Battle: Los Angeles

Það er hálf sorglegt að sjá mynd sem reynir að vera svo fersk enda með því að vera svona stöðluð og klisjukennd. Hugmyndin er nokkuð skemmtileg; Mynd um geimveruinnrás sem er gerð í hráum stríðsmyndastíl. Upp að þessum punkti höfum við séð allar mögulegu tegundir sci-fi innrásarmynda en svo ég viti til man ég ekki eftir að hafa séð slíka sem sýnir einungis einn hóp hermanna koma sér í gegnum allt kaosið. Litli, vitskerti hasarfíkillinn í mér vildi svo innilega að eitthvað ljómandi fínt kæmi út úr þessu öllu. Ég reyndi meira að segja að hundsa það hversu vondar fyrri myndir leikstjórans voru. Battle: Los Angleles hefði, í höndum annars leikstjóra og sérstaklega annarrar handritshöfundar, getað orðið að epískri strákamynd með fjörið í fimmta gír, en frekar en að kæta mann með mögnuðum hasar, óstöðvandi spennu og skotheldu afþreyingargildi virðist myndin bara vera ósköp þreytt hrúga af hávaða, formúlum og senum sem við höfum séð áður í margfalt betri myndum.

Þessi mynd er lítið annað en afrakstur þess ef þú tækir endurunnar sci-fi og stríðsmyndaklisjur og límdir þær saman við keyrsluna á Black Hawk Down (ásamt meðfylgjandi galla um laka persónusköpun) og útlitið sem og hönnunina úr District 9. Allt bæði inn á milli og í kringum þennan pakka fer algjörlega eftir uppskrift og ef þú ert ósammála því þá ertu annaðhvort mjög ungur eða hefur ekki séð mikið af bíómyndum.

Stærstu gallarnir fara að láta bera á sér ferlega snemma. Fyrstu 20 mínúturnar fara í það að kynna persónurnar en það gengur eitthvað illa því við fáum ekkert annað en örstuttan prófíl á hvern og einn (mjög vægt til orða tekið) ásamt nafni sem kemur upp á skjáinn svo áhorfandinn viti hver á að vera mikilvægur. Þetta verður síðan merkilega tilgangslaust um leið og hasarinn fer í gang því handritinu er frekar sama um megnið af þessum persónum. Allir breytast fljótt í skotmörk sem hlaupa mikið og öskra næsta klukkutímann og það bætir úr engu að hermennirnir líta allir eins út. Hristingur á tökuvélinni er líka það mikill og klippingin of hröð til að maður þekki nokkurn mann í sundur. Ég náði stundum ekki að átta mig á því hver dó fyrr en kamerumaðurinn minnkaði taugaveiklun sína. Black Hawk Down gerði eitthvað svipað, nema þar var aðeins þægilegra að muna hver var hver því myndin var stútfull af frægum andlitum. Battle: LA gerir nákvæmlega sömu mistök og sú mynd með því að tefja hasarinn til að kæfa sögunni með mörgum persónum í byrjun áður en hún rennur út í stanslaus læti sem endast alveg fram að kreditlistanum. Þetta fer alveg gegn grundvallarreglum handritssmíðar. Það þýðir ekki að ætlast til þess að þér sé annt um þetta fólk ef þú þekkir það ekki neitt, og hasarinn nær aldrei að byggja upp spennu ef þér er sama um liðið. Þarna er tilfinningalegi kjarninn fokinn út um gluggann og spennuvíman í lágmarki líka. Þetta er ekkert annað en risastórt skammastrik fyrir heildina.

Ég kenni samt leikstjórnum mest um það að hafa ekki hugmynd um hvernig mynd hann vildi gera. Var hann að reyna að búa til mjög svo háværa afþreyingarmynd eða stríðsmynd með geimverum sem tekur sig alvarlega? Mér leið eins og ég var að horfa á bæði, og í þeim tilfellum þar sem dramað tók sig alvarlega átti ég erfitt með að hlæja ekki.

Því verður að sjálfsögðu ekki neitað að myndin lítur alveg hrikalega vel út. Brellurnar eru góðar og framleiðslugildið traust. Maður sér peninganna sem fóru í myndina á skjánum og hún græðir bara fleiri stig á því. Það hefði samt verið huggulegra hefði leikstjórinn ekki misst sig í Paul Greengrass/Michael Bay töktunum því hristingurinn og klippingin gerir allt nema að styrkja hasarsenurnar. Sumar voru ágætar en ég fékk bara hausverk yfir flestum þeirra. Þetta er auðvitað dauðadómur þegar þú reynir að gera mynd sem reynir að skemmta þér með látum, ekki ósvipað því að horfa á söngvamynd þar sem þú hatar meirihlutann af lögunum. Fyrir minn smekk er Battle: Los Angeles undirstrikun á það að það er klárlega hægt að fá fullmikið af því góða. Ofbeldið skipti mér engu því persónurnar voru ómerkilegri heldur en sandpappír (biðst velvirðingar til aðdáenda sandpappírs). Eftir smá tíma leið mér eins og ég væri að horfa á sama hlutinn aftur og aftur: Dúndrandi skothríð, öskrandi hermenn, mikið hlaup, miklu meira hermannablaður og sömu geimverurnar að skjóta eða vera skotnar. Og það ýmsa sem minnti mig á District 9 fékk mig að sjálfsögðu til að hugsa „Mikið vildi ég að ég væri frekar að horfa á hana aftur í staðinn fyrir þessa…“ Á endanum fór ég heim og setti þá perlu í tækið. Það bætti upp fyrir heldur svekkjandi bíókvöld.

Besta senan:
Eitthvað sem skeði inni í rútu þegar reynt var að rústa einhverri lítilli þotu. Þetta rennur dálítið saman í eitt.

 

Sammála/ósammála?