Twilight

Sjaldan hef ég séð eins viðburðarlitla mainstream unglingamynd og Twilight, og ég er ennþá að reyna að sjá hvað það er við þetta fyrirbæri sem heillar heilu unglingakynslóðirnar upp úr skónum og brókum. Annaðhvort er maður alveg dottinn úr sambandi við veröldina eða yngri kynslóðin þarf að græja sér betri smekk til að börnin þeirra verði ekki uppeldislega í hættu. Ég hef náttúrulega ekki lesið bækurnar eftir MILF-mormónann Stephenie Meyer. Kannski eru þetta sjúklega grípandi sögur á blaði. Ég get m.a.s. alveg áttað mig á aðdrættinum því efniviðurinn er ansi áhugaverður úr fjarska (LENGST úr fjarska), en einhvern veginn efast ég um að ég komist að því héðan af þar sem að kvikmyndaútgáfan á fyrstu myndinni hvetur mig engan veginn til að vilja lesa restina.

Stærsti gallinn við þessa mynd, burtséð frá arfaslökum samræðum og fullt af pirrandi leikurum, er einfaldlega klaufalegur frásagnarháttur. Myndin er virkilega, virkilega hæg og tekur sinn tíma að byggja upp samband aðalpersónanna. Þetta væri alls ekki slæmur hlutur ef handritinu hefði tekist að fá mann til að halda eitthvað með þeim. Það var ekki viljandi að minni hálfu en mér var fljótt sama um Edward og Bellu og aldrei fann ég fyrir því að þau *ættu* að vera saman. Kannski er það líka vegna þess að sumar senurnar á milli þeirra eru meira hallærislegar heldur en hlýjar og fallegar, enda sýna þau Kristen Stewart og Robert Pattinson sífellt svo þunglynd svipbrigði út alla myndina að það er stundum ef ekki oftast erfitt að taka þau alvarlega. Eini leikarinn sem sýndi einhvern vott af persónudýpt var Billy Burke. Hann er eina persónan sem ég fann eitthvað til með, þó ekki nema í mínútu. Mér líkaði einnig þokkalega við Peter Facinelli. Hann er e.t.v. viðkunnanlegasti gæinn í allri myndinni.

Ég fann ekki fyrir neinni „kemistríu“ hjá áhugalausa skjáparinu og ef að slíkt feilar í ástarsögu, þá er afskaplega lítið eftir… Uppbyggingin að sambandinu þeirra er líka voða furðuleg, vægast sagt. Ég er allavega viss um að flestar unglingsstelpur myndu telja það óhugnanlegt að gaur nokkur – alveg sama hversu myndarlegur hann er – elti þær víða út um allan bæ (stalker-viðvörun!) og horfir síðan á þær sofandi . Nei nei, þetta þykir víst bara mjög rómantísk nálgun í þessari sögu og sýnir greinilega mikið frumkvæði.

Er ekki í lagi???

Illmenninn eru líka algjör brandari. Þau eru alveg svakalega vannýtt og barnalega einföld. Cam Gigandet (sem var einnig vondi kallinn í einni uppáhalds „lélegu“ myndinni minni, Never Back Down) skýtur upp kollinum snemma í myndinni og af einhverjum ástæðum hverfur hann síðan í dágóðan tíma og kemur ekki aftur fyrr en alveg nálægt endanum. Um það leyti áttar myndin sig allt í einu á því að hún þurfi á hasardrifnum lokasenum að halda. Hentugt! Annað hvort var þessi maður til staðar sem uppfylling í annars heldur tómlegri sögu eða hann hefur verið mikið klipptur út úr lokaútgáfunni. Ég giska á hið fyrrnefnda.

Eins og glöggir unnendur kvikmynda ættu að vita þá eru til alltof fáar vampírumyndir sem eitthvað er varið í. Twilight fer kannski einhverjar nýjar leiðir en hún er samt alveg hlægilega máttlaus og þreytt miðað við hugmyndaflugið. Leikstjórnin er metnaðarfull miðað við lítinn pening en hún er líka rosalega stirð, jafnvel kjánaleg á alvarlegustu stöðum. Samspil leikara er svo flatt að hálfa væri nóg og andrúmsloftið er ekki eins kuldalega kúl og það reynir að vera. Ég geri mér grein fyrir því að 14 ára stelpur eru stærsti markhópur myndarinnar, og á meðan að þær sjá eitthvað gott í þessu er heildin að gera eitthvað rétt. Sem hlutlaust álit var ég ekkert alltof hrifinn og leið mér bara nokkuð heimskum eftirá. Leigið ykkur frekar hina sígildu ’80s vampírumynd, The Lost Boys. Miklu meira bit í henni og músíkin er margfalt betri. En ef sóst er eftir trúverðugri ástarsögu mæli ég frekar með Lars and the Real Girl.

Besta senan:
Þegar pabbinn fær hnífsstungu í hjartað. Andlega hnífsstungu þ.e.a.s.

(Þessi grein er upphaflega skrifuð þann 05.12.2008)

Ein athugasemd við “Twilight

Sammála/ósammála?