The Tree of Life

Ef þú ert ekki manneskja sem horfir á mikið af kvikmyndum og sýnir því hobbýi mikla hollustu þá hefurðu ekki nokkurn skapaðan hlut við mynd frá Terrence Malick að gera, og ennþá síður með mynd eins og The Tree of Life. Hún er án nokkurs vafa mest abstrakt myndin sem hann hefur gert hingað til og stýrist hún minna af frásögn og meira af sjónrænu rúnki (ásamt meðfylgjandi klassískri tónlist) sem vefst utan um eitthvað sem líkist einungis sundurtættri sögu. En það er ekki galli, heldur ætlunin.

Malick er ekki að reyna að búa til bíómynd, og ekki einu sinni kvikmynd (já, það er munur), heldur ljóðrænan, tilfinningaríkan hrærigraut af minningum persóna og symbolisma, og er lokaafraksturinn látinn vera viljandi óljós svo þú getir fyllt í eyðurnar með eigin persónulegu túlkunum. Malick er auðvitað þekktur fyrir það að gera „verk“ sín með svakalega löngu millibili og mest allt sem hann hefur gert á það sameiginlegt að hafa orðið til í eftirvinnslunni. Handritin sem hann styðst upphaflega við eru hreinlega rifin í sundur og er öllu mótað í klippiherberginu eins og listrænt föndur. Það er til dæmis orðið þekkt dæmi hvað sumir leikarar verða vonsviknir út í hann fyrir að hafa eytt hellingstíma á setti og sjást svo í smáhlutverkum. Sean Penn fær einmitt að kenna á því hérna og gerir ekkert annað en að labba á milli staða með alvarlegan svip. Í þessu tilfelli spái ég að Malick hafi kvikmyndað allt aðra mynd, tekið síðan öll skotin, ruglað þeim öllum til og sett þau saman í skipulagðri óreiðu. Smámunasemin er svo mikil að jafnvel Kubrick sjálfur hefði misst þolinmæðina.

Ég fatta hvað þessi mynd er að reyna að segja mér og á ég erfitt með að trúa því að ég eigi eftir að sjá fallegri mynd á þessu ári, sjónrænt séð. Ég get samt ekki sagt að ég hafi orðið eitthvað geysilega ástfanginn þar sem að myndin virkar stundum bara aðeins of handahófskennd og sundurtætt til að ég líti á hana sem einhvers konar lífsbreytandi meistaraverk, eins og ég er viss um að leikstjórinn hefur reynt að gera með því að púsla þessu svona saman. Listaspírur (og sérstaklega þeir sem hata vestræna kvikmyndagerð) geta slegist um það að hafa séð ýmislegt í myndinni sem aðrir vinir sínir sáu ekki, en hægt er í raun að túlka hvað sem er úr myndefni sem gerir svona artý hluti. Sjálfur er ég viss um að ef ég hugsi nógu djúpt um seríu af skotum og hvað þau þýða, þá get ég alveg eins horft á David Attenborough-þætti í bútum og myndað mér einhverja ofsalega djúpa samantekt um lífið og tilveruna.

The Tree of Life er samt mynd sem ómögulegt er að segja að sé ekki aðdáunarverð. Hún er svo bæði svo rík og metnaðarfull, stútfull af senum sem deyfa alveg á manni neðri kjálkann og hlaðin tónlist sem gefur manni stöku sinnum gæsahúð um allan líkamann. Þetta er ein af þessum myndum sem sýnir eitthvað sem er ekki hægt að afreka með öðrum miðli heldur en kvikmyndagerð, sem er náttúrulega bara dásamlegt (bækur hvað?). Leikararnir standa sig líka fullkomlega og er vert að taka það fram að ég hef ekki í langan tíma séð jafn raunverulega og eðlilega hegðun barna í bíómynd. Túlkun leikstjórans á hversdagslífinu hittir beint með naglann á höfuðið og í jarðbundnu senunum er merkilega lítið „bíómyndalegt“ að finna, ef svo má að orði komast. Allt er sama og ósvikið, og frammistöður ungu leikaranna eru umhugsunarlaust trúverðugar. Verst samt hvað myndin er oft yfirborðskennd og andstyggilega langdregin, en slíkt gerist þegar mynd reynir að segja þér ýmislegt með lítilli sögu og ætlast samt til þess að þú finnir hana út sjálfur. Þessar 130 mínútur líða eins og fjórir tímar.

Þó svo að ég myndi hata allar myndirnar hans Malicks, þá gæti ég samt ekki sagt annað en að hann sé snillingur í því að beita myndavélinni sinni. Fyrir honum er hún miklu mikilvægara tól heldur en leikararnir, sem er svekkjandi, vegna þess að ef meiri fókus hefði verið á Sean Penn (sem leikur eldri útgáfu af aðalpersónu myndarinnar) þá hefði myndin strax getað orðið mun betri. Það verður ofsalega pirrandi hvað illa er farið með leikarann, og vegna þess að ekkert er gert við hann verður maður sífellt andlega fjær sögunni. Ég sat gjörsamlega áhrifalaus eftir lokasenurnar, aðallega vegna þess að þetta var farið að líta út eins og paródía af týpískum art-myndum. Ég áttaði mig á skilaboðunum, en takmarkaða nærvera Penns útilokaði það að einhvern kraft væri að finna í þessum kafla. Hvaða rök hefur leikstjórinn svosem fyrir því að byggja endinn í kringum manneskju sem er leikin af manni í upplýstu cameo-hlutverki?

Myndirnar hans Malicks verða þó yfirleitt betri því oftar sem þú horfir á þær, en satt að segja breyttist skoðunin mín nánast ekkert þegar ég gaf The Tree of Life annan séns. Hún er tvímælalaust mikil upplifun þótt hún sé engan veginn handa hverjum sem er. Ég samgleðst þeim sem fundu eitthvað í henni sem mér tókst ekki að finna fyrir. Ljómandi góð tilraun samt og yfir heildina get ég aldrei sagt neitt of neikvætt um mynd sem er svona einstök. Hún er vel þess virði að sjá. Svo mikið er víst.

Besta senan:
Lacrimosa!

Sammála/ósammála?