One Day

Maður þarf ekki að vera sérfræðingur í kvikmyndasögu til að sjá það að rómantískar myndir hafa í gegnum tíðina fylgt ákveðnum uppskriftarhefðum. Það þýðir svosem ekki annað, enda er ekki eins og geiri mainstream ástarsagna bjóði upp á margt án þess að gera þær að öðru en því sem þær eru og hafa alltaf verið. Í flestum tilfellum eru aðeins tvær mögulegar leiðir til þess að binda enda á þær (hugsið Shakespeare). Helstu kröfurnar sem maður gerir til slíkra mynda er að kemistrían á milli aðalleikaranna sé góð. Ef þér er slétt sama um annan eða báða aðilana, þá er þetta dæmt til að mistakast. Sjálfur er ég mjög rómantískur maður í eðli mínu en líka er ég einhver sem horfir meira á kvikmyndir heldur en hefur sokkaskipti. Þess vegna tek ég ekkert illa í það þegar rómantísk saga breytir aðeins til og þorir að vera öðruvísi, því þá er hún strax komin með plús í kladdann.

One Day hefur ábyggilega frumlegustu og athyglisverðustu frásögn sem ég hef séð í ansi langan tíma, sem þýðir að ég var farinn að sýna henni talsverðan áhuga áður en langt um leið. Það er eitthvað hálf snilldarlegt við þá hugmynd að sýna aðeins einn dag á ári (15. júlí) í lífi tveggja góðvina yfir meira en áratug (athugið þarna að ég notaði ekki orðið par. Það kemur allt síðar. Kannski). Hins vegar er sagan – hvort sem það er myndin eða bókin sem hún er byggð á – ekki alveg meðvituð um það hversu kröfuharðan strúktur þessi uppsetning býður upp á.

Saga sem er sögð í þessum dúr kemur upplýsingum sínum til skila án þess að matreiða þær ofan í mann ónáttúrulega og eins dags glugginn er mjög sniðug leið til þess að sýna hversu mikil þróun getur verið á hverju ári í lífi okkar. Innlitið er skemmtilegt en mér finnst eins og bóka- og handritshöfundurinn hafi aðeins of mikið svindlað sig í gegnum vinnuferlið sitt í stað þess að finna hugmyndaríkar og snjallar leiðir til að koma ákveðnum upplýsingum til skila.

Gallinn við þessa fersku frásögn er einfaldlega sá að hún teygir rosalega á trúverðugleikann með hvernig helstu viðburðirnir eiga sér stað allir á sama deginum á mismunandi árum. Stundum hoppar myndin fram í tímann og gefur okkur raunsæja uppfærslu sem við vissum ekki áður, og það er sniðugt og eðlilegt, en mest megnis gerast stærstu hlutirnir allir á þessum akkúrat sama degi. Kannski er þessu ætlað að vera symbolískt eða kannski er þetta bara höfundurinn að segja: „Æ, skítt með það. Það pælir enginn í þessu.“ Ef þetta hefði aðeins gilt um lykilparið í myndinni þá hefði verið aðeins auðveldara að sópa þessu til hliðar, en í sögunni á þetta líka við um aukapersónur.

Myndin virðist heldur ekkert fela það sérstaklega vel hvert hún stefnir í lokaþriðjungnum. Hún reynir að vera eins óljós og hún getur, en maður sér í gegnum það engu að síður, og það er eiginlega allt upphafssenunni að þakka. Sennilega hefði verið betra að sleppa því að byrja söguna árið 2006 og fara beint yfir í 1988. Leikstýran Lone Scherfig (sem kynnti t.d. heiminum fyrir Carey Mulligan fyrir nokkrum árum síðan) sýnir samt efninu mikla hlýju, alveg frá kvikmyndatöku til tillits til raunæis, og sést það áberandi á samskiptum persónanna sem verða sjaldnast ótrúverðug. Myndin hefur líka þægilegan, ljúfan tón og ágætlega lágstemmt flæði þangað til að maður sér eftirá hvað ræman var í raun og veru löng. Hún rétt skríður yfir 105 mínútur án kreditlista en samt haltrar hún áfram endalaust eins og hún sé byrjuð að skríða á þriðja klukkutímann. Eftirtektarvert en svosem ekki ófyrirgefanlegt.

Svo ég snúi mér loksins að einhverju almennilega jákvæðu (án gríns, þá var ég alls ekkert svo ósáttur við þessa mynd) þá líkaði mér prýðilega við persónurnar og fannst leikararnir standa sig nokkuð vel. Anne Hathaway er alltaf ómótstæðileg þegar hún brosir svona oft (eða fækkar fötum) og þegar kemur að dramatískum tilþrifum vantar ekkert upp á. Jim Sturgess er fínn á móti henni og hefur það fram yfir hana að maður kaupir náttúrulega hreiminn hans. Hathaway reynir sitt besta en stöku sinnum hljómar hún eins og hún sé að gera grín að því hvernig bretarnir tala.

Endirinn er ekki áhrifalaus þótt teygður og fyrirsjáanlegur sé en yfir heildina felur One Day í sér ákveðin huggulegheit sem erfitt er að laðast ekki pínulítið að. Það er haugur sem ég hef út á að setja og það má vel vera að þetta sé einhver gallaðasta ástarsaga sem ég hef hrífst dálítið af. Ég efa þó ekki að myndin hefði getað orðið að einhvers konar klassík ef sagan, með þessari geggjuðu hugmynd, hefði verið örlítið betur samsett. Ég mæli samt með henni fyrir þá sem eru ekki jafn smámunasamir og ég. Stelpur með áhuga á rómantík og raunsæi í sama pakkanum fá það sem þær vilja og drengirnir sem eru með þeim verða kannski ekki ósnortnir heldur.

fin

Besta senan:
Það er nokkuð brútal „reveal“ skot þegar Sturgess er í símanum við kærustu sína á meðan hann passar ungbarn.

Sammála/ósammála?