In Time

Ég get ekki annað sagt en að nýsjálendingurinn Andrew Niccol sé afar athyglisvert fyrirbæri. Hann er ekkert sérstaklega góður leikstjóri og heldur ekkert voða virkur í fagi sínu en hann er þrátt fyrir það snjall og hugmyndaríkur handritshöfundur, nánast einstakur. Sérgrein hans til þessa, fyrir þá sem ekki vita, eru ofsalega jarðbundnar vísindaskáldsögur með fjarstæðukenndum (og frumlegum) hugmyndum þar sem samfélagsádeilan er eins og stakur karakter í sjálfu sér. Niccol byrjaði alveg á toppnum, og það er varla hægt að segja annað en að The Truman Show og Gattaca séu best skrifuðu myndirnar hans. Síðan þá hefur ekki vantað áhugann eða metnaðinn hjá honum en verkin hans hafa lofað meiru en þau skiluðu af sér.

Reyndar finnst mér Gattaca vera ein vanmetnasta vísindaskáldsaga í heimi. Mér finnst hún stórkostleg og það er fúlt að Niccol náði aldrei seinna að komast með tærnar þar sem þessi frumraun hans hafði hælanna. Ferillinn byrjaði svo vel að ég beið alltaf spenntur eftir nýjum myndum frá honum en hingað til hafa þær allar ollið vonbrigðum, þar á meðal In Time. Lord of War var svosem ágæt, en ég tók vonbrigði þessarar myndar meira nærri mér þar sem hugmyndin á bakvið hana er næstum því jafn athyglisverð og í Gattaca, og maður fær þá tilfinningu að Niccol hafi sjálfur reynt svolítið að endurskapa þá mynd aftur í nýjum búningi. Myndirnar eru svipaðar í hugmyndum, skilaboðum og framtíðarsýn en gerólíkar í greind, framvindu og gæðum almennt.

Það er alltaf svo vandræðalegt þegar svona vitfirrt mynd þykist vera miklu snjallari en hún er. Í denn voru skilaboðin hjá Niccol heldur lúmsk, og með tímanum hefur hann þurft að stafa hlutina meira út fyrir okkur. In Time er ófyrirgefanlega ójöfn og týpísk mynd í frásögn miðað við hvað heimurinn sem hún gerist í er athyglisverður. Sagan byrjar mjög vel og heldur ferskleikanum í góðan hálftíma eða svo. Eftir það fáum við það sem mætti annað hvort kalla klassískt eða dæmigert, eins og t.d. eltingarleiki, bankarán og svo auðvitað þrasandi par á flótta sem þróar “óvænt” ástarsamband á stuttum tíma. Þetta er spes bræðingur af Bonnie & Clyde, Hróa hetti og Gattaca, nema bara alls ekki jafn spennandi og hann hljómar.

Allegorían ætti ekki að fara framhjá neinum sem veit eitthvað í sinn haus og skilaboðin eru það augljós að það hefði alveg eins mátt stafa þau út á undan kreditlistanum. Mér líkaði að vísu ágætlega við tóninn á myndinni og hvernig Niccol tekur grunnhugmyndina um tíma sem gjaldmiðil ekkert of alvarlega. Hann leyfir sér einnig að finna alls konar tækifæri fyrir ódýr – en fyndin – orðagrín. Þið megið búast við alls konar setningum í líkingu við: „Loksins hef ég *tíma* til þess að gera það sem ég vil.“ Niccol brosir breitt að því hvernig hann gjörbreytir merkingu setningarinnar „time is money“ og hefði þetta auðvitað allt átt að skila sér í mun skarpari og einbeittari mynd. Svona skemmtilegt hugmyndaflug á ekki að breytast í auðgleymdan og gloppóttan þriller. Niccol lofar enn og aftur meiru heldur en hann framkvæmir.

Justin Timberlake tekur sig þokkalega út í myndinni en það er takmörkuð kemistría á milli hans og Amöndu Seyfried. Þetta vandamál ætti alls ekki að vera því þau eru bæði hæfileikarík (hann töluvert meira en hún) og heit (hún töluvert meira en hann). Persónurnar þeirra eru samt flatar og pínu leiðinlegar. Engin persóna eða leikari stendur eitthvað upp úr. Cillian Murphy röltir bara um eða hleypur á milli staða með sama svipinn út alla myndina, og oftast hendur fyrir aftan bak í síðum leðurjakka. Þessi stórfíni leikari er hvorki góður né slæmur hér. Hann er bara þarna, eins og hvert annað útlitsskraut.

Niccol hefði alveg mátt læra nýja takta við gerð myndarinnar. Tökustíllinn hans lykar af því sem hann hefur áður gert og hver einasti hasar eða eltingarleikur fer algjörlega eftir hefðum, og misheppnaðist það svakalega að búa til naglbítandi spennu. Það leið óþægilega langt á milli atriða sem hægt var að lifa sig inn í, enda fór mér að líða eins og ég væri að horfa á sama hlutinn aftur og aftur: Timberlake og Seyfried hlaupa og haldast í hendur, tékka inn á milli á „klukkunni“ og nudda saman handleggjum við ýmsar persónur til að skiptast á tímamagni. Mynd sem sýnir svona margar „lífshættulegar niðurtalningar“ ætti alls ekki að vera svona óspennandi.

Það magnaða við In Time er hvernig hún skiptist á milli þess að vera svöl og kjánaleg. Handritið hefur góðan, frumlegan grunn og það er umvafið nýjum og flottum umbúðum en eftir því sem pakkinn er skoðaður nánar kemur í ljós að Niccol hefur ekki almennilega vandað sig. Hann hefði átt að gefa sér meiri tíma í þetta, en að minnsta kosti hafði hann smá húmor fyrir efninu og það er eitt af nokkru sem bjargar myndinni frá því að vera algjör tímasóun.

PS. Það er dálítið erfitt að kaupa það að allar persónurnar eiga að líta út fyrir að vera 25 ára. Murphy lítur allavega ekki út fyrir að vera jafnaldri minn, og heldur ekki Johnny Galecki. Smá svona nit-pick.

Besta senan:
Timberlake og Alex „Beastly“ Pettyfer fara í minnisstæða handaglímu. Svölustu fimm sekúndur myndarinnar eru í endanum á senunni.

Sammála/ósammála?