Source Code

Source Code er eins og besta mynd sem hefur verið gerð eftir tölvuleik sem er ekki til (á eftir Scott Pilgrim kannski). Grunnhugmyndin er sú að við fylgjumst með Jake Gyllenhaal að sífellt endurupplifa sömu 8 mínúturnar um borð í lest rétt áður en hún springur. Þetta virðist alltaf enda eins hjá honum og í byrjun hefur hann ekki minnstu hugmynd um hvað er í gangi (alveg eins og áhorfandinn). Fljótlega kemst hann að því að hans hlutverk er að nota þennan tímaramma til að finna sprengjuna og komast að því hver hryðjuverkamaðurinn er.

Það er erfitt að sjá þetta ekki fyrir sér sem tölvuleik, þar sem þú hefst alltaf á sama upphafsreitnum eftir dauða og hefur x mikinn tíma til að ljúka við ákveðið verkefni og kanna umhverfið úr öllum áttum. Það er vissulega líka hægt að kalla þetta sci-fi útgáfuna af Groundhog Day en eftir því sem sagan heldur áfram að þróast fer sá samanburður að dofna. Það er hellingur í þessum pakka sem má rekja til annarra mynda og jafnvel þátta, en eitt af því síðasta sem ég hugsaði um á meðan myndinni stóð var hvaðan ég hafði séð þetta allt saman áður. Hún virkar ófrumleg kannski í byrjun en stefnurnar sem hún tekur sýna að úr gömlum hráefnum er hægt að móta alveg ótrúlega fullnægjandi máltíð.

Source Code er greinilega ekki fullkomin mynd, en hún hefur næstum því allt sem ég vil fá út úr góðum (sci-fi) spennuþriller. Hún er þétt skrifuð, margbrotin, dularfull, skörp, öðruvísi, spennandi, ófyrirsjáanleg, smekkfull af hugmyndum og stýrist af heilmikilli orku í þokkabót. Þetta er svona mynd sem ég held að Hitchcock hefði orðið hrikalega ánægður með. Söguþráðurinn fer aldrei á sjálfsstýringu né brýst hann út í vitleysu. Óþarfa exposition-fyrirlestrar eru í algjöru lágmarki og er þar af leiðandi frekar ætlast til þess að plottið afhjúpist á mátulegum hraða í stað þess að henda öllum svörunum framan í þig. Plottið er stöðugt í vinnslu og sér til þess að halda athygli þinni með því að kippa mottunni reglulega undan þér með úthugsuðum fléttum sem styrkja heildarsöguna, í stað þess að vera bara þarna til að koma á óvart. Ofan á þetta allt fáum við svo Jake Gyllenhaal, sem er rosalega góður í allri ringulreiðinni. Hann tapar aldrei sambandi við áhorfandann og fylgir maður honum alla leið.

Duncan Jones verður bráðum ekki lengur þekktur sem einungis sonur Davids Bowie sem kom öllum gagnrýnendum á óvart með hinni geggjuðu Moon árið 2009. Sú mynd var augljóslega ekki eitthvað gerðist bara af heppni, og miðað við afraksturinn hér er tvímælalaust hægt að segja að þessi gaur sé kominn til að vera. Hann er á sama stað núna og t.d. Rian Johnson og Ben Affleck hvað leikstjórn varðar. Allir þrír hafa sýnt eftirtektarverða hæfileika og gert tvær nautsterkar myndir í röð. En Jones er ekki bara efnilegur, heldur einhver sem kann að nota heilann og ætlast einnig til þess að áhorfandinn geri það sama. Source Code er mynd sem krefst þess að þú sért svolítið vakandi á meðan þú horfir á hana, en hún gerir sér einnig grein fyrir því að þú þurfir að slökkva á allri vantrú svo þú getir keypt þetta vægast sagt langsótta plott sem hún hefur. Þetta er samt ástæðan af hverju þetta kallast Science FICTION, og greindin í handritinu hér liggur aðallega í samsetningu sögunnar, ekki lógík.

Örfáar holur eru samt óhjákvæmalegar og það eru ýmis tilfelli þar sem augljóslega líður lengri tími en myndin sýnir. Það er frekar einkennilegt hvað Gyllenhaal er oft sýndur gera skuggalega mikið á þessum litla tíma sem hann hefur, en þarna erum við lent á svipuðu vandamáli og Keanu Reeves-klassíkin Speed hafði. Í þeirri mynd (fyrir ykkur nýliðanna sem hafa ekki séð hana – skammist ykkar!) átti rúta að keyra stöðugt á 80 km hraða (ef ekki, þá BÚMM!) í dágóðan tíma, en allt heilbrigt fólk tekur greinilega eftir því að hún fer langt undir slíkan hraða á köflum. Þannig að ef þú getur komið þér undan þeirri smámunasemi að fókusera á tímarammann í Source Code, þá ættirðu að vera ágætlega staddur. Því miður er þó lítið hægt að gera til þess að laga litla friðsemdarmóralinn í lokin, sem var pínu vandræðalegur. Svo mun ég ávallt syrgja fjarveru snillingsins Clint Mansell, sem átti fyrst að sjá um tónlistina en þurfti að sinna öðru verkefni. Chris Bacon stendur sig þokkalega með músíkina í hans stað, en hún er fullhefðbundin fyrir mynd sem er svona fersk.

Þessi mynd er samt jafnmikið í eigu Gyllenhaals og leikstjórans (rétt eins og Sam Rockwell átti vafalaust hinn helminginn af Moon). Þessi stöðugt upprísandi leikari gerir margt við hlutverk sem aðrir hefðu léttilega gert minna úr. Rullan býður í rauninni ekki upp á margt annað en stöðugt tilhlaup og undrunarsvipi en Gyllenhaal sýnir þessu mikinn áhuga og nær að vera óvenju líflegur og heillandi. Það er ekki beint hægt hrósa aukaleikurunum fyrir fjölbreytni, og þar á ég við um þau Michelle Monaghan, Jeffrey Wright og Veru Farmiga, en það er heldur ekki mikið sem þau hafa í höndunum. Þau eru lítið annað en nauðsynlegir aukahlutir. Svipað og lestin sjálf eru þau þarna til að styðja við Gyllenhaal og hans sögu. Lykilatriðið er að þau þjóni sínum tilgangi án þess að vera óathyglisverðari til áhorfs heldur en veggfóður. Þau gera góð skil allavega, og sýna þessu meiri áhuga en margir aðrir hefðu gert. Kannski er Jones bara svona spennandi gaur til að vinna með.

Ef þessi sonur Bowies heldur svona góðu róli áfram munu sjást risastór hjörtu í mínum augum þegar einhver minnist á hans nafn. Í lokin vil ég segja þér að sjá þessa mynd ef þig langar að horfa á eitthvað sem er spennandi og með virkan heila. Hún er alveg peningana virði og í versta falli taparðu ekki nema tæplega 90 mínútum af ævi þinni.

PS. Ég veit alveg hvað ég myndi gera með Michelle Monaghan á 8 mínútum…

Besta senan:
Öll bévítans myndin er ein risastór, geðveik sena, spiluð aftur og aftur (með breytingum).

Sammála/ósammála?