Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides

Ég man eftir að hafa horft á fyrstu Pirates-myndina og hugsað: „Vá, ef Johnny Depp væri ekki í þessu þá yrði þessi mynd alveg skrambi ómerkileg, alveg sama hversu flott hún er.“ Þegar Jack Sparrow steig fyrst á sviðið féllu næstum því allir fyrir þessum sjálfhverfa róna, enda var hann hinn fullkomni hliðarkarakter (sem var einungis settur fremst á plakötin vegna þess að Depp var þekktasti leikarinn) sem þjónaði hefðbundnu sögu aðalpersónanna mjög vel. Orlando Bloom og Keira Knightley voru ágæt en fyrsta myndin hefði aldrei verið þess virði að mæla með ef þau hefðu ein hirt alla athyglina. Svo komu framhaldsmyndirnar og söguþræðirnir stækkuðu og flæktust aðeins (til hins betra, að mínu mati) en aldrei dytti mér í hug að það yrði jafn slæm pæling að setja Depp í forgrunn og sleppa turtildúfunum. Stundum þarf bara þetta ómerkilega að fylgja með svo maður geti metið það góða betur.

Satt að segja er ég á móti því að þessi mynd hafi verið gerð. Stórmyndir gerast einfaldlega ekki tilgangslausari en þetta og eina ástæðan fyrir tilvist hennar er sú að Jerry Bruckheimer vantar meiri pening (hann sá greinilega að Prince of Persia-sería var ekki í spilunum). Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides er samt tilgangslaus af góðri ástæðu, og það er sömuleiðis góð ástæða af hverju það þýddi ekkert að draga Bloom og Knightley aftur í þetta (ég ber þ.a.l. mikla virðingu fyrir þeim fyrir að snúa ekki aftur). Sagan þeirra er búin, og hún endaði bara prýðilega í seinustu mynd. Saga Jacks Sparrow ætti í rauninni líka að vera búin því karakterinn gengur bara út á það að hugsa um sitt eigið skinn, hella sig fullann og breytast í hetju fyrir slysni. Það er bara ekki mikið sem hægt er að gera með svona einfalda – en samt sem áður klassíska – persónu.

Það hefði algjörlega verið rétta leiðin að loka Pirates-bókinni með þriðju myndinni. Ég mun aldrei skilja það skilyrðislausa hatur sem sú mynd fékk, því mér fannst hún æðisleg – án efa sú besta í röðinni. Hún var bara eitthvað svo súr, skemmtileg og epísk. Miðað við mainstream Hollywood-mynd fannst mér líka mjög kjarkað af henni að vera eins flókin og hún var, þótt ég held að flestum hafi bara fundist hún of flókin því hinar myndirnar voru svo geysilega einfaldar. En burtséð frá því þá þurftum við ekki á annarri Pirates-mynd að halda. Ekki síst þegar sú mynd er svona löt, óspennandi, óheillandi, húmorslaus (að megnu til a.m.k.) og faktískt bara ófullnægjandi á flesta vegu.

Allt í einu er mér orðið drullusama um Jack Sparrow. Depp stendur sig vel ennþá og það er ánægjulegt að hann skuli ennþá fíla sig í rullunni eftir allan þennan tíma. Karakterinn sjálfur er bara orðinn fyrirsjáanlegur og þreyttur, sem sýnir að það er hægt að fá of mikið af því góða, sem er samt pínu kaldhæðnislegt vegna þess að það er voða lítið í boði hérna sem hinar myndirnar gerðu ekki betur. Það er ófyrirgefanlegt að mynd sem er sú fjórða í röðinni á gríðarlega vinsælli Disney-seríu skuli vera þynnri og lágstemmdari heldur en hinar þrjár. Mér finnst ekki eins og aðstandendur hafi verið að reyna neitt á sig. Nánast allt fer eftir uppskrift og í kjölfarið vantar alveg skemmtanagildið og sálina. Þið getið sett út á þriðju myndina eins og ykkur sýnist, en viðurkennið samt að hún reyndi heilmikið á sig og prufaði nýja hluti.

Sumir geta vissulega glatt sig yfir því að Bloom og Knightley séu farin, en ég efa að það verður fagnað því lengi vegna þess að þær persónur sem komu í staðinn eru þrefalt leiðinlegri. Hér um bil allar aukapersónurnar í myndinni eru hundleiðinlegar, nema þær fáu sem voru líka í hinum þremur (þ.e.a.s. Barbossa og Gibbs). Penélope Cruz (sem lék á móti Depp í Blow) sýnir hlutverki sínu fínan áhuga og leynir á sér áhugaverðri persónu, en hún kemst ekki vel til skila því frammistaðan er flöt og óeftirminnileg. Ég fékk leið á henni eftir hálftíma, og nöldrinu hennar. Breski töffarinn Ian McShane náði ekki heldur að gera neitt sérstakt með skjátímann sinn. Venjulega hefur þessi maður afar kröftuga nærveru og rödd hans ein og sér ætti að tryggja eitt besta sjóræningjaillmenni sem maður hefur séð, en svo eyðir hann bara allri myndinni í að labba um, urra og gretta sig. Hann á að vera sjóræninginn sem allir aðrir sjóræningjar óttast, eða svo segir handritið, en ég sá neitt aldrei merkilegt við hann og hefði frekar þegið Davy Jones aftur í staðinn. Mesta tímaeyðslan fer hins vegar í tilgangslaust samband á milli trúboða og hafmeyju. Það plott tengdist heildarsögunni lítið og endirinn á því var aumur og fullkomlega áhrifalaus.

Talandi um hafmeyjur samt, þá voru þær eiginlega það eina sem On Stranger Tides gat boðið upp á sem hinar gerðu ekki, sem er fyndið miðað við það að titillinn er gróflega þýddur sem „Á ókunnugum slóðum.“ Í smástund heldur maður að sagan geri eitthvað spennandi með vúdúbrúður, en það rætist ekkert úr því. Miðað við hversu umfangsmiklar hinar myndirnar voru er gjörsamlega óskiljanlegt hvað þessi er róleg og jarðbundin í samanburði. Ég er ekkert á móti þeirri stefnu ef sagan er sterk, en þar sem að þetta eru ævintýramyndir sem ætlaðar eru breiðum hópum þá er það frekar slappt að spara hasarinn í fjórðu lotunni, og allt hugmyndaflugið. The Curse of the Black Pearl, Dead Man’s Chest og At World’s End voru allar mjög eðlilegar sjóræningjasögur með smá kryddi. Þær gáfu okkur gangandi beinagrindur, mannætur, sæskrímsli (stór og smá), svarthol, dverg, skekktan raunveruleika og ýmislegt annað. On Stranger Tides færir okkur… reiðar hafmeyjur. Húrra…

Söguþráðurinn almennt er svakalega bragðlaus, og ég sat aldrei á sætisbrúninni bíðandi eftir að sjá hvernig hann myndi spilast út. Ekki í eina mínútu. Hasarinn er stundum mátulega fínn og hefði virkað ef þetta væri ekki þriðja framhaldsmyndin í seríu. Setningin „been there, done that“ bergmálaði í kollinum mínum. Ég efast heldur ekki um að þeir sem sækjast eftir góðum stórmyndahasar verði fyrir miklum vonbrigðum með lokakaflann á þessari mynd. Lætin eru alveg í lágmarki og fjörið líka. Við sjáum einungis fullt af mönnum sem okkur er alveg sama um slást í 5 mínútur og svo er allt búið. Þetta er eins og að horfa á indí-mynd þegar maður ber þetta saman við t.d. Kraken-senurnar.

Augljóslega er ég að bera On Stranger Tides mikið saman við fyrri myndirnar en annað er nú varla hægt, sérstaklega ef þú ert aðdáandi seríunnar. Ég skemmti mér konunglega yfir þríleiknum og þó svo að ég hafi verið meira svartsýnn heldur en bjartsýnn gagnvart þessari fyrirfram, þá settist ég í bíósætið með þeirri von um að hafa gaman. En jafnvel ef ég myndi sleppa samanburði og meta þessa mynd sem staka einingu þá er hún samt hæg, langdregin og oft leiðinleg. Hvað leikstjóraskiptin varða þá bjóst ég aldrei við öðru en að Rob Marshall gæti búið til mynd sem liti frábærlega út, og þessi gerir það svo sannarlega. Sviðsmyndir, brellur og búningar eru fyrsta flokks og maðurinn kann hiklaust að stilla upp skotum. Ég held þó að hann hafi ekki alveg fattað hvað það var sem gerði hinar svona góðar. Hann sýnir hasarnum ekki jafnmiklum áhuga og tónlistarnúmerunum sem einkenndu Chicago og Nine. Ég vil samt ekki skella allri skuldinni á bara hann þar sem hann fékk heldur betur óvandað og þurrt handrit til þess að vinna úr. Það getur ekki verið auðvelt að búa til spennandi og fjörugar hasarsenur í kringum svona óathygsliverða sögu.

Pirates 4 er langbest á fyrsta hálftímanum, enda mest um að vera þá. Myndin er ekki beint léleg yfir heildina en engu að síður metnaðarlaus og stundum eirðarlaus. Þessi leti sem hún sýnir dregur hana niður úr algjöru miðjumoði í eitthvað sem er alls ekki að vera þess virði að borga fullt verð fyrir að sjá. Seinast þegar svona óboðinn gestur kom og skemmdi góðan þríleik var árið 2008, og titill þeirrar myndar endaði á orðunum Crystal Skull.

Besta senan:
Flóttinn í byrjuninni. Dettur ómögulega annað í hug.

Sammála/ósammála?