þola ekki skarpan, vel skrifaðan húmor fyrir hugsandi fólk. Sjálfur hef ég alveg smekk fyrir slapstick-gríni, en ekki þegar brandararnir eru fluttir á jafn sjálfumglaðan hátt og í þessu þunnildi. Mér finnst eins og Laddi eigi bæði betri mynd og vandaðra aðalhlutverk skilið. Kannski eitthvað sem myndi kreista úr honum smá drama líka í leiðinni.

Það jákvæðasta sem ég get sagt um myndina er að sumir leikararnir gerðu það sem þeir gátu, hún er fljót að líða en umfram allt er ég feginn að hún sé ekki verri en Stella í framboði.

Einkunn: Fjórar Unnur Birnur af tíu.

Besta senan:
Eitthvað með Stefán Karl og ljótan andarunga.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 16.10.2009)

Sammála/ósammála?