Titanic

Strákar hafa ábyggilega þúsund sinnum horft á sannsögulegt períódudrama eða hefðbundna ástarsögu með kærustunni og hugsað: „Vá hvað þessi mynd væri miklu, miklu betri ef það væri einhver hasar í henni!“ Rétt eins og ég efa ekki að ýmsar stelpur hafa setið yfir spennumyndum með miklum dauða, epískri eyðileggingu og óskað þess að þær gætu fengið fallega, gamaldags rómantík með innbyggðum tilfinningaflækjum. Þarna kemur James Cameron hlaupandi eins og kallaður og kom það öllum á óvart á sínum tíma þegar hann ákvað að snúa sér frá vísindaskáldsögum eða Schwarzenegger-hasarmyndum til að gera mynd sem hentar hverjum sem er, frá sjö ára aldri til hundrað og eins.

Af augljósum ástæðum hefur Titanic fundið skothelda leið til þess að höfða til breiðs áhorfendahóps án þess að einhver þurfi að skammast sín fyrir það að dýrka hana, þó sumir gera það. Margir hata hana líka, og oft út af röngum ástæðum. Vinsældir á alheimsmælikvarða hafa oft þessi áhrif en Titanic er þessi dæmigerða mynd sem fólk elskar, hatar, elskar að hata eða hatar að elska.

Sko, þeir sem voru ekki í bleyjum í kringum árið 1998 ættu að muna vel eftir æðinu kringum þessa mynd. Myndin var alls staðar auglýst og í smátíma hélt maður að hér væri bara komin stórmynd sem gæti ekki verið heilagri. Fólk spurði ekki hvort annað hvort það hafði séð myndina, heldur frekar: „Hversu oft?“ Alls staðar var vitnað í hana, fólk einfaldlega dáði hana út af lífinu og ef maður sagði eitthvað vont um hana, þá var gefið manni dómharðan svip sem ég hélt að bara barnaperrar og Portúgalar fengu. Hún sló öll met í bíó, á leigum, á sölumarkaði og allir – já, ALLIR – vildu bita af Leó. Strákar líka. En einmitt vegna þess að svo margt fólk elskaði myndina voru margir aðrir sem létu það bögga sig og þar af leiðandi vildu þeir hata hana eins og klukkutíma niðurgang (því það er svo gaman að vera öðruvísi en hinir, ekki satt?)

Ég hef sjálfur séð Titanic mjög oft, en ég hafði ekki litið á myndina í tæpan áratug fyrr en rétt svo nýlega. Ég ákvað þess vegna að horfa aftur á myndina í fyrsta sinn lengi með allt öðruvísi hugarfari en áður. Ég ákvað að pæla einnig í því af hverju fólk elskar myndina, en líka hvað það er sem fólk hatar við hana…

Áður en ég byrja þá tek ég fram að þessi mynd hefur elst alveg hreint glæsilega, burtséð frá fáeinum skotum þar sem augljós pixlavinna sést, en oftar en ekki þarf maður að leita sérstaklega eftir því til að sjá það. Svo er myndin auðvitað alveg frábær (já, ég sagði það. Haltu kjafti!). Kannski ekki meistaraverk, en hún er hiklaust ein ef ekki sú allra grimmasta og átakanlegasta PG-13 mynd sem undirritaður man eftir á fljótu bragði. Ég myndi að vísu fá illt í samviskuna ef ég myndi kalla myndina meistaraverk. Myndin vill að sjálfsögðu vera gargandi snilld og ég sé ekki betur en að cirka 75% hluti af myndinni sé ekkert nema stórkostlegur. Ég myndi samt fá illt í sálina ef ég myndi kalla þetta fullkomna mynd.

Skoðum hvers vegna…

.:TOPP 5 KOSTIR VIÐ MYNDINA:.
(Athugið að héðan í frá verða miklir spoilerar)

5. Framleiðslugildið!
Að segja að myndin sé vel gerð væri óásættanlegt. Útlitslega séð er þetta eins gott og það gerist fyrir svona týpu af mynd. Peningurinn sem fór í hana sést vel og gerir það heildina ennþá betri. Brellur eru ekkert mjólkaðar og maður kaupir tímabilið alveg 100% (fyrir utan eina eða tvær staðreyndarvillur með leikmuni).

4. Leikaraúrvalið!
Fullt af góðum leikurum í stórum og smáum hlutverkum. Allt frá skipstjóranum til truntunnar sem að lék móður Kate Winslet í myndinni.

3. Strúktúrinn!
Hann er geðveikur! Myndin byggir sig svo vel upp að hún virkar ekki eins og hún sé rúmlega þrír tímar! Hún verður aldrei of hæg eða óspennandi. ALDREI.

2. Ástarsagan!
Rómantíkin er það sem að keyrir hana. Hún er ekki fullkomin (sjá neðar) en ástarsagan yfir heildina gengur upp nokkuð vel og maður heldur eitthvað svo mikið með þessu unga pari, og þú VILT sjá góða hluti gerast fyrir þessar persónur.

1. „Eftir-hlé“ parturinn!
Svona klukkutíma og 40 mínútur inn í myndina tekur hún alveg ROSALEGAN kipp. Myndin hefur upp að þessum punkti aldrei misst dampinn, en um leið og karakterinn ICEBERG er kynntur til sögunnar verður myndin svo kvikindislega „intense.“ Meira svo heldur en nokkur önnur Cameron-mynd. Senurnar þar sem skipið er að sökkva eru óaðfinnanlegar og byggja fullkomlega upp spennu alla leiðina. Einnig er myndin rosalega falleg á þessum tímapunkti, t.d. þegar þú sérð gamalt fólk liggjandi saman í rúmi bíðandi þess að drukkna, eða írska móður sem les fyrir börnin sín áður en allt fer á kaf… (*tár). Allt þetta undir fiðlutónlist sem fer aldrei yfir strikið til þess að selja sig út. Svo þegar skipið er loksins sokkið og allir óheppnu orðnir að klökum þá sérðu svo brútal skot af fólki látnu í sjónum, þar á meðal ungabarni… Rosalegt. Aðeins virtur maður eins og Cameron gæti gert svona truflandi PG-13 mynd, og þá með innifalinni nekt í þokkabót. Gemmér fimmu, James!

Og núna….

.:TOPP 5 GALLAR VIÐ MYNDINA:.

5. Frasarnir!
Augljós kvörtun, en sumar (frægu) línurnar í myndinni vekja upp ofsalega mikinn kjánahroll, einna helst „I’m the king of the world!“ og „I’m flying!“ Ég veit ekki hvað James Cameron var að pæla, en þessar línur virkuðu eins og að framhluti skipsins gerði fólk einfaldlega sturlað. Hvað manni langaði stundum að Leo myndi bara hrinda Kate fram af skipinu eftir þessa setningu… ÞÁ væri hún fljúgandi…

Persónulega myndi ég samt aldrei henda þessari konu af skipinu. Hún er einum of falleg.

4. Gera’ða í bíl!
„Ástaratriðið“ í myndinni er leim. Fallegt, jú, upp að vissu marki en ofsalega leim. Skotið af hendinni í bílnum þar sem allt er þakið í greddumóðu er einum of bjánalegt þótt það sé dulinn tilgangur með því. Aftur á móti ef að rassinn á Leo myndi pressast upp við sömu rúðu stuttu síðar væri atriðið hæfilega skondið.

Hefði skipið ekki sokkið hefði ég ekki öfundað þann sem átti bílinn.

3. Ríki asninn!
Billy Zane er fæddur í þetta hlutverk (það er nú ekki eins og hann gerði margt annað gott á ferlinum) og ef það er einhver sem kann að búa til áhrifaríka skíthæla í bíómynd, þá er það herra Cameron. Cal, unnusti Winslet í myndinni, er skemmtilegt snobb með greinilega langt og þykkt prik fast upp í lyktarlausu borunni sinni. Cameron mjólkar fávitaskapinn samt stundum aðeins of mikið og gerir sjaldan tilraun til þess að gera karakterinn einhverju öðru en einhliða kvikindi. Í hvert sinn sem Zane birtist eru lendingarljós á honum sem segja að áhorfendur þurfti að hata hann meira en ísjakann.

Síðan tekur karakterinn að mínu mati frekar handahófskennda „sækó-breytingu“ og byrjar allt í einu að skjóta á skjáparið upp úr seinni hluta myndarinnar. Mjög stutt atriði þar sem þau hlaupa niður stigann og aftur neðar í skipið. Ekkert að þessu svosem og ég get að sjálfsögðu ekki ímyndað mér hversu óheill á geði maður yrði í þessum aðstæðum (hvað þá þegar maður er heimsklassa fífl nú þegar), en mér fannst myndin ganga langt yfir strikið með því að senda okkur sömu skilaboðin aftur og aftur („hataðu Cal. NÚNA!“) til þess að áhorfandinn myndi elska þá tilhugsun að unnusta hans heldur framhjá honum. Þetta með byssuna hefði þó mátt sleppa eða breyta, því það þjónar litlum tilgangi og myndin kemur því hvort eð er miklu betur til skila í öðrum atriðum hvernig þessi maður virkar. Aldrei er það sýnt betur en í senunni þar sem hann grípur aleitt, grenjandi barn upp úr þurru til að þykjast vera faðirinn svo hann komist í björgunarbát, og ekkert íhugar hann hvernig barninu líður.

2. Tónlistin!
Sum stefin eru yndisleg, en tónlistin í heild sinni endurtekur sig ALLTOF oft (sem hefur alltaf verið stærsta vandamálið hjá James Horner). Endalaust heyrum við sömu tónanna, aftur og aftur… og aftur. Það virkar ekki í öllum senum því maður við ekki alltaf hlusta á sama „úúúúúú-ið.“ Það drepur dramað í mörgum senum, og sérstaklega bláenda myndarinnar… Eins og má sjá í nr. 1. Svo tekur Celine Dion við þegar kreditlistinn byrjar, og það er ekki alveg að betrumbæta skapið.

1. Ellismellatussa!
Já, takk fyrir! Endirinn er það sem ég hér um bil HATA við myndina… Ekki bara er ég að tala um þetta daufa atriði í lokin þar sem allir klappa fyrir parinu í einhverjum draumi (hví???), heldur er bara eitthvað svo fjandi sorglegt (ekki á þannig hátt samt…) við það að sjá gömlu Rose henda bévítans hálsmeninu í sjóinn í lokin. Ókei… ég get skilið að þungi, sjaldgæfi og rándýri demanturinn hafi enga þýðingu fyrir hana, og þetta á að sjálfsögðu að vera táknrænt, en hún er hvort eð er svo nálægt dauðanum að það gerist ekkert nema slæmt ef hún þrykkir helvítinu i vatnið þegar hún gat rétt eins afhent menið til þeirra sem að höfðu fórnað þremur árum (!!!) í að leita af því (svona könnunarleiðangur kostar sko pening!). Ef ekki, þá gat hún gefið barnabarni sínu það sem erfðagrip.

Í lok myndarinnar voru liðin 84 ár frá því að hún fékk hálsmenið, þannig að hún hafði NÆGAN tíma til að gera hvað sem hún vildi, en þar sem hún er 101 árs væri bara hallærislegt að gera ekki meira með það af viti. Þessi endir er ekki fallegur! Það er engin lógía í því sem gamla konan gerir, heldur í staðinn bara asnalegur symbolismi, og þessi hegðun er það sturluð að maður veltir fyrir sér hvort að megnið af „Titanic-ástarsögunni“ hafi ekki rétt eins bara verið ýkja eða tilbúningur, athyglinnar vegna… Vegna þess að ef hún vill athygli, þá þarf hún ekki að gera annað en að henda meninu í vatnið fyrir framan alla á bátnum hjá Bill Paxton og félögum (eins og gerist í upprunalega endinum, sem er enn verri).

Jæja ókei, myndin hefur galla, en oftast bara þessa sem kvikmyndanördar og bíósnobb taka eftir og spá í. Flestir aðrir áhorfendur rúlla annaðhvort með þessari upplifun eða ekki, og ég tel að aðeins þeir sálarlausu finni ekki fyrir einhverjum áhrifum á meðan myndinni stendur. James Cameron er allan tímann að totta tárkirtla áhorfenda en hann gerir það samt aldrei með fullódýrum hætti nema í útvöldum tilvikum. Hann veit samt hvað hann hefur í höndunum (þ.e. hasardrifið „chick flick“ í bland við blockbuster-períódudrama – sem á sér nánast ekkert fordæmi!) og þótt myndin angi af mainstream Hollywood-leika þá getur ekki nokkuð maður neitað því að þessi leikstjóri er snillingur í sínu fagi. Og ef ég þyrfti að velja 20 myndir sem þú þyrftir lífsnauðsynlega að upplifa á stórum skjá með góðu hljóðkerfi, væri Titanic klárlega á þeim lista. Upplifunin er líka alltaf jafnsterk þegar öllu er á botninn hvolft, alveg sama hvað maður hefur séð hana oft! Hins vegar kýs ég persónulega oftast að hætta að horfa um leið og flekinn stígur á svið.

attaBesta senan:
Í hvert sinn sem fiðlusólóinn kikkar inn og við fáum að sjá gamla parið þá græt ég hærra inni í mér en ungabarn sem hefur misst ísinn sinn í gólfið.

Sammála/ósammála?