The Hangover: Part II

The Hangover (Part?) II er skólabókadæmi um eitthvað sem átti aldrei að verða. Það er nógu algengt að ferskar gamanmyndir græði óvænt tonn af seðlum, og til að halda peningaflóðinu gangandi er gerð framhaldsmynd sem fer eftir margnotuðu „gefum-fólki-meira-af-því-sama-vegna-þess-að-það-virkaði-áður“ hefðinni. Hana get ég svosem alveg sætt mig við, en ef myndir fara í þá áttina þurfa þær að vera nógu skemmtilegar svo ég tali nú ekki um nógu fyndnar til að maður kvarti ekki undan hugmyndaleysinu. Það sem þessi mynd gerir er aftur á móti eitthvað sem er svo ódýrt og lágkúrulegt að meira að segja hinar tilgangslausustu framhaldsmyndir myndu móðgast við tilhugsunina; Hún tekur forvera sinn, breytir um sögusvið og endurgerir hana nánast skref fyrir skref. Allir plottpunktar eru þeir sömu, atburðarásin spilast eins út og meirihluti brandaranna vísar í húmorinn sem við fengum áður.

Rennum aðeins yfir Hangover-uppskriftina og segið mér svo að þessi röð atburða eigi ekki við um báðar myndirnar:

(Spoiler, að sjálfsögðu, en ef þið hafið séð fyrstu þá skiptir það litlu máli)

– Einn vinanna er að fara að gifta sig. Myndin hefst á upphafssenu þar sem Phil (Bradley Cooper) tilkynnir gegnum síma að allt sé farið í rugl, og að brúðkaupið verði ekki að veruleika.

– Kreditlisti (sem sýnir helling af skotum af ferðastaðnum sem djammið gerist á).

– Sagan spólar tilbaka um nokkra daga, kynnir drengina til leiks og sýnir þá gera sig klára fyrir ferðarlagið (hvort sem það er Vegas eða Taíland).


– Bróðir brúðurinnar slæst í för með þeim, sumum til mikillar óánægju.


– Drykkjan hefst og næsta dag vakna þeir grautþunnir á hótelherbergi. Allt er í rústi, einn félaganna er týndur og það er dýr inni í herberginu.


– Strákarnir tékka vasana sína og reyna að rekja spor sín. Ýmis skrautlegheit byrja til að fylla upp í lengdartímann.


– Alan (Zack Galifinakis) viðurkennir að hann hafi gert eitthvað sem orsakaði minnisleysi þeirra.


– Einhvers konar vesen við glæpamenn átti sér stað nóttina áður og þeir segjast núna vera með týnda félagann. Smá ringulreið skapast og drengirnir reyna að redda því sem þeir geta til að fá hann aftur. Svo kemur í ljós að glæpamennirnir voru ekki með hann.


– Eftir allt þetta kaos fattast það að týndi vinurinn var allan tímann fastur á hótelinu, gjörsamlega máttvana.


– Brúðkaupið mun halda áfram eftir allt saman. Vinirnir flýta sér á mettíma til þess að ná því.


– Stu (Ed Helms) fær góða útrás á manneskju sem hefur vaðað yfir hann.


– Nei sko! Einn hefur fundið fullt af ljósmyndum. Hefst þá vandræðalega ljósmyndasýningin á meðan lokatextinn rúllar.

Ég er nú enginn handritshöfundur en á fimm mínútum hefði ég getað vippað upp betra efni fyrir þessa framhaldsmynd. Ég held að hvaða hugmynd sem er hefði dugað betur heldur en þessi skömmustulega endurtekning (og af hverju í helvítinu fær Doug (Justin Bartha) aldrei að vera með í þynnkunni??). Það er ekki einu sinni hægt að líta á karaktera myndarinnar sem alvöru persónur lengur. Það er engin útskýring fyrir því að þeir hegða sér allir nákvæmlega eins og áður og mér finnst afar lélegt hvað handritshöfundarnir spá ekkert í því að útskýra fjarveru Heathers Graham. Hún skipti fyrri myndinni talsvert miklu máli.

Leikaratríóið (þ.e. Cooper, Galifinakis og Helms) smellur ennþá vel, og það er að vissu leyti kostur. Myndin hefði hrapað niður um nokkur stig í einkunninni ef strákarnir hefðu verið jafn áhugalausir og leikstjórnin. Maður fær þá tilfinningu að þeir hafi reynt að gera eitthvað gott. Myndin hefur aðra kosti, eins og fáeinar fyndnar línur (aðallega frá þeim feita, sem er enn dálítið kostulegur en er alvarlega farinn að missa dampinn – þökk sé Due Date) og býsna flotta litapallettu. Hversu ófyndin þarf samt gamanmynd að vera til þess að maður fari að spá í litanotkun rammana??

Ef þér finnst The Hangover Part II vera stanslaust fyndin þá er auðvitað líklegra að þú fyrirgefir ófrumleika hennar. Ég skil samt ekki hvað er hægt að finnast svona fyndið við hana sem var ekki 10 sinnum fyndnara í hinni myndinni. Þegar maður sá hana þá hafði maður a.m.k. ekki hugmynd um hvert sumir brandararnir stefndu en hérna veistu það annaðhvort allan tímann eða hefur sterkan grun um það. Það voru aldrei nein atvik í þessari mynd sem ég hló af, bara frasar („I wish monkeys could Skype“). Allt annað fannst mér bara þvingað og stundum gróft af engri ástæðu nema bara til að fylgja þeirri hefð að allar framhaldsmyndir þurfa að ganga skrefið lengra. Þessi þurfti alls ekki á grófari (typpa)bröndurum til að virka betur, heldur snjallara handrit fyrst og fremst. Þegar langt var liðið á atburðarásina var mér farið að leiðast svo mikið að ég beið bara eftir kreditlistanum til þess að sjá ljósmyndasýninguna. Það var líka langbesti parturinn við fyrri myndina.

Seinasta Hollywood-framhaldsmynd sem fór geysilega í taugarnar á mér fyrir að hafa endurunnið formúlu forvera sins var Meet the Fockers, sem ég sá árið 2005. En jafnvel sú mynd var ekki nema 70% afrit og gerði eitthvað af nýju þótt það hafi ekki verið mikið. Þessi er hátt upp í 90% og verður ansi fljótt fyrirsjáanleg, þurr og leiðinleg. Henni gengur líka verr með að fylla upp í lengd sína – sem er skiljanlegt miðað við „hugmyndaflugið“ hér að baki – og þess vegna virkar hún teygðari en hin myndin. Leikstjórinn Todd Phillips þarf mikið að bæta sig ef hann ætlar að halda sig við gamanmyndir áfram. Núna hefur hann misstigið sig oftar heldur en ekki.

Myndin fær ekki nema fjórar Bailey’s-flöskur í einkunn af tíu. Og ég sem hélt að Pirates 4 væri latasta og hugmyndasnauðasta framhaldsmyndin sem ég ætti eftir að sjá þetta sumar!Besta senan:

Intro-ið hans Ken Jeong var pervertískt og fyndið.

Sammála/ósammála?