Spider-Man 3

Spider-Man 3 á eflaust erindi í sögubækurnar sem ein af þessum sumarsprengjum sem öllum langaði að sjá og flestir höfðu trú á áður en hún kom út en varð svo að einhverjum umtöluðustu vonbrigðum fyrr eða síðar. Maður var kannski örlítið skeptískur eftir suma traileranna en það leit út fyrir að líkurnar væru með henni frekar en ekki. Hinir bjartsýnu hugsuðu: „Hvernig getur þetta feilað?“ Sam Raimi snéri aftur eftir að hafa slegið í gegn með fyrstu myndinni (sem skuggalega mörgum fannst frábær, þó ég geti ómögulega sagt það sama), hitt svo betur í mark hjá áhorfendum og gagnrýnendum með annarri myndinni (sem var miklu, miklu betri) og ég veit ekki um neitt (myndasögu)nörd sem grét ekki pínu gleðitárum þegar vitað var að Venom kæmi fyrir í þessari þriðju.

Ég lýg ekki, þetta var ein af þeim myndum sem ég hlakkaði mest til að sjá sumarið 2007. Það var nokkuð sárt að ganga út úr bíóinu, vægast sagt. Reyndar hataði ég myndina ekki eins og margir gera, en hún er langt frá því að teljast fullnægjandi og ég mun útskýra af hverju, eða nánar til tekið þá tel ég upp 10 ástæður af hverju myndin var soddan vonbrigði.

– Spoilerar!! Að sjálfsögðu –


10. Augljósa ástæðan

Þessu eru flestir sammála um enda löngu orðið þekkt sem helsti veikleiki myndarinnar; Það er ALLTOF mikið að gerast! Þú ert þarna með 3 illmenni, ástarþríhyrning (tvo meira að segja, ef maður telur Gwen Stacy með), hefndarplott og heilmikið hormónaflæði hjá aðalpersónunum. Svo þarf náttúrulega að gefast tími fyrir hasar svo myndin standi undir þeim lágmarksvæntingum sem fylgja titlinum. Myndin gefur það til kynna á fyrstu 20 mínútunum að hún eigi eftir að verða troðfull af upplýsingum og persónum, og hefur það slæm áhrif á rest. Mjög svo.

9. Væl
Af hverju voru ALLIR grátandi svona mikið?! Ég veit að leikstjórinn vildi hafa emotional kraft í sögunni, en sumt gerir maður bara ekki í sumarmynd! Myndin endar á svo niðurdrepandi nótum vegna gráturs og blessaði titilkarakterinn var bara orðinn einu skrefi nær því að grenja í koddann sinn með Opruh-bók og Ben & Jerry’s við hendi. Tobey Maguire missti fullt af góðvildarstigum hjá mér þegar hann hágrét í nærmynd eftir að Mary Jane hætti með honum á tussulegan hátt. Fleiri stigum tapaði hann þegar lengra leið á. Allir vita af hverju.

8. Kaldhæðni
Talandi um tilfinningalegan kraft. Sandman virkaði í fyrstu mest óspennandi persóna myndarinnar enda ekkert rosalega minnisstæður skúrkur í myndasögunum. Hins vegar var atriðið þar sem að hann rýs upp úr sandinum flottasta og mest grípandi senan, og klárlega sú sorglegasta. Tónlistin er áhrifarík og hvernig karakterinn rembist við að ná gripi á nisti með mynd af dóttur sinni. Frekar hjartnæmt! Samt erum við bara að horfa á eintóma pixla. Ekkert drama kemst með tærnar þar sem þetta atriði hefur hælanna, og það á sér stað á fyrsta hálftímanum. Svekk.

7. TilviljanirFULLT AF ÞEIM
Ég hef komið til New York-borgar, og ef það er eitthvað sem ég lærði, það er að þetta er ólýsanlega stór og mannamikil borg. Þu hittir ekki bara kunningja þinn á næstu götu sisvona eins og á Hverfisgötunni. Ég neita að trúa því hversu heimskulega djarft það er að þræða saman leiðir þriggja karaktera á þannig vegu að maður missir alla trú á handritinu. Atriðið hefst á því að krani nokkur missir stjórn á sér og stefnir á byggingu sem Gwen Stacy er að módelast í (en hentugt!). Í beinu framhaldi á því mætir pabbi hennar (James Cromwell) á staðinn og svo strax fyrir aftan hann poppar upp Topher Grace, eins og þeir hafi allir verið bara í nágrenninu rétt áður en þetta gerðist. Síðan á öðrum tímapunkti eru þau Spidey og MJ að kúra saman í vef og allt í einu – á þessum nákvæma stað – lendir loftsteinninn sem inniheldur Venom-slímið. Þetta eru handritsgallar sem menn eins og Uwe Boll sætta sig við, ekki Sam Raimi eða hórurnar hjá Marvel.

6. EMÓ…
Raimi hefði átt að hugsa betur út í útlit Peters Parker þegar hann verður illur. Ekki nema hugsunin hafi verið sú að draga upp einhverja ofsalega augljósa menningarrýni. Pælingin er ágæt á blaði, en með svarta, slétta hárið og sveipinn ásamt augnskugganum verður þetta hlægilegri sjón en Captain America-búningurinn sem Matt Salinger klæddist. Auk þess er Parker e.t.v. ennþá meiri lúði þegar hann er svona „vondur.“ Var ekki hægt að víxla þessu aðeins?

5. Asnaskapur…
Ég hef ekki samúð með neinum í þessari mynd. Hvers vegna ekki? Því allir eru fávitar! MJ vorkennir sjálfri sér því Spidey fær meiri athygli en hún (Búhú…). Peter Parker er montrass sem er drullusama um MJ, eða svo lítur það út. MJ kyssir Harry óvart, Peter kyssir Gwen Stacey á almannafæri – óvart, og þetta fólk blaðrar um hvað hinn aðilinn er tillitslaus. Ha?? Þið eruð bæði heiladauð, og eigið þar af leiðandi hvort annað skilið! Af hverju erum við að horfa á Closer með tæknibrellum en ekki SPIDER-MAN-mynd??

4. Dansatriðin… Kjána-Kjána-Kjána-Kjánaleg!! Um leið og Peter byrjar að dansa við barinn og smellir fingrum meðan að hann dillir mjöðmum og grípur í Gwen fæ ég gjörsamlega nóg! Þetta er ekki sami Spidey og ég ólst upp við!

3. Sand… tilraunin?… Hvað í ósköpunum voru vísindamennirnir að gera þegar svo óvænt vildi til að Flint Marko hrapaði ofan í sandhrúguna þegar einhver tilraun var að fara að hefjast. Ekkert smá mikið kæruleysi í vísindamönnunum, sérstaklega þegar þeir taka eftir auknum massa í þyngd og halda að þetta sé bara „einhver fugl…“
Já… Alveg rétt. 100 kílóa fugl. Fyndið. Höldum bara áfram að hræra í sandinum og látum eins og ekkert hafi skorist.

Þoli ekki svona fokk-asnalegar handritsreddingar.

2. Venom… Sam Raimi sagði oft að hann væri ekkert að fíla karakterinn neitt alltof mikið. Stúdíóin sannfærðu hann um að hafa hann með upp á vinsældir að gera. Þetta var langt inn í framleiðsluferlið, og það sést. Venom, í allri sinni dýrð, kemur upp úr þurru í lokin og gerir eiginlega ekkert mikið. Varla neitt, þannig að það sést enn hvað Raimi vildi ekkert mikið með hann gera. Ég tók m.a.s. tímann á skjátíma Venom (já, mér var farið að leiðast – en þetta var í öðru áhorfi), og hann skríður ekki einu sinni yfir 10 mínútur. Ekki skrítið að aðdáendur voru svekktir. Lokasprettur myndarinnar með Venom hefði átt að bæta upp fyrir kjánalegu danshreyfingarnar en því miður gerði hann bara myndina verri og verri.

1. Þjónninn… Skyndilausn á þvinguðum endi. Handritshöfundarnir voru komnir í holu og fundu enga leið til að redda sér úr henni. Nema jú, þjónninn hans Harry Osborn kemur upp að honum og segir honum – eftir ALLAN þennan tíma – að hann vissi frá upphafi hvernig faðir hans dó. Já, takk…
Harry var m.a.s. orðinn líkamlega slasaður eftir að hann og Spidey slógust um það, og NÚNA ákveður gamla brýnið að tjá sig. Á endanum kemur út eins og þjónninn sé annað hvort mesti skíthæll myndarinnar eða stærsta hetjan. Burtséð frá því er þetta samt deus ex machina-endir á hæsta stigi.

Auðvitað er myndin ekki alslæm, þótt margir vilji meina það. Hún hefur ýmsa kosti eins og góðan hraða og fínar brellur. Leikararnir stóðu sig vel en í þessari umferð misstu þau Tobey Maguire og Kirsten Dunst allan eða þann takmarkaða sjarma sem þau höfðu. Ég hef síðan oft sagt það áður að  mér fannst Maguire aldrei passa í þetta hlutverk (hef miklu meiri trú á Andrew Garfield). James Franco er samt alltaf góður og einkum fílaði ég grínkónganna J.K. Simmons og Bruce Campbell í litlu hlutverkum sínum. Campbell átti vafalaust fyndnustu senuna. Bryce Dallas Howard og James Cromwell höfðu hins vegar alveg mátt sleppa þessu og þótt Topher Grace standi sig þokkalega sem enn einn sjálfumglaði lúðinn, þá rýkur af honum ilmur af Eric úr  That ’70s Show, en ofan á það þá er hann bara hundleiðinlegur Venom sem tekst aldrei að vera ógnandi.

Það sést rosalega á niðurstöðunni að Marvel-hausarnir hafi snúið upp á handlegginn á Raimi og sagt honum að taka ákvarðanir sem hann var ekki sáttur með og sködduðu heildina. En þegar upp er staðið þá er myndinni einungis ætlað að skemmta manni. Persónulega fannst mér pínu gaman að horfa á hana – bara pínu. Það koma samt þessar hraðahindranir af göllum, þar sem lógían er bara of absúrd til að þú getir bara slökkt alfarið á heilanum og melt myndina eðlilega. Þetta er of gallaður pakki og svo sannarlega vonbrigði, en ég geng ekki svo langt með að kalla þetta einhverja ælu. Hún er engin Superman III, sem betur fer.

Besta senan:
Tölvugerður sandur að púsla saman mann. Fokk, hvað slík fullyrðing hlýtur að vera mikil móðgun á leikaranna.

Ein athugasemd við “Spider-Man 3

Sammála/ósammála?