Sex and the City 2

Það sést strax á nafni mínu að ég tilheyri ekki lykilmarkhóp þessarar myndar. Ég hef horft á fáeina Sex and the City-þætti og hef fundist þeir hoppa á milli þess að vera þrælgóðir og hundleiðinlegir. Fyrri bíómyndin var enginn viðbjóður en hún var lítið annað en langt samansafn af klisjum, formúlum og litlum söguþráðum sem voru sífellt að endurnýja sig að óþörfu. Ég held einnig að ég hafi sjaldan séð mynd taka eins langan tíma að enda, og ég hélt að það væri viljandi gert til þess að hnýta alla hnúta og ljúka sögu þessara persóna í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar jafnast fátt á við þrjóskuna í Hollywood til að gera meira af því sem selur. Annars efa ég að konurnar hafi kvartað yfir þeirri ákvörðun að gera glænýja bíómynd, enda er almennt eitthvað við Sex and the City sem konur virðast elska sem við karlmenn munum aldrei nokkurn tímann skilja. Svona svipað og Rauðu seríurnar eða Ísfólkið.

Þegar ég hugsa um þessa mynd nr. 2 berst ég fyrir því að reyna að sjá hvað það er sem gerir hana að svona miklu kvennagulli. Ætli það sé húmorinn? Ég persónulega fann ekki fyrir neinu öðru en þvinguðu sitcom-gríni og einhæfum greddutilvísunum (takk, Samantha). Ætli það séu fötin? Ekki mitt að dæma reyndar. En hvað með samtölin? Ég myndi skilja að það hafi upphaflega verið aðdragandinn þegar þættirnir byrjuðu því þá voru samtölin snjöll og oft vel skrifuð. Núna fer þetta allt bara í hringi. Sama verð ég að segja um dramað. Það er ekkert grípandi eða áhugavert við það. Svo er það líka orðið svo áberandi hvað þetta fyrirbæri er að verða uppiskroppa með efni, því miðað við fyrstu myndina eru vandamálin í þessari mynd algjör skítur á priki. Í fyrri myndinni höfðum við t.d. aðskilnað af sökum framhjáhalds og feilað brúðkaup vegna þess að brúðguminn þorði ekki að mæta. Í þessari mynd er hringsólað í kringum agnarsmá vandamál í tvo klukkutíma og allt er leyst á innan við mínútu í lokin.

Þrátt fyrir að vera lítt hrifinn af fyrri myndinni þá get ég a.m.k. skilið af hverju hún var svona löng. Ég gæti ALDREI sagt það sama um þessa mynd. Í fyrsta lagi rista vandamálin ekki nógu djúpt til að verðskulda 145 mínútna lengd á bíómynd og í öðru lagi er alltof, alltof mikið af gagnslausum uppfyllingum sem gera ekkert nema að hamra ofan í mann hversu þunn þessi mynd er og hvað það hefur verið gaman fyrir leikkonurnar að taka hana upp. Besta dæmið væri karaókí-senan, sem var tilgangslaus út á alla kanta, en af einhverjum ástæðum ákvað leikstjórinn að leyfa henni að njóta sín í botn eins og hún væri gríðarlega mikilvæg. Það hefði verið léttilega hægt að þjappa heildarlengd þessarar myndar niður í svona cirka 90-100 mínútur, sérstaklega seinni hlutann. Það er mér óskiljanlegt hversu mikill hluti af þessari mynd gerist í miðausturlöndunum, þegar allt sem gerðist þar hefði hiklaust getað verið sýnt á korteri. Eina sem þær gera er að tala stöðugt um sömu vandamál aftur og aftur eða njóta sín með því að fara í sólbað, verslunarleiðangur eða út á lífið. Oftar en ekki leið mér eins og ég væri að horfa á heimildarmynd sem sýndi leikkonurnar í sólarlandafríi. Það eða tískusýningu.

Myndin er líka stöðugt að stríða manni með þessum litlu sub-plottum sem hún þykist vera að byggja upp. Söguþráðurinn með barnfóstruna (sem er leikin af hinni brjóstagóðu Alice Eve, úr She’s Out of My League) byrjaði ágætlega en svo varð EKKERT úr því, og það er hreint út sagt hlægilegt hvernig handritið ákvað skyndilega að vefja upp á því plotti eins og það hefði aldrei skipt neinu. Síðan fáum við senu með Penélope Cruz og hinum ávallt sjarmerandi Chris Noth. Þessi sena virðist stafa það út: „Við erum að byggja upp eitthvað sniðugt aukaplott,“ sem hefði verið mjög skemmtilegt þar sem Carrie/Big hjúskaparplottið var alltof grunnt til að verðskulda athyglina sem það fékk í heilli bíómynd. 20 mínútna þætti kannski. En hvað gerist svo? Penélope gjörsamlega hverfur og kemur aldrei aftur inn í myndina, sem gerir atriðið TIL-GANGS-LAUST!! Trúið mér, það er hellingur af svona atriðum í myndinni sem virðast stefna eitthvert en gera það svo ekki.

Ég býst við að stærsta ástæðan fyrir því að margar konur horfa ennþá á Sex and the City tengist persónunum. Ég get skilið þá ástæðu ef hún tengist fyrri þáttunum, en ekki bíómyndunum. Eina persónan sem mér líkar vel við áfram er Miranda (Cynthia Nixon), sem er skrítið vegna þess að ég var voða þreyttur á henni í síðustu mynd. Ég er orðinn svo hrikalega þreyttur á Samönthu (Kim Catrall) og er hálfpartinn farinn að hafa áhyggjur af geð- og líkamlegri heilsu hennar – konan þarf í alvörunni að finna sér nýtt áhugamál, og að sjá hana reyna að yngja sig sífellt upp er bara orðið sorglegt. Charlotte (Kristin Davis) er krúttlegust af stelpunum að mínu mati, en hennar sögu er gjörsamlega lokið. Það er ekkert sem þessi mynd getur gert til að byggja upp á persónusköpun hennar.

Svo kem ég loks að Carrie (Seabiscuit), sem hefur aldrei verið meira óþolandi heldur en í þessari mynd. Hún er barnaleg, þröngsýn og bara vanþakklát í orðsins fyllstu merkingu. Við fáum hér senu þar sem hún skiptist á gjöfum við eiginmanninn. Hann gefur henni heilt SJÓNVARP og hún einungis grettir sig og spyr af hverju hann gaf henni ekki skartgripi í staðinn. Svo hristi ég jafnframt hausinn yfir atriði sem kemur fyrir seinna í myndinni (Spoiler???), þar sem hún er nýbúin að gera „slæman hlut“ með sínum fyrrverandi. Henni líður illa yfir því, segir manninum sínum frá því og einhverra hluta vegna leiðir það til þess að hann ákveður að verðlauna henni með demantshring (ÁN… DJÓKS!). Ég dýrka skilaboðin sem þetta sendir til þeirra ungu stelpna sem horfa á þetta: Það er allt í lagi að kyssa annan gaur því þér verður verðlaunað seinna, sem þýðir að þú þarft varla að einblína á það hvort þú hafir lært eitthvað eða ekki.

Sex and the City heimurinn er augljóslega ekki fyrir mig. Mér líður bara hreinlega illa við það að umgangast svona mikinn materíalisma þar sem það versta sem gæti gerst fyrir aðalpersónurnar væri það að ferðast í almennu farrými í flugvél. Ég skil vel að konur hafi gaman af því að horfa á fatnaðinn og fallegu karlmennina (meira að segja *ég* get ekki neitað því hversu sjarmerandi Chris Noth er, þrátt fyrir perralega tóninn í röddu hans). Eins og ég segi, það er okkur karlmönnum dulrænt hvað það er við þetta fyrirbæri sem heillar kvenkynið upp úr rándýru Gucci-skónum. Ég get alls ekki sagt að Sex and the City 2 sé góð eða jafnvel þolanleg vídeóafþreying. En hörmuleg er hún ekki heldur. Alveg sama hversu pirrandi lykilpersónurnar geta verið þá ná leikkonurnar rosalega vel saman og sú kemistría skín alltaf í gegn. Partur af mér langar auðvitað til að kýla þessa mynd í gólfið og gefa henni botneinkunn en ég get ómögulega hatað hana nógu mikið. Hún fer meira í taugarnar á mér og ég neita að sitja yfir henni aftur. Skal miklu frekar horfa aftur á Twilight fimm sinnum í röð.

Besta senan:
Á maður að vera shallow og segja allt sem tengdist Alice Eve??

(þessi grein er upphaflega skrifuð þann 05.06.2010)

Sammála/ósammála?