New Moon

Fyrir árið 2008 tengdi ég alltaf nafnið Twilight við afskaplega gleymdan þriller frá árinu 1998, þar sem Gene Hackman og Paul Newman fóru með helstu hlutverk. Eina ástæðan af hverju ég man eftir myndinni var sú að Reese Witherspoon sást berbrjósta í henni (og hefur aldrei gert það síðan. Svekk). En nú í dag þegar einhver minnist á þetta orð er óhjákvæmalegt að hugsa ekki til Edwards, Bellu, glitrandi vampíra og öskrandi unglinga sem vilja bíta í Robert Pattinson.

Þegar ég sá fyrri myndina þá fattaði ég ekki þetta æði. Myndin var hæg, hallærisleg og einfaldlega leiðinleg. Mér var skítsama um allar persónurnar og þá sérstaklega parið sjálft. Eftir að hafa séð New Moon er ég meira farinn að skilja hvað (kven)fólk sér svona spennandi við þetta. Þetta er bara eins og að horfa á The O.C. með smá vott af fantasíu. Stelpur elska líka unglingadrama og ástarþríhyrninga, álíka mikið og strákar eru hrifnir af treköntum og sprengjum. New Moon er eins og 50 milljón dollara sápuópera. Sagan fókusar lítið á vampírusamfélagið sjálft eða goðsagnir varúlfa. Það er allt í bakgrunninum og ef einhver strákur (sem er neyddur til að horfa á þetta með kærustunni) ætlast til að sjá einhvern hasar, þá verður hann vægast sagt vonsvikinn. Það eru tvö-til-þrjú hasaratriði í mesta lagi, og þau endast ekki í meira en hámark tvær mínútur. Nei, myndin fókusar frekar á persónurnar, sem er ekki slæmt fyrir utan það að sjálf persónusköpunin er í algeru lágmarki. Undarlegt.

Áður en ég fer að rakka myndina niður þá vil ég taka það skýrt fram að mér þótti hún töluvert skárri heldur en Twilight. Ástæðan er sú að þessi er mun vandaðri (enda dýrari). Stíllinn er ekki eins kaldur og ljótur heldur er litapalettan miklu flottari. Dramað er aðeins betur leikstýrt (líka nýr leikstjóri), sem þýðir að leikararnir gera sig ekki (alltaf) að algerum fíflum þegar þeir tjá tilfinningar sínar. Þessi saga flæðir einnig miklu betur þótt hún sé alltof lengi að koma sér að efninu. Hún byrjar þokkalega en um leið og Robert Pattinson er tímabundið farinn er voða lítið sem gerist og söguþráðurinn fer alveg í hringi. Það er takmörkuð þróun á skjánum, bæði hjá persónum og þessu svokallaða plotti. Myndin einblínir mestmegnis á býsna stefnulausa ástarsögu á milli Kristen Stewart og Taylor Lautner (sem er orðinn HELmassaður). Alltof miklum tíma er eytt í þau, og vegna þess að handritið (sem byggt er á bók sem ég hef ekki lesið) fer með persónur eins og teiknaða spýtukalla var mér voða sama hvað myndi gerast fyrir þau.

Ég skal gefa ykkur smá dæmi um hvernig atburðarás myndarinnar spilast út:

(SPOILER, býst ég við)

* Edward gefur skít í Bellu – Bella er þunglynd (fyndnasti kafli myndarinnar, athugið það!)
* Jacob kemur og huggar – Bella er minna þunglynd
* Bella gefur skít í Jacob (en vill samt ennþá hafa hann hjá sér – tussan) – Jacob þunglyndur
* Bella vill Jacob – Jacob gefur skít í Bellu
* Edward hringir, Jacob svarar – Edward þunglyndur
* Edward og Bella aftur saman – Jacob aftur þunglyndur

(SPOILER ENDAR)

Eftir að hafa eytt alltof miklum tíma í að stilla upp atburðarásinni fyrir framhöldin hrekkur sagan svo aftur í gang rétt undir lokin, og þá loks fór hún að verða eitthvað áhugaverð. Senurnar með Volturi-samfélaginu voru þær bestu – a.m.k. af þeim sem hægt var að taka alvarlega – og hefði alveg mátt vera meira af þeim. Michael Sheen (sem greinilega er áskrifandi að vampíru/varúlfahandritum) er líka heldur betur að fíla sig í sínu hlutverki og er ansi gaman að horfa á hann. Aðalleikararnir, Pattinson og Stewart, eru miklu betri saman en í fyrri myndinni, þótt það sé erfitt að hlæja ekki að ýktu töktum þeirra. Mér fannst líka skondið að sjá hvað Pattinson elskar mikið að labba í slow motion-skotum.

Ég er ekkert sérlega spenntur að sjá framhaldið, þ.e. Eclipse, heldur meira forvitinn. Ég vona líka að sögurnar fari loks að gera eitthvað annað en að byggja sífellt upp næstu kafla. New Moon er skítsæmileg semi-fantasía/ástarsaga í besta falli. Hörðustu aðdáendur munu samt sjá myndina sama hvað og ekki taka mark á neikvæðum ummælum. Mér finnst það reyndar frábært, því sjálfur neita ég að hlusta á gagnrýnendur þegar ég dýrka eitthvað sem þeir yfirleitt hata. En þeir sem dýrkuðu fyrstu myndina – og ég veit að margir gera það – munu ábyggilega elska þessa útaf lífinu, þangað til að gelgjuárin eru að baki.

PS. Af hverju er Bella svona snarklikkuð gella?? Sumar ákvarðanirnar sem hún tekur eru alveg út úr kú og á engan hátt eðlilegar, jafnvel fyrir unglingsstelpu sem á sér ekkert líf utan sambandsins við kærastann.

Besta senan:
Þegar Jacob rífur sig úr bolnum. Hi-LA-rious.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 25.11.2009)

Sammála/ósammála?