Sucker Punch

Sumar bíómyndir eru einfaldlega bara tryllt svalar vegna þess að sögurnar bjóða upp á það, viljandi og óviljandi. Spennan þarf samt oftast að vera til staðar og persónur verða sömuleiðis að vera þess virði að halda upp á. Svo eru aðrar myndir sem bara demba sig beint út í „kúlið,“ án þess að taka tillit til þessara þátta. Þær halda að það sé bara nóg að troða öllu á skjáinn sem áhorfendum finnst gaman að sjá. Margir leikstjórar gera þessi mistök, og þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að með þannig hugarfari verða myndir eins og UltraViolet til.

Sucker Punch er sem betur fer ekki alveg svo léleg. Hún vill samt svo mikið vera eitursvala, lagskipta rússíbanareiðin í líkingu við The Matrix og Inception en hefur ekki hugmynd um hvað það var sem gerði þær svo góðar. Í stað þess að vera myndin sem þú heldur upp á er hún frekar þessi sem reynir fullmikið að þóknast þér með byssum, hávaða, kroppasýningum, brelluorgíum og ennþá meiri hávaða. Samanlagt erum við að tala um 30-40 mínútur samtals af hasar, og hann virkar á mann eins og lítið annað en uppfylling. Samt virðist þetta vera það eina myndin hefur áhuga á, og þýðir þetta að meira en klukkutími fer í óskipulagða sögu sem virkar LÍKA á mann eins og uppfylling. Ástæðan að hvort tveggja feilar er sú að myndin stendur sig merkilega illa í því að þræða saman fantasíuna við alvöru söguna svo það virki eins og þú sért að horfa á eina heild, en ekki MTV-útgáfuna af Girl, Interrupted með pásum þar sem þú ert staddur í hugarheimi myndasögu- og tölvuleikjanördans.

Zack Snyder leggur hellingsvinnu í það að sjá til þess að þetta sé eitthvað það svalasta sem þú hefur á allri þinni ævi séð. Hann fleygir bókstaflega öllu í þig sem hann finnur: vélmenni, uppvakninga, dreka og tröllvaxna samúræja (einn með hrískotabyssu) svo aðeins eitthvað sé nefnt. Myndin hefur auðvitað brjálæðislega flottan hasar hvað stíl og keyrslu varðar og tónlistarnotkunin við nokkrar senur er ansi öflug. Því miður verður manni samt fljótt sama um hasarinn sjálfan því hann er í raun furðu tilgangslaus. Hann speglar raunsöguna nánast ekkert og það drepur auðvitað alla spennu, sérstaklega þegar þú veist strax að þetta er allt saman ímyndun (sem er inni í annarri ímyndun!). Ég trúi ekki að mynd eins og Astrópía hafi náð betri efnislegri tengingu á aðalsögunni og fantasíusenum. Eitt-núll fyrir Gunnar B. Guðmunds býst ég við.

Senur sem gerast ekki í stílíseruðum fantasíuheimi eru oftast notaðar sem stökkpallur fyrir næstu ofbeldissenu. Það er ekki fyrr en hasarnum er lokið þegar myndin áttar sig loks á því að hún er að reyna að segja einhverja djarfa sögu með mikilvægum skilaboðum skelltum beint í smettið á þér. En sama hvað er á seiði hérna þá er ljóst að Snyder hefði átt að skrifa fleiri uppköst að handritinu. Það virðist einfaldlega ekki vera fullklárað. Asnalegast er samt hvað sagan þykist vera snjöll með því að segja dæmisögu inni í annarri dæmisögu. Þetta hefði getað opnað dyr að fleiri hugmyndum en því tækifæri er sóað. Þið skiljið hvað ég á við þegar/ef þið sjáið myndina, annars skiptir það svosem engu máli. Snyder reynir augljóslega að vera Christopher Nolan með því að koma með vísbendingar og pælingar sem eiga að gera annað áhorfið á myndinni ríkara, en hann nær bara ekki þeim hæðum því kúlið skiptir meira máli heldur en sagan. Ef Snyder er ósammála þessu þá er hann mun verri kvikmyndagerðamaður en ég áður fyrr hélt. Orð eins og persónusköpun virðist líka vera algjör latína í hans augum, allavega hér.

Álit mitt á þessum leikstjóra hefur farið talsvert lækkandi, og Sucker Punch gerir mig ekki beinlínis bjartsýnni gagnvart væntanlegu Superman-myndinni hans (þó ég efa ekki að útlitið verði til fyrirmyndar). Dawn of the Dead og 300 voru skemmtilegar en þær þjáðust örlítið fyrir einfaldleika en bættu það upp á öðrum sviðum. Watchmen er án efa hans eina mynd þar sem sagan hélst í fókus allan tímann og stílrúnkið betrumbætti heildina. Eftir hana gerði maðurinn skelfilega ómerkilega (en ógeðslega flotta) uglumynd og hér er hálfkláraða sagan á bakvið flottu umbúðirnar einungis afsökun til að hann geti fest blautan draum sinn á kameru. Vissulega myndi ég gefa hönnunardeildinni gott hrós ef hér væru um einhver frumlegheit að ræða, en ég fann þau bara hvergi. Leikstjórar sem hanna sín eigin skrímsli og umhverfi (eins og Guillermo Del Toro t.d.) myndu hlæja að Snyder fyrir að geta ekki betur en þetta. Hraðinn og brellunotkunin kemur beint frá honum, á meðan skrautið og fígúrurnar eru eins og eitthvað úr öðrum myndum, tölvuleikjum og líka Manga.

Ég get samt ekki lamið myndina of mikið niður því á vissan hátt er hún dálítið fersk. Ég get ekki annað en dáðst að henni smá fyrir að reyna eitthvað óhefðbundið sem maður sér ekki oft frá Hollywood. Ég myndi jafnvel kalla hana hugrakka hefði stúdíóið ekki skorið hana niður í PG-13 unglingamynd þegar blóðslettur, nekt og fleira gleðjandi hefði umhugsunarlaust gert ræmuna safaríkari. En burtséð frá því er ljóst að eitthvað mikið vanti upp á. Sucker Punch nær einungis því markmiði að vera töff þó svo að sjálfumgleði hennar skín svo hryllilega mikið í gegn. Þetta er þunn og ruglandi rúnkveisla sem vill vel og hefur góðar hugmyndir en skilar þeim ekki nógu vel frá sér. Jákvæðu stigin fara til leikranna (sem reyndu sitt besta), búninganna þeirra (Emily Browning í stuttu pilsi = HEITT), litanna (elska liti), brellnanna (eitt orð: brjálaðar!), ýmissa flottra sena (t.d. byrjunin og WWI bardaginn) og íslensku stelpnanna (Björk og ungfrú Torrini, sem áttu sitthvort lagið í myndinni).

Mjög blandaður pakki semsagt. Köllum þetta glansandi miðjumoð sem þú átt að sjá á stórum skjá ef þú skildir ákveða að svala forvitninni.

Besta senan:
Byrjunin. Way downhill from there.

Sammála/ósammála?