Our Idiot Brother

Ég ætla ekkert að leyna því að mér finnst þeir eiga skilið góðan löðrung sem finnst Paul Rudd vera leiðinlegur gamanleikari, því sjálfum finnst mér hann vera einn sá viðkunnanlegasti sem maður finnur núorðið í bíómyndum. Hann er fjölbreyttari en maður myndi halda og gefur frá sér eitthvað svo kætandi strauma að það er gjörsamlega ómögulegt að hata hann, hvort sem hann er í lélegum myndum eða ekki. Hann er einmitt þessi gæji sem bara virðist vera svo huggulega kammó og fínn, og ég myndi ekki hika við það að fá mér bjór með honum ef mér gæfist tækifærið til þess.

Það sem Our Idiot Brother gerir er að sanna allt þetta fyrir mér enn einu sinni og ef til vill hækka álit mitt á þessum kauða ennþá meir. Rudd leikur án nokkurs vafa einhvern elskulegasta aulabárð síðari ára og það þori ég að fullyrða án þess að blikka. Karakterinn hans, Ned, er einlægur, fyndinn, pínu steiktur (enda klassískur grashaus), oft galtómur í hausnum en almennt einstaklega góðhjartaður náungi sem fær mann til að spyrja sig: “Af hverju í heitasta helvítinu er ekki til fleira svona fólk?”

Árið 2011 mun einn daginn þykja nokkuð sögulegt fyrir að vera það kvikmyndaár þar sem bandarískar gamanmyndir voru að megnu til húmorslega grófar og ekki alveg ætlaðar áhorfendum sem ekki væru komnir langt á unglingsárin. Þið vitið, þessar sem eru með aldursmerkið R vestanhafs. Listinn yfir gamanmyndir ársins býður til dæmis ekki upp á margt annað, en til dæmis höfum við fengið Hall Pass, Bridesmaids, The Hangover: Part II, Bad Teacher, Horrible Bosses, Friends with Benefits (sem er reyndar á mörkum þess að teljast með), The Change-Up og 30 Minutes or Less. Það má vera að ég sé að gleyma einhverri en ég var mest hissa að sjá að sú mynd sem kom mér í besta skapið var Our Idiot Brother. Myndin er ekki einu sinni gróf og sækist heldur ekki í hlátur í annarri hverri senu. Í staðinn er hún bara ljúf indí-gaman(drama)mynd með, en í senn ein af betri “fílgúdd” myndum ársins.

Fyrir utan að vera aldrei neitt afskaplega fyndin (þó hún haldi manni reglulega brosandi) þá þjáist myndin talsvert fyrir það að áhorfandinn veit fljótt í hvaða átt hún er að fara og hvernig boðskapur hennar mun spilast út. Það kemur í rauninni ekkert á óvart en um leið og maður er tilbúinn til að sópa því til hliðar er hið fínasta mál að skella bara löppunum upp og fylgjast með þessum yndislega Ned karakter, sem Rudd túlkar hér um bil af stakri snilld. Þær Elizabeth Banks, Zoey Deschanel og Emily Mortimer eru frábærir liðsaukar sem sjálfhverfu systur Neds og aðrir aukaleikarar gera nákvæmlega allt sem þeir eiga að gera, og þá bara nokkuð vel. T.J. Miller er þar á meðal dásamlega freðinn sem „óvinur“ Neds.

Eins ófrumleg og þessi mynd er og eins fyrirsjáanleg og hún er, þá er hún vel þess virði að mæla með og horfa á. Þú munt allavega vera ögn glaðari eftir hana og slíkt hrós eitt og sér sýnir að maður þurfi ekki alltaf útpældar og gallalausar kvikmyndir til að líta á lífið aðeins jákvæðari augum. Stundum nægir bara að horfa á drullugóða mynd, og það er ekkert að því.

Besta senan:
Þessi með peninganna í lestinni er drullugóð þar sem hún sýnir persónuleika Neds alveg í fullu ljósi. Annars er mjög erfitt að velja. Ég hélt sama glottinu út allar 90 mínúturnar (nema í dramanu)

Sammála/ósammála?