Inglourious Basterds

Það er alltaf gaman að sjá hvaða furðulega stílbræðinga Quentin Tarantino kemur með. Í hvert sinn sem hann býr til kvikmynd leggur hann blóð, svita og tár í hana og augljóslega heilmikið af sjálfum sér. Myndirnar hans hafa alltaf verið ógurlega frjálslegar að því leyti að þær fara nánast aldrei eftir hefðbundnum frásagnarháttum og eru í raun engar tilteknar handritsreglur (eða reglur yfirhöfuð!) til staðar. QT gerir einmitt það sem hann vill og gefur skít í venjulegu leiðirnar, og við öll gefin tækifæri vitnar hann í þekkta kvikmyndageira sem eru að mestu leyti útdauðir.

Inglourious Basterds er stórt og mikið skref fyrir djarfan einstakling sem gerist ennþá djarfari. Þetta er alveg hreint ótrúlega vel heppnuð stríðsepík – ef svo má að orði komast – með sterku eftirbragði að hætti spagettívestra. Myndin tekur áhættu og svínvirkar allan tímann með skemmtilegri frásögn sem bæði byrjar og endar með þvílíkum stæl (kem að því betur á eftir). Tarantino virðir Sergio Leone-stílinn með að leyfa einfaldri sögu að spilast á sniglahraða þar sem uppbygging og andrúmsloft skiptir mestöllu. Leone hefur reyndar verið meira hrifinn af löngum þögnum meðan Tarantino fyllir glæsilega í eyðurnar með samræðum sínum. Handritið býr ekki yfir neinum kunnuglegum formúlum og kemur framvindan stöðugt á óvart. Persónur í Tarantino-myndum eru t.d. alltaf jafn ófyrirsjáanlegar. Maður einhvern veginn getur aldrei reiknað með því hvað þær munu segja eða gera næst og er Basterds alls engin undantekning þar. Ég gat aldrei séð fyrir mér hvert myndin væri að stefna eða hvernig hún ætti eftir að spilast út til enda, og slík tilfinning er ávallt hressandi í heimi þar sem kunnuglegar formúlur finnast nánast á hverju strái.

Allt skrautið í kringum þennan pakka gerir áhorfið margfalt eftirminnilegra. Tónlistin stendur þar rækilega upp úr. Til að sverja sig meira í ætt við Leone þá styðst myndin mestmegnis við alveg hreint mögnuð stef frá gamla meistaranum Ennio Morricone. En sama hvað menn hafa neikvætt að segja um þennan ofvirka leikstjóra, þá er ómögulegt að setja út á tónlistarvalið hans, sem er nánast alltaf fullkomið. Tæknivinnslan er einnig í takt við „gamla skólann.“ Sally Menke stendur sig ákaflega vel með klippinguna, enda vön kona sem hefur klippt og mótað allar myndir leikstjórans til þessa. Kvikmyndataka hins þaulreynda Roberts Richardsson er líka til fyrirmyndar.

Leikaravalið er skothelt og er hver og einn í essinu sínu. Brad Pitt, án efa þekktasta andlitið, er drullugóður og kemst undarlega vel upp með ýktan Tennessee-hreim, sem er ekki beint sjálfsagður hlutur. Af sýnishornunum að dæma átti ég von á svakalegum ofleik en Pitt kemur einungis fram í hófi svo hann kemur bara nokkuð vel út. Mér leist heldur ekkert á það að Tarantino hafi sett góðvin sinn, Eli Roth, í mikilvægt hlutverk en í ljós kom að hann átti alls ekki margar línur og í raun stóð hann sig eins og hetja. Hann hefur a.m.k. góð svipbrigði sem nýtast honum vel þegar kemur að ógeðfelldum manndrápum á skjánum. Mélanie Laurent, Til Schweiger, Diane Kruger, Daniel Brühl, August Diehl og Michael Fassbender gera einnig fáránlega góða hluti við misstórar – en allar álíka mikilvægar – rullur. Fer samt ekki á milli mála hver senuþjófur myndarinnar er. Christoph Waltz, sem varla neinn þekkti af einhverju viti hér áður, gjörsamlega étur upp hvern einasta ramma með bestu lyst í eftirminnilegasta og án efa best skrifaða hlutverki myndarinnar. Hann er ferlega hátt uppi á listanum yfir bestu karakterum sem QT hefur skapað. Segir það alveg helling.

Basterds er samt MJÖG þung á samtölum, eðlilega. Ég get svosem ekki kvartað meðan þau virka, sem þau svo sannarlega gera. Tarantino hefur ekki pennað svona grípandi samtöl í rúman áratug (ELSKA líka hvernig hann beitir tungumálum eins og sitt eigið vopn og heilu senurnar spilast út á þýsku eða frönsku). Ég verð samt að játa að sama hversu vel skrifað handritið er, þá er flæðið stundum fullengi í hlutlausum gír, eins og endalaust sé verið að stilla upp því sem koma skal. Biðin er þess virði, en myndin er óneitanlega aðeins í lengri kantinum. Saga Basterds er skipt niður í fimm númeraða kafla, alveg eins og Kill Bill-myndirnar. Tveir kaflar stóðu samt hvað mest upp úr, þessi fyrsti og sá síðasti. Fyrstu 20 mínúturnar bera stærstu einkenni spagettívestrana og jafnvel væri hægt að taka þennan staka kafla og nota hann sem litla, magnþrungna stuttmynd. Svo eru síðustu 45 mínúturnar líka alveg magnaðar, og ég get ómögulega sagt annað en að þetta sé einhver besti lokasprettur sem ég sá árið 2009, og e.t.v. undanfarin ár. Ég var næstum því farinn að gráta af gleði yfir því sem gerðist alveg í lokin. Hvílík snilld! Myndin tekur sveiflur inn á milli út lengdina en tapaði aldrei áhuga mínum. Hins vegar, hefðu hinir þrír kaflarnir náð hæðum þessara tveggja, þá hefði ég ábyggilega fundið jafningja Pulp Fiction.
Nei, hún hefði verið aðeins betri! Kaflinn á kjallarakránni er sömuleiðis fantagóður.

Dirfska, húmor, grimmd, töffaraskapur og hin sígildu samtöl í Tarantino-stíl eru það sem einkenna þetta brilliant bíó. Inglourious Basterds er akkúrat rétta blandan af gamaldags (og afar stílískri) kvikmyndagerð og fersku hráefni. Sagan tekur sig kannski ekki alvarlega en myndin er alls ekki laus við kröftug móment. Í kaupbæti ákveður einn virtasti bíónördinn í heiminum að endurskrifa mannkynssöguna og segja sína eigin útgáfu af því hvernig seinni heimsstyrjöldin endaði. Það eru ekki allir sem þora því og afraksturinn er svo suddalega sterkur að það tryggir myndina langt líf, bæði í endurspilun og brennir hana inná ferilskránna sem ein af hans albestu myndum.

niu

Besta senan:
Þriggja mínútna fullnægingin sem myndin fékk um leið og allt fer til helvítis (bókstaflega, það kviknar í öllu!). Stórkostlegur endir.

Sammála/ósammála?