The Human Centipede (First Sequence)

Sem einstaklingur sem dýrkar kvikmyndir út af lífinu get ég horft á nánast hvað sem er. Hvort sem það er gamanmynd, drama, hasarmynd, hrollvekja, söngleikur, David Lynch-gjörningur eða íslenskt miðjumoð – og allt þar á milli – þá skal ég gefa því séns. Ef ég þyrfti að velja eitthvað eitt sem ég hef engan áhuga að sjá þá eru það myndir sem ganga ekki út á neitt annað en það að sýna fólk kveljast út alla lengdina. Slíkar myndir hafa oftast engan söguþráð, enga þróun eða tilgang. Þær sýna bara persónur í ógeðfelldum aðstæðum og áhorfandinn kastar upp á það (í hausnum á sér) hvort þær lifi af eða deyi. The Human Centipede (First Sequence – augljóslega ekki það síðasta sem við sjáum af þessu!) er óneitanlega forvitnileg þegar maður heyrir fyrst um hana. Hugmyndin er meistaralega sjúk og jafnvel þótt manni langi ómögulega til að sjá hvað gerist þegar hún er framkvæmd, þá getur maður ekki annað en hugsað: Af hverju ekki prófa?

Ekki samt halda að hér sé einhver tröllvaxin ógeðsmynd á ferð. Hún er í rauninni ekkert það ógeðfelld burtséð frá grunnhugmyndinni. Hún er hins vegar truflandi og óþægileg til áhorfs. Ég er samt ekki að meina óþægileg á góðan hátt eins og Requiem for a Dream eða Lilya 4-Ever, heldur bara andstyggileg og troðin af sadisma. Fyrst og fremst er ómögulegt að halda með persónunum. Maður finnur til með þeim en við kynnumst þeim aldrei og eftir að aðgerðinni lýkur, sem titillinn vitnar í, þá bíður maður í rauninni bara eftir að þau drepist sem fyrst. Hver myndi í alvörunni vilja lifa af eftir svona helvíti?? Maður yrði svo andlega skemmdur að hálfa væri hellingur.

Dieter Laser má samt eiga það, hann stóð sig þrusuvel. Hann gerði nákvæmlega allt sem hann átti að gera og virtist hafa bara gaman af því. Frammistaðan hjá öllum öðrum er fín en óttalega einhæf (skiljanlega). Mér var samt farið að leiðast svo mikið að ég beið eftir að myndin kláraðist þegar leið á seinni helming. Lopinn er svo sannarlega teygður og það er takmarkað hversu spennandi það er að horfa á þrjár manneskjur þjást líkamlega. Pyntingar í bíómyndum ættu helst að vera notaðar sparlega til að setja meiri kraft í söguna (lítið t.d. bara á Payback, American History X eða Oldboy – þær koma fyrst upp í hugann hjá mér). Það er enginn kraftur í þessari mynd. Hún skríður bara áfram (pun intended) og drollar eins mikið og hún getur til að fylla upp í 90 mínúturnar. Ég fann ekki fyrir neinni spennu því mér var sama um alla og fannst söguþráðurinn aldrei þróast nóg til að gera efnisinnihaldið áhugavert.

thrir

Í stuttu máli: Myndin sýgur rassa og matar stöðugt ofan í mann skít. Áhorfandinn virðist undarlega vel geta tengt sig við pyntingu persónanna.

Besta senan:
Æ, þegiðu!

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 15.06.2010)

Ein athugasemd við “The Human Centipede (First Sequence)

Sammála/ósammála?