Frozen

Frozen er augljóslega ekki hefðbundinn þriller, heldur tilheyrir myndin hálfgerðum undirgeira („sub-genre“) sem frekar myndi kallast survival-þriller, og það eru oftast raunsæjar spennumyndir sem innihalda mjög fáar persónur, gerast allar á afmörkuðu svæði og spila með aðstæður ásamt því að spyrja spurninguna: Hvað myndir ÞÚ gera? Ég held að sú mynd sem þessi minnir mig hvað mest á er Open Water. Munurinn á myndunum er samt sá að Frozen hefur skemmtilegri persónur, miklu meiri spennu, sterkari endi og atburðarás sem er ekki nærri því jafn einhæf.

Myndin hefur afskaplega einfalt „set-up“; Þrjú ungmenni festast í skíðalyftu fyrir slysni. Fjórar jökulkaldar nætur framundan; enginn gemsi, enginn matur og ekkert til að halda hlýju. Þetta lítur út fyrir að vera uppskrift að frekar leiðinlegri setu (bæði fyrir persónurnar og áhorfandann) en myndinni tekst bara nokkuð vel að halda sér í þróun án þess að vera þreytt og langdregin.. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Adam Green er í rauninni að búa til áskorun fyrir sjálfan sig með því að stilla upp einfaldri sögu og passa upp á það að það sé alltaf eitthvað áhugavert að gerast svo athyglin glatist ekki. Eftirá var ég hissa að sjá hversu vel honum tókst það. Myndin byrjaði vel en eftir smástund fór ég að spyrja sjálfan mig hversu mikið væri hægt að gera með einungis þremur persónum sem sitja fastar í skíðalyftu. Svarið reyndist vera: Ýmislegt! En ég vil helst ekki segja frá of miklu sem gerist.

Að vísu finnst mér að það ætti að vera regla með svona myndir að fara ekki langt yfir 75-80 mínútur, nema uppfyllingin svínvirki. Frozen hefði mögulega komist upp með það að vera 5-10 mínútum styttri, en það er samt eitthvað við köldu þagnirnar og viljandi píndu samræðurnar (eins og þegar einn karakteranna reynir að drepa tíma með því að draga upp hversdagslegar umræður) sem gerir þetta raunverulegra, svo ég get þannig séð ekki kvartað undan því að þessi slefi upp í nánast heilar 90 mínútur. Annars bjóst ég alltaf við því að myndin ætti eftir að dala og detta út í svipuð leiðindi og Open Water gerði. Eftir hvert athyglisverða atvik spurði ég sjálfan mig: „ókei, hvað nú?“ En í ljós kom síðan að Frozen hélt athygli minni allan tímann, og á endanum get ég ekki öðru þakkað en traustri uppbyggingu, góðum persónusamskiptum, grimmu andrúmslofti, frábærum leik (djöfull er Shawn Ashmore orðinn góður! Kaldhæðnislega lék hann Iceman í X-Men) og áköfum en trúverðugum „spennusenum“ sem annaðhvort héldu mér pikkföstum við sætisbrúnina eða tóku svoleiðis á taugarnar að ég var farinn að iða. Green virðist njóta þess að kvelja okkur dálítið, en hann gerir það á áhrifaríkan hátt í stað þess að reiða sig einungis á sjokk-gildið.

Það er alls ekki erfitt að lifa sig inn í þessa atburðarás því við getum öll meira eða minna tengt okkur við þessar aðstæður, sérstaklega á litla Íslandi. Sumir munu eflaust eitthvað gagnrýna ákvarðanir og gjörðir persónanna en mér fannst þær aldrei óraunsæjar eða fullheimskulegar, miðað við þessar ógeðfelldu kringumstæður. Frozen er alls ekki fyrir alla, en ef þið vitið við hverju á að búast þá hvet ég ykkur til að kíkja á hana við tækifæri.

Besta senan:
Hopp atriðið fræga.

Sammála/ósammála?