Inception

Christopher Nolan er hér með orðinn, verð ég að segja, heimsmeistari í að gefa aðdáendum sínum allt sem þeir vilja, og hann er án nokkurs vafa mikilvægasti leikstjórinn á vestrænum kvikmyndamarkaði í dag. Hér höfum við mann sem er ekki bara fyrirtaks hasarmyndaleikstjóri heldur fagmaður í lagskiptum strúktúr og snjöllum útfærslum. Þessi maður hefur aldrei komið nálægt því að gera lélega mynd, hvað þá miðjumoð eða svo mikið sem „fína“ mynd (versta myndin hans er líklegast Batman Begins, en jafnvel hún var tussugóð). Memento er ein af bestu myndum sem ég hef séð og ég missti niður á mér neðri kjálkann þegar ég sá hversu góð The Dark Knight var. Þið getið þá rétt ímyndað ykkur þá tilfinningu sem ég fékk þegar ég sá svo að Inception var hvergi nálægt því að vera eitthvað skref niður fyrir manninn. Eins og það sé ekki nóg þá skal ég ganga svo langt með að segja að mér finnst þessi vera ögn betri en Dark Knight.

Inception skildi mig eftir gjörsamlega kjaftstopp. Ég bjóst upphaflega við frábærri mynd frá frábærum kvikmyndagerðarmanni en fékk heila veislu í staðinn þar sem úthugsað efni er við hvert horn. Myndin gerir svo ótrúlega margt í einu (og ekkert sem er auðvelt heldur!) en heldur samt dampi frá upphafi til enda án þess að misstíga sig í eina mínútu, og miðað við hvað sagan er margbrotin er það nánast kraftaverki líkast, eða ætti maður kannski frekar að segja draumi? Keyrslan á söguþræðinum er á fullu allan tímann og maður óttast eftir að kvikindið hægi á sér, en það gerist aldrei, og áður en maður veit af þá er myndin búin. Ég leit á klukkuna mína hvítur í framan og neitaði að trúa því að ca. 140 mínútur hefðu liðið. Hún hættir aldrei að vera athyglisverð, er stöðugt spennandi og nær að fullnægja þörfum hasarfíkilsins ásamt því að vera á sama tíma pökkuð af innihaldi. Þetta er upplifun sem lætur Dark Knight líta út eins og hverja aðra poppkornsmynd og þetta segi ég um mynd sem ég dýrka útaf lífinu.

Nolan hefur alltaf kunnað að nota leikara sína vel, og stóra hópa af þeim. Þó svo að minniháttar karakterar séu kannski einfaldari en sumir kæra sig um þá eru allir eftirminnilegir á sinn hátt þökk sé leikurunum. Fólkið hér er heldur ekkert að berjast um skjátímann heldur fær hver sína verðskulduðu athygli. Leo DiCaprio er að sjálfsögðu fremstur á meðal jafningja og meðhöndlar lykilhlutverkið með stæl, eins og alltaf. Hann hefur aldrei átt betra ár en 2010, en takið samt eftir hvað hlutverkið hans hér á margt sameiginlegt með Shutter Island. Síðan er heill lager af öðrum hörkugóðum leikurum sem fylla gallalaust upp í minni rullurnar. Joseph Gordon-Levitt, Cillian Murphy, Ken Watanabe, Michael Caine (meira cameo þó, athugið það), Tom Hardy, Dileep Rao og Tom Berenger eru hreinlega allir góðir og Marion Cotillard sýnir enn og aftur að hún gæti leikið vel þó hún væri blind og haltrandi. Ég meira að segja naut þess að horfa á Ellen Page og það hefur ekki skeð síðan áður en hún byrjaði að fara í taugarnar á mér í Juno. Allt exposition-dömpið í sögunni lendir helst á henni og hennar atriðum en fannst mér það koma glæsilega út.

Nolan hækkar enn meira í áliti hjá manni þegar maður skoðar hversu erfitt er að halda um taumana á svona stóru leikaraliði og eins metnaðarfullu handriti og þessu. En þetta virðist allt saman smella saman eins og maður hefði aldrei búist við að hefði verið hægt. Inception er ein af þessum myndum sem krefst þess einungis að þú fylgist með henni og það er magnað hvað hún verðlaunar manni mikið því lengra sem líður á hana. Hún er úthugsuð alveg í gegn, reynir skemmtilega á heilabúið, lemur þig með geysilega flottum og minnisstæðum senum inn á milli og trompar sig svo með fullkomnum endi.

Tilfinningin eftir þennan rússíbana er ólýsanleg. Myndin setur sér mjög há markmið og nær þeim öllum með pomp og prakt. Hún mun kannski ekki vera tebolli ykkar allra, en ef þú ert þreytt/ur á hinu hefðbundna og vilt loks sjá eitthvað nýtt frá alvöru fagfólki þá get ég ekki sagt annað en að þetta sé SKYLDUÁHORF. Svo má ég ekki gleyma því að minnast á fyrirmyndar kvikmyndatöku (Wally Pfister er líka snillingur – magnað samt að nafn hans skuli vera borið fram „fist her“), klippingu, tónlist og tæknibrellur sem styrkja fyrirtaks sögu enn frekar. Ímyndið ykkur hvernig það væri ef fleiri stórmyndir myndu taka svona stóra áhættu.

Ef þú hefur ekki séð þessa mynd, skammastu þín! Og ef þú hefur þegar séð hana, sjáðu hana þá aftur! Og ef þú segir að þessi mynd sé ekki aðdáunarvert og kjarkað bíó, þá ertu fífl.

ficht

Besta senan:
„Spinning corridor“ atriðið. En ekki hvað?

PS. Ættleiddu mig, Nolan!

3 athugasemdir við “Inception

  1. þessi mynd er að mínu mati besta nolan myndin (hef ekki séð memento) en er ósammála um bestu senu besta senan er hótelherbergis-baðkars-hótanna-senan í byrjuninni

Sammála/ósammála?